«

»

Molar um málfar og miðla 346

Hún sigraði Júróvisjónkeppnina, sagði umsjónarmaður  poppþáttarins, sem   sjónvarp ríkisins  býður okkur upp á á laugardagskvöldum. Sigraði keppnina. Það var og.

  Á vef Ríkisútvarpsins  (03.07.2010) stendur:…   og fyrsta skóflustungan af nýju gróðurhúsi var tekin. Hér er  ruglað saman forsetningunum að  og   af.  Ekki er tekin skóflustunga af  nýju gróðurhúsi, heldur  að   nýju gróðurhúsi.

   Árni Johnsen alþingsmaður  tekur stundum einkennilega til orða. í Morgunblaðinu (03.07.2010) er haft eftir honum: Ekki þykir einleikið að í Eyjum skuli ekki vera til bygging eftir þessa rómuðu dóttur  Eyjanna. Molaskrifari hnaut um  orðið einleikið í þessu samhengi.  Þegar sagt er að eitthvað sé ekki einleikið, þá  skilur  Molaskrifari það svo að eitthvað sé ekki með felldu. Það er ekki einleikið hvað hann er dettinn.  Það er ekki einleikið hvað hann lendir oft í árekstrum. Nú má  vel  vera að  þetta sé hárrétt hjá Árna, þótt Molaskrifara komi það spánskt fyrir sjónir.

  Tær Moggasnilld,  –   tær snilld  (mbl.is 03.07.2010):  Nú í eftirmiðdegið var svo einn stöðvaður fyrir of hraðan akstur og reyndist þá ekki vera með ökuréttindi, enda hafði hann misst þau og var ekki búinn að taka bílprófið aftur. Var bíll hans ferjaður á lögreglustöðina á Blönduósi. Úr sömu frétt: …sá sem hraðast ók var á 128 kílómetra hraða yfir klukkustund. Meira úr sömu frétt: …en ekkert lögregluembætti sem upplýsingar fengust frá nú í eftirmiðdegið hafði þurft að takast á við nein umferðarslys. Enn meira úr sömu frétt:… Lögreglan á Hvolsvelli segir að útihátíðin í Galtalæk .….  Einmitt það. Í Galtalæk. Málvenja er að segja á Galtalæk, á Rauðalæk,  á Læk. Hinsvegar hefði mátt segja: Útihátíðin í Galtalækjarskógi….

   Á hvaða leið er Mogginn eignlega ? Allavega ekki á uppleið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>