«

»

Molar um málfar og miðla 348

Glöggur lesandi,  benti  Molaskrifara á eftirfarandi setningu ( Pressan.is 07.07.2010):  Dagur B. Eggertsson formaður  borgarráðs tók meðfylgjandi mynd af vinnuvélum,sem fjarlægðu kerið á leið til dagmömmu í dag. Skyldu  vinnuvélarnar hafa streist á móti þegar Dagur  tók af þeim myndina?  Voru vinnuvélarnar  lengi á leiðinni til  dagmömmu? Þetta hefði að sjálfsögðu átt á  koma fram í frétt Pressunnar.

 Í  morgunþætti Rásar eitt (09.07.2010) var  sagt frá  kappflugskeppni bréfdúfna. Nægt hefði  að tala um kappflug. Kappflug er keppni.

 Í fréttum   Ríkisútvarpsins (08.07.2010)  klukkan  16 00 var  ýmist sagt: .. í Neskaupstað  eða á Neskaupstað. Venja  er að nota  forsetninguna í með  orðinu kaupstaður. Í  aðalkvöldfréttatíma þetta sama kvöld var  sagt: … á Borgarnesi.Föst málvenja er að segja í Borgarnesi,  en á Akranesi. Á  tímum hins  óumræðilega umburðarlyndis í Efstaleitinu    geta menn nu líklega  bara  valið sér  forsetningar að vild með íslenskum staðanöfnum , –  samkvæmt þessu.  Í fréttum   Stöðvar  tvö (08.07.2010) var talað um að skrúðgarður hefði verið reistur á  Klambratúni í Reykjavík.  Allt  reisa menn !

 Stundum er hægt að skemmta sér yfir  Mogganum.   Hér áður fyrr,  þegar  sagt var  frá  mótmælum hernámsandstæðinga,  voru lægstu þátttakendatölurnar ævinlega  í Mogganum, en þær langhæstu í Þjóðviljanum. Nú um stundir, þegar sagt er frá  mótmælum  fyrir utan Seðlabankann  eða  Stjórnaráðshúsið við Lækjartorg, eru  hæstu  tölurnar í Mogganum. Ekki lýgur Mogginn, –  eða hvað ? En hann hefur tekið að sér  hlutverk gamla  Þjóðviljans,  t.d. með því að leggja tiltekna  einstaklinga í einelti.

 Ríkissjónvarpið leggur sitt af mörkum  til að auka beygingarfælni þegar á  skjánum birtist fyrirsögnin:  Félagar úr Hornleikarafélag Íslands. Molaskrifari hættir á að benda   umsjónarmanni hins  svokallaða  hádegisútvarps á  Rás eitt  á að orðið dóttir beygist: dóttir, dóttur, dóttur  dóttur. En   honum er ljóst að svona ábending  ber auðvitað vott um bæði staðnað hugarfar og skort á umburðarlyndi. Á gönguferð við Vífilsstaðavatn  rakst skrifari á  skilti frá  Garðabæ  sem letrað var á að að bannað  væri að veiða frá bakkanum  vegna varp flórgoðans. Þarna  vantaði  eitt -s , sem  skiptir    máli.

Það er rangt , þegar fréttaþulur  Ríkissjónvarpsins  segir okkur að Ríkisútvarpið flytji okkur fréttir allan sólarhringinn. Ríkisútvarpið  flytur  stuttar fréttir á Rás 2 klukkan 02 00. Síðan er enginn fréttatími  fyrr en klukkan 05 00. Ekki verður heldur séð að fréttavefur RÚV  á netinu sé  uppfærður milli klukkan  tvö á nóttunni og fimm á morgnana. Ríkisútvarpið  veitir ekki fréttaþjónustu  allan sólarhringinn. Hversvegna  er okkur sagt ósatt ? Okkur var líka sagt ósatt um það hver kostaði ferð  Kristins Hrafnssonar fréttamanns  til  Íraks  fyrr á árinu.  Ein útgáfan kom frá útvarpsstjóra, önnur frá Kristni og sú þriðja  frá  Birgittu Jónsdóttur alþingismanni sem  var einhverskonar umboðsmaður  Wikileaks gagnvart  Ríkisútvarpinu.

 Ríkisútvarpið á að segja eigendum sínum satt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>