«

»

Molar um málfar og miðla 349

Málfar í næturfréttum  Ríkisútvarpsins  frá miðnætti til morguns hefur  yfirleitt verið  til  fyrirmyndar , og gildir það einnig um  fréttir Stefáns Svavarssonar ,sem nú  annast þetta verkefni.   Í morgun (08.07.2010) hefði  þó   verið betra ef  hann  hefði talað um bakkafullar ár á  flóðasvæðum í Mexíkó. Ekki barmafullar ár. Bikar getur  verið barmafullur, en ár  tæplega. Nokkrir málfarshnökrar voru í  sjöfréttum í morgun  (10.07.2010) til  dæmis var talað um að taka  eigið líf . Á mbl. is  var þetta betur orðað, svipta sig lífi. Það er svolítið einkennilegt með þessar næturfréttir  að   ekki skuli  fylgt þeirri reglu að hafa alltaf nýja frétt fremst og  sleppa  síðustu, elstu,   fréttinni. Þannig endurnýjast fréttatíminn  smám saman.  

 Úr mbl. is (09.07.2010): Bandaríkjamenn og Rússar skiptu í dag á föngum á flugvellinum í Vínarborg í Austurríki. Ekki er Molaskrifari alveg sáttur við  þetta orðalag.  Að  skipta á einhverjum hefur skýra merkingu í íslensku máli. Hefði talið  eðlilegra að tala um að skiptast á föngum frekar en að skipta á föngum.  Hvað segja lesendur ? Í Morgunblaðinu (10.07.2010) er í fyrirsögn notað orðalagið að skiptast á  föngum.

 Molaskrifari heyrði  endurtekið  athyglisvert viðtal í Útvarpi Sögu aðfaranótt  áttunda júlí.Það var  viðtal Arnþrúðar Karlsdóttur við  prófessor Þorvald  Gylfason.  Þorvaldur  var ómyrkur í máli að venju.  Sýn hans á  Icesave  klúðrið var skýr og  vonandi  hefur útvarpsstjóri Útvarps Sögu  skilið kjarna  málsins eftir þessa kennslustund Þorvaldar.  Við verðum að ljúka þessu máli,  standa við það sem  íslensk stjórnvöld hafa lofað.  Framkoma  forseta Íslands  í málinu var tilraun (sem  tókst að nokkru) til að endurheimta glatað traust þjóðarinnar með  sýndarmennsku  og þjóðaratkvæðagreiðslu sem var  tóm vitleysa. Um hvað voru greidd atkvæði ?  Atkvæðagreiðslan snerist  ekki um að borga eða  borga ekki, eins og  allt of margir virðast hafa haldið og halda enn.  Ummæli  Þorvaldar um þá sem hann að hætti  þeirra í Útvarpi  Sögu kallaði stjórnmálastéttina voru hinsvegar  svo ýkjukennd og illa  grunduð  að þau misstu  algjörlega marks. Hann   taldi alla  stjórnmálamenn gjörspillta sem og þorra  þjóðarinnar. Molaskrifari  hefur  líklega  í áranna rás kynnst fleiri  stjórnmálamönnum af fleiri kynslóðum  en prófessor  Þorvaldur og  fullyrðir  að það voru  upp til hópa vandaðir menn og sómakærir. Víst er  rétt að á því kann að  hafa orðið breyting á seinni árum ,-sérstaklega eftir að   fyrirtæki fóru að  kaupa sér  stjórnnmálamenn með milljóna  prófkjörs- og  kosningastyrkjum. Fyrirtækin gerðu slík innkaup í nánast öllum flokkum,  nema VG,  svona til að hafa vaðið fyrir neðan  sig.

  Í Útvarpi Sögu hefur mikið og lengi  verið talað um þjóðstjórn. Það var líka gert í viðtalinu  við Þorvald. Hann vantreysti núverandi  forseta réttilega  til að skipa menn í slíka  stjórn. En getur einhver ímyndað sér að við  núverandi aðstæður sé hægt að skipa utanþingsstjórn sem nyti meirihlutastuðnings á Alþingi?  Það er  eins og menn gleymi því stundum að utanþingsstjórn verður að  styðjast við þingmeirihluta.

  Hugmyndir um  utanþingsstjórn  núna eru  álíka viturlegar og að halda  að Icesave  klúðrið gufi upp , bara ef Bjarni Benediktsson og  Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fái að stjórna  landinu. Icesavemálið  hverfur ekki nema  við  stöndum  í lappirnar og   stöndum við gefin  loforð. Annars  segjum við okkur úr lögum  við samfélag siðaðra þjóða. Vilja menn það ?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>