«

»

Molar um málfar og miðla 351

Pistlar Sveins Helgasonar  frá Bandaríkjunum eru ævinlega góð innlegg í fréttatíma  Ríkisútvarps/sjónvarps. Í pistli  í dag (09.07.2010) talaði Sveinn um að vera á höttunum eftir og  bjóða gull og  græna skóga. Gott mál.

  Í  Molum um málfar og miðla (348), var minnst á  forsetningar með íslenskum  staðaheitum. Í  fréttum  Ríkissjónvarps (09.07.2010) var sagt  á Stykkishólmi. Föst málvenja er að segja í Stykkishólmi og er ástæðulaust að breyta því.  Umburðarlyndið má ekki ná svo langt í Efstaleitinu að menn geti  valið sér  forsetningar að vild með  íslenskum staðanöfnum.

  Molaskrifara þykir það einkar ánægjulegt, að  eftir birtingu  350  Mola  um málfar og  miðla   skuli málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins  nú farinn að ræskja sig og líka  virðast þessi skrif  hafa ýtt við þeim  ágæta blaðamanni Fréttablaðsins  Bergsteini Sigurðssyni, sem gerir  Molahöfund að sérstöku umfjöllunarefni í Bakþönkum sínum í Fréttablaðinu 9. júlí.

  Svo sem áður hefur  verið nefnt  telur  málfarsráðunautur  þessar  athugasemdir mínar bera  vott um staðnaðan hugsunarhátt og  skort á umburðarlyndi.  Glaður  gengst ég við því að vera haldinn þessum kvillum, ef það er það sem málfarsráðunautur les úr þessum skrifum mínum.

  Bergsteinn gerir  Molahöfund  eiginlega  ábyrgan  fyrir öllu málfari í Ríkisútvarpinu á þeim árum  (1967 til 1978) sem hann starfaði þar, fyrst um skeið sem  yfirþýðandi en lengst af sem fréttamaður og fréttaþulur. Nú þykir Molaskrifara tíra á tíkarskottinu !  Kannski man Molaskrifari svolítið lengra  aftur í tímann  en Bergsteinn, langtum yngri maður. Á  þessum árum  starfaði Ríkisútvarpið í tveimur algjörlega aðskildum deildum. Útvarpið, hljóðvarpið, var  að Skúlagötu  4 en sjónvarpið að Laugavegi 176.  Ég held ,að  við  sem  störfuðum undir  handarjaðri  Emils Björnssonar fréttastjóra  þessi ár, – og við  vorum nokkuð mörg, – þurfum ekkert að skammast okkar fyrir málfar í fréttum á þessum árum. Ég geri það ekki og þykist líka geta talað  fyrir munn minna  gömlu vinnufélaga. Á fréttastofu  hljóðvarpsins  á þessum árum  var einnig lögð rík áhersla á vandað málfar undir  stjórn Margrétar Indriðadóttur. Seinna tóku við Kári Jónasson  í útvarpinu og í sjónvarpinu Ingvi  Hrafn Jónsson og  Bogi  Ágústsson. Allir  höfðu þeir  metnað til að gera vel, –  og  gerðu, – í þessum efnum.  Þularstörfum hjá útvarpinu  gegndi líka fólk,sem lét sér annt um tunguna, – Pétur Pétursson, Jóhannes Arason, Jón Múli, Ragnheiður Ásta og fleiri og fleiri. Iðulega leiðréttu þau texta og færðu málfar til betri vegar.

   Molaskrifari  fær  alltaf öðru hverju  pirringspústra ( ekki viss um að það orð  finnist í orðabókum.!) vegna þessara skrifa sinna. Oftar en  ekki  eru  þar að verki  nafnleysingjar, sem brestur kjark til að koma fram undir  nafni og   vega því úr launsátri. Við þá segir  Molaskrifari það sem góður vinur kenndi honum forðum, þegar sá hafði fengið sig  fullsaddan af símtölum nafnleysingja um efni sjónvarpsins: Ég tala ekki við fólk sem heitir ekki neitt.

  Meðan þeir sem þakka þessi skrif eru margfalt fleiri  en þeir sem amast við þeim, verður  hér haldið áfram enn um sinn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>