«

»

Molar um málfar og miðla 352

Loksins, loksins , eins og einu sinni var sagt. Loksins  er farið að fjalla opinberlega um lögbrot Ríkisútvarpsins, – birtingu áfengisauglýsinga. Að þessu hefur margsinnis verið vikið í Molum. Samtök foreldra gegn áfengisauglýsingum,  eiga þakkir skildar fyrir sinn þátt í vekja athygli á þessari ósvinnu. Sömuleiðis gott hjá Morgunblaðinu að taka þetta upp.

  Hlutur Ríkisútvarpsins í þessu máli er afspyrnu vondur. Fjallað  var um málið í Ríkisútvarpinu  (11.07.2010) Sjá  hér: http://www.ruv.is/frett/hord-vidbrogd-vid-bjorauglysingu

  Ríkissjónvarpið birti bjórauglýsingar án þess að orðið léttöl  væri næstum  falið með smásjárletri  neðst í skjáhorni eins og venjulega er gert.  Um þetta segir svo á  vef  RÚV: Páll Magnússon útvarpsstjóri sagði í samtali við Fréttastofu að honum væri ekki kunnugt um að formleg kæra hefði borist vegna málsins. Það væri ekki á valdi RÚV að setja aðrar takmarkanir á auglýsingar en lög kvæðu á um. Árangursríkara væri að beina baráttunni að Alþingi, þar sem lögin væru sett. Það vill nú reyndar svo  til að takmarkanir  eru  á auglýsingum. Lögfestar meira að segja. Áfengisauglýsingar eru nefnilega bannaðar.  Líklega hefur þetta farið fram hjá  útvarpsstjóra. Þetta heitir að að  fara undan í  flæmingi og skjóta sér  undan  ábyrgð. Mennilegra hefði verið ,ef útvarpsstjóri hefði tekið á málinu. En hann kaus  að gera það ekki.  

  En svo tekur eiginlega enn  verra við,eins og Bergsteinn Sigurðsson blaðamaður  bendir réttilega á í  Frá  degi til dags  í Fréttablaðinu (12.07.2010).  Áfram  skal  vitnað í fréttina á  vef RÚV: Í bréfi sem Þorsteinn  (Þorsteinsson , markaðsstjóri RÚV ) sendi Ölgerðinni í síðustu viku kemur fram að eftirlit RÚV hafi brugðist og því hafi auglýsingin verið send út án léttölsmerkingarinnar. Í bréfinu koma fram tilmæli þess efnis að fyrirtækið merki léttölsauglýsingar sínar í framtíðinni – verði þau tilmæli ekki virt gæti þurft að banna slíkar auglýsingar frá Ölgerðinni. 

  Bjórinn  sem þarna var ólöglega auglýstur, er að sögn Bergsteins, sem vitnar í heimasíðu Ölgerðarinnar, ekki  til í styrkleika léttöls. Nú vita allir, nema  kannski útvarpsstjórinn og markaðsstjórinn ,að ekki  er verið að auglýsa léttöl heldur áfengt öl. En ef   auglýsandinn bara lýgur að  fólki  og  segir áfengt öl  vera léttöl, þá  mun Ríkissjónvarpið birta auglýsinguna!   Ótrúlegt. 

  Við góðkennum ekki.., sagði ráðherra í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (11.07.2010). Þetta er  danska. Vi godkender ikke… Það eru ekki bara fréttamenn,sem þurfa að huga að því hvernig  tekið er til orða.  Í lýsingu á úrslitaleik HM í knattspyrnu var sagt: Þeir eru komnir  með blóð á tennurnar. Þetta er líka danska  ekki íslenska.  De har fået blod på tanden.  Það er ekkert  betra að sletta dönsku en ensku.

  Í sjöfréttum Ríkisútvarpsins var (11.07.2010) talað um að halda kröfugöngu. Sama orðalag var notað í miðnæturfréttum.  Molaskrifari hefur aldrei heyrt talað um að halda  kröfugöngu heldur að fara í kröfugöngu eða efna til kröfugöngu til að leggja áherslu á  kröfur.

Enn eitt dæmi um ritsnilldina á pressan.is (11.07.2010):  Ástríða Önnu Óskar Erlingsdóttur er án efa ljósmyndun. Hún brennur fyrir henni og eyðir mestum frítíma sínum í myndatökur. Hvað getur maður svo sem sagt ?

  Farið út fyrir allan þjófabálk, hefur  dv.is eftir  alþingismanni (11.07.2010). Þegar þingmenn nota orðatiltæki,sem eru fastmótuð í tungunni  verða þeir að fara rétt með. Þingmaðurinn hefði átt að segja: Tekur út yfir allan þjófabálk. Það væri skynsamleg fjárfesting, ef þessi þingmaður festi kaup á bókinni Mergur málsins eftir  dr. Jón G. Friðjónsson. Á blaðsíðu 982 í þeirri ágætu bók er fjallað um hinn fræga þjófabálk.

 Þegar ekið er í gegnum Mosfellsbæ blasir stórt  auglýsingaskilti við vegfarendum.  Þar birtist  auglýsing frá Símanum og þar segir: Framundan er ringtorg. Þarna er víst átt við hringtorg  en Síminn hefur valið sér  enska orðið  ring  til að nota í auglýsingaherferð á Íslandi. Hafa forráðamenn þessa stórfyrirtækis enga sómatilfinningu gagnvart tungunni ?  Hversvegna þurfa þeir að sýna íslenskri tungu lítilsvirðingu ?  Svo læra börnin málið sem það er fyrir þeim  haft.  Einhver börn  gætu haldið að  svona ætti einmitt að  skrifa orðið hringtorg. Þessi auglýsing  Símans er skemmdarverk.

PS Ekki er símafyrirtækið Vodafone hótinu betra. Það talar við íslenska áhorfendur á ensku og  segir: Power to you. Ekki gott mál.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>