«

»

Molar um málfar og miðla 588

 

 Auglýsing símafélagsins Vodaphone  (Fréttatíminn 15.-17.apríl) App, app mín  sál, er ekki  fyndin,  heldur einstaklega ósmekkleg. Þarna  er  verið að afbaka  fyrstu línuna í fyrsta erindi Passíusálmanna Auglýsingastofur eiga að láta Hallgrím Pétursson í friði og skammast sín. Er ykkur ekkert heilagt ? Það er eins og  símafélögin sæki sérstaklega í að  afskræma orð og  gjörðir úr kristinni trú og biblíunni. Hvað veldur ímugusti þeirra á kristninni?

Um  tvö hundruð þúsund manns voru hrakin frá heimilum sínum,  var sagt í  fréttum Ríkissjónvarps (15.04.2011). Molaskrifari er á því að hér hefði átt að  segja: Um tvö hundruð þúsund manns   voru hraktir frá heimilum sínum.

Ungir menn ,sem  voru að gera upp gamlan  bíl, fundu kyrfilega innpakkað hvítt  duft, ef til vill fíkniefni,  undir áklæði  á þaki bílsins innanverðu. Um þetta sagði mbl.is (15.04.2011): Aðspurð segir lögreglan á (sic) fundur sem þessi sé ekki algengur. Þetta hafi líklega verið algjör mistök að gleyma efninu þarna. Ekki ólíklegt ! Ekki algengt !  Aldeilis hissa. Þetta minnir  eiginlega á það, þegar ungur  fréttamaður spurði mann sem var svo óheppinn að  fótbrotna á Þorláksmessu: Hefur það komið fyrir þig áður að fótbrotna svona á Þorláksmessu?

Rétt er að taka undir  með Baldri Sigurðssyni í Tungutakspistli Helgarmogga, þegar hann segir: ,,Vegna tvíræðrar dagskrárkynningar Ríkisútvarpsins vil ég minna á að hefð er fyrir því að vika hefjist á sunnudegi. Vikan fyrir páska heitir  dymbilvika,en páskavika er sú vika sem hefst með páskum. Sú málvenja, sem finna má (í) orðabókum að kalla  dymbilviku páskaviku veldur óæskilegri óvissu.”  Undir þetta tekur Molaskrifari heilshugar.

Jafnvel og  til hefur  tekist hjá Ríkisútvarpinu að breyta ásýnd veðurfréttanna hefur illa  til tekist með bakgrunninn í  fréttatímanum. Þegar þulur er einn í mynd  eru oftast iðandi bogabrot  eða  bogar (meira  að segja á bak við Boga!) og hringir í bakgrunninum sem  eru til þess eins  fallnir að beina athyglinni frá því sem  verið  er að segja okkur og rugla áhorfendur í ríminu. Í víðu myndinni er bakgrunnurinn  svo ruglingslegur að það er eiginlega ómögulegt  fyrir áhorfandann að átta sig á hvað er hvað. En líklega  ríkir viðhorfið:    Það skal í það. Við breytum engu. Við vitum best. Við erum best. Nöldur annarra skiptir engu máli. Gaman  væri annars að heyra hvað lesendum Molanna  finnst um þetta.

8 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sjá athugasemd frá Bjarka við Mola 588.

  2. Guðmundur Kristjánsson skrifar:

    Nú voru það þá bara karlmenn sem voru hraktir frá heimilum sínum? (karlkyns merking:

    eða voru það þúsundir kvennmanna sem voru hraktar af heimilum sínum (kvennkyns merking

    Nú eða þegar átt er við bæði karla og kvennmenn sem hrakin voru af heimilum sínum?
    Er ekki alveg að átta mig á þessari athugasemd þinni Eiður 🙁

  3. Eiður skrifar:

    Ræð þcví miður ekki við að láta þetta kerfi beygja nafnið mitt. Þú kannt ef til vill ráð til þess?

  4. Kári skrifar:

    þessi grein er eftir Eiður eins og glögglega má sjá efst til hægri. Varla telst það góð íslenska. Er ekki rétt að segja „um tvö hundruð þúsund manns voru hrakin frá heimilum sínum“? Er ekki verið að tala um þúsundin?

  5. Arngrímur Borgþórsson skrifar:

    Víst ávallt þeim vana halt,

    að vera hress og drekka Malt.

  6. Tinna skrifar:

    Ég hef nokkrum sinnum misst af byrjun fréttatímans vegna þess að ég hef hreinlega ekki tekð eftir því að hann sé byrjaður. Gott fréttastef „vekur“ hlustendur og setur tóninn fyrir fréttatímann. Þetta nýja stef gerir það alls ekki – það ætti betur við í upphafi dánarfregna eða auglýsinga.

    Hringavitleysan við hægri öxl þular hefur líka truflað mig. Svona breytingar breytinganna vegna eru sjaldnast til batnaðar, enda virðast hönnuðir nýja útlitsins ekki hafa stúderað auglýsingasálfræði… eða mannlega hegðun yfirleitt.

  7. Eiður skrifar:

    Tek undir með þér, Þorgrímur. Gerði margar athugasemdir við útvarpsfréttastefið. Alltof langt og rennur einhvern veginn út í ekki neitt. Koðnar niður. Í Efstaleiti geta menn ekki viðurkennt að neitt hafi illa til tekist, því allt er gott sem gjöra þeir, svo snúið sé svolítið út úr gamalli hendingu. Þeir eiga að sjá sóma sinn í að breyta þessu sem fyrst. Byrja á bakgrunninum. Líklega sjá og finna þetta allir nema þeir.

  8. Þorgrímur Gestsson skrifar:

    Ég er hjartanlega sammála þér um bakgrunn fréttanna, hann er ákaflega ruglingslegur og truflandi. Og sjálf fréttastefið, sem ég tel að eigi að þjóna þeim tilgangi að gera viðvart um að nú sé fréttatíminn að hefjast, lekur einhvernveginn máttlaust niður og er ekki neitt – bólurnar sem rísa og hníga á hnettinum eru líka afskaplega hjárænulegar. Ég get raunar sagt svipað um fréttastefið í útvarpinu (hljóðvarpinu), það er ákaflega máttleysislegt, það gamla var miklu betra, hafði svokítið kröftuglegan hljóm. En ég er sammála því sem þú segir um nýtt útlit veðurfréttanna, það er ákaflega velheppnað.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>