Teiknari Morgunblaðsins setti nýtt met í sóðaskap í dag (16.04.2011). Blaðið átti flest fyrri met í greininni. Nánir ættingjar þess sem þar er niðurlægður fela líklega blaðið fyrir börnum. Morgunblaðið bannað börnum.
Fróðleg, en um leið óhugnanleg, var upptalning Láru Ómarsdóttur í hádegisfréttum Ríkisútvarps (15.04.2011) á umfangsmiklum efnahagsbrotamálum, sem eru í rannsókn hjá ríkislögreglustjóra en litlum sem engum sögum fer af. Hvað veldur? Er ekki borðleggjandi að leggja þetta gullborðalagða embætti niður, ef það sinnir ekki þeim verkefnum ,sem það á að sinna ? – Ekki er að efa, að embættið mun taka hart og snöfurmannlega á fjárdrætti í Valhöll, höfuðstöðvum Flokksins.
Egill Helgason skrifar á bloggsíðu sinni: Hann er einmitt að leita að týndri á þegar kona hans Rósa deyr úr barnsförum. Málvenja er að tala um að konur deyi af barnsförum,ekki úr barnsförum. Það er sem betur fer orðið sárasjaldgæft, nær óþekkt, en var því miður nokkuð algengt fyrir áratugum. Fínn pistill hjá Agli um það hvernig sumir reyna nú að gera Bjart í Sumarhúsum eitthvað allt annað en hann er í einni allra bestu bók Halldórs og nota hann til framdráttar vondum málstað í Icesavemálinu..
Mér er mikil efti(r)sjá að Ásmundi Einari úr þingflokknum.. hefur dv.is eftir Ögmundi Jónassyni. Í fyrirsögn segir dv.is hinsvegar: Mikil eftirsjá af Ásmundi, sem er röng notkun forsetningar.
Í morgunþætti Rásar tvö leiðrétti umsjónarmaður orðalagið að láta líklega um eitthvað. Molaskrifari er ekki á því að þetta hefði þurft að leiðrétta. Hann hefur oft heyrt þetta orðalag. Það hefur verið notað um að einhver sé tilbúinn til að gera eitthvað, en því sé þó engan veginn að treysta.
Ríkisútvarpið heldur áfram að flytja eftirlætisefni yfirstjórnendanna í morgunþætti Rásar tvö alla föstudaga, leikaraslúður frá Hollywood. Rétt væri að stjórnendur sendu konunni sem slúðrið flytur nýju handbókina um íslenskt mál frá Árnastofnun og JPV útgáfu. Málfarið mundi þá kannski skána. Það er mikill menningarlegur metnaður fólginn í að hella þessu slúðri yfir nývaknaða hlustendur.
Meira um morgunþátt Rásar tvö. Í vikunni heyrði Molaskrifari Benedikt Erlingsson leikara lýsa hreystiverkum sínum við mótmæli gegn hvalveiðum. Svo kom (15.04.2011) Einar K. Guðfinnsson alþingismaður og leiðrétti ýmislegt af því sem Benedikt hafði látið sér um munn fara. Í kjölfarið var samstundis kallaður til hvalaskoðunarstjóri frá Húsavík til að mótmæla því sem Einar Kr. Guðfinnsson hafði sagt. Stjórnendur lágu ekkert á sínum skoðunum. Þetta voru ófagleg vinnubrögð. Óhlutdrægni og margauglýst fagmennska voru þarna víðs fjarri.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
17/04/2011 at 10:53 (UTC 1)
Þakka þér orðin, JBJ. Þetta fór fram hjá mér. Athugasemd þín er réttmæt. Sumar auglýsingastofur eru ótrúlega óvandvirkar, – hroðvirkar og auglýsendur láta þær of einráðar, – lesa ekki prófarkir.
JBJ skrifar:
16/04/2011 at 23:48 (UTC 1)
Sæll Eiður og til hamingju með fínt vefsetur. Veit ekki hvort þú hefur séð Fréttatímann í gær 15.4.2011 en þar birtist auglýsing frá flugfélaginu Icelandair þar sem ferð til Berlínar kostar eingöngu 69 krónur og 200 aura. Nú eða þá 69 þúsund og 200 krónur en þá þyrfti textinn að vera ritaður svo: 69.200 en ekki eins og hann er í auglýsingunni, 69,200. Sama gildir um hinar 10 borgirnar sem taldar eru þarna upp með amerísku kerfi.