«

»

Molar um málfar og miðla 590

 

Íþróttahús þjóðarinnar , Ríkisútvarpið í Efstaleiti,  breytir  sjónvarpsdagskránni fyrirvaralaust, þegar íþróttir, einkum boltaleikir,  eiga í hlut.  Dagskráin í gærkveldi (18.04.2011) var lítið nema  boltaleikir.   Það er alltaf  verið að misbjóða þeim sem ekki elska boltaleiki. Það er eins og íþróttadeildin sé einráð í Efstaleiti.

Gaman var að sjá  snotra frétt  frá  Færeyjum í fréttatíma   Ríkissjónvarpsins (18.04.2011). Það er sárasjaldan að  við   fáum fréttir af  grönnum okkar í Færeyjum og á  Grænlandi. Heyrir eiginlega  til undantekninga.  Mættum við fá meira að heyra, – og sjá.

Algengt er að  ruglað  sé saman orðtökunum að eitthvað fari út um þúfur  og eitthvað renni út í sandinn. Hvorttveggja þýðir að eitthvað misheppnist eða gangi ekki eftir. Í  fréttatíma  Stöðvar tvö (17.04.2011) var talað um að  samningaviðræður hefðu  runnið út um þúfur. Það er rangt eins og að  ofan segir.

Seint verður sagt að fréttaflutningur Morgunblaðsins af fjárdrætti í Valhöll sé ítarlegur.

Fréttamaður  Ríkissjónvarps (17.04.2011)  talaði um mann, sem hefði verið með  rollur á  bænum.  Minn gamli  yfirmaður á  fréttastofunni, Emil Björnsson, hefði krotað  hressilega  í  svona orðalag. Það er víst enginn lengur sem krotar í eitt eða neitt á  fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Í vaxandi mæli ávarpa  fyrirtæki  og  framleiðendur okkur á ensku í íslenskum fjölmiðlum. Íþróttavöruframleiðandinn Adidas  er með heilsíðuauglýsingu í DV  (18.04.2011) . Textinn í  auglýsingunni er ein setning. Adidas is all in. Hversvegna  gera  fyrirtæki þetta?

Það var áreiðanlega óviljandi  brandari hjá  fréttastofu  Ríkisútvarpsins (17.04.2011) að iðandi  hringirnir og  bogarnir í bakgrunninum  komu stundum  út eins og  geislabaugur um  höfuð útvarpsstjórans, þegar hann las  fréttir í mynd.

Molaskrifari sá og heyrði brot úr  síendurteknu Hrafnaþingi (17.04.2011)  þar sem í forsæti var Hallur Hallsson. Hann djöflaðist á Steingrími J.  fyrir að  hafa ekki farið til Strassborgar að  halda ræðu fyrir Íslands hönd í miðju kraðakinu ,sem Sjálfstæðisflokkurinn skapaði  hér. Samfylkingarþingmaður við  borðið kunni ekki að svara, sagðist ekki þekkja málið. Undarlegt.  Hvað hefðu þeir  ÍNN menn sagt ef  Steingrímur hefði  farið  til Strassborgar. Til dæmis þetta: Steingrímur  hleypur úr landi til að  tala við Evrópuráðið !   Ekki ólíklegt.  Málflutningurinn á ÍNN er oft  ótrúlega líkur  Útvarpi Sögu, enda var sérlegur  fulltrúi  útvarpsstöðvarinnar á þessu Hrafnaþingi.  

Molalesandi sendi eftirfarandi: Í kvöldfréttum sjónvarps var sagt:  ,,Mikið MAGN af gömlum húsum“ og svo komu myndir af húsunum.
Þetta orðalag  er hreinlega bull og ég man að Jón  Múli og Pétur P. andmæltu þessum talsmáta í auglýsingum”. Molaskrifari er sammála.

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Gunnar Guðmundsson skrifar:

    Molar Eiðs Guðnasonar um málfar eru afar kærkomnir og þarft að glöggur reynslubolti veiti málfarslega slökum fréttaskrifurum aðhald. Setji ofan í við þá. Þeir ættu að taka því fagnandi.
    Engin önnur stofnun samfélagsins er í víðlíka stöðu og RÚV til að ástunda rétt og gott málfar, skýran stíl og framsögn og hafa þannig jákvæð og mótandi áhrif á þróun tungumálsins. Má ég þá frekar biðja um raddir Jóns Múla, Magnúsar Bjarnfreðssonar eða Helga Hjörvars, – fremur en ,,ofaníbringu“ muldrið sem og oft brennur við hjá sumum.

  2. Haukur Kristinsson skrifar:

    Hef tekið eftir því að margir eiga erfitt með að skrifa “en” rétt, skrifa það með tveimur n-um. Þetta finnst mér skrítið, því framburðurinn er svo ólíkur og segir skýrt til um réttritun. Nú minnist ég þess að í einum ummælum hér á síðu Eiðs fyrir all löngu, hafi verið vakin athygli á því að margir séu hættir að bera fram “langt” e, eins og gera skal í orðinu en. Þetta gæti verið skýringin.

  3. Gunnar M. skrifar:

    Molaskrifari ritar: „Dagskráin í gærkveldi (18.04.2011) var lítið nema boltaleikir. Það er alltaf verið að misbjóða þeim sem ekki elska boltaleiki.“

    Ritháttinn ‘kveld’ er sjálfsagt að nota ef á sama hátt er ritað ‘smér’ og ‘ket’. Að öðrum kosti er það undarleg sérviska.

    Sögnin að elska hefur tekið stökkbreytingu á undanförnum misserum, nú um stundir ‘elska’ allir hitt og þetta, einn elskar að hlaupa, annar elskar að borða, þriðji elskar ekki rúsínur og fær sér döðlur í staðinn. Hvað varð um að þykja gott, hafa gaman að, líka eða þykja skemmtilegt?

  4. Kristján skrifar:

    RÚV elskar handbolta. Þessa boltaíþrótt sem er örsmá í hinum stóra heimi íþrótta. Hvað þarf eiginlega að gerast til að RÚV fái sérrás fyrir þetta ?

  5. Karl P. skrifar:

    RÚV ber alveg jafnmikil skylda til að sýna íþróttir og aðra dagskrá. Sérstaklega oddaleik í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta, ég tala nú ekki um þar sem RÚV er með sjónvarpsréttinn á handboltanum.

    Hvernig heldurðu að fólki sem hefur mestan áhuga á íþróttum líði þegar RÚV er að sýna nokkurra ára gamla þætti um sæotraveiði í barentshafi sem fylgdi frítt með í einhverjum innkaupapakka frá DR1 eða NRK?

    Þá er þú auðvitað í essinu þínu en aðrir standa upp frá sjónvarpinu og fara gera eitthvað annað. Þú þarft ekki að væla í hvert einasta skipti sem sýndur er íþróttakappleikur í sjónvarpinu.

    Og reyndu einu sinni að hugsa í hlutföllum. Hversu stór hluti dagskrár RÚV heldurðu að séu íþróttir? Það er alveg sáralítið hlutfall. Málið er bara að þú getur ekki gleymt því þegar þú sérð íþróttir.

    Íþróttadeild RÚV hefur barist hatrammlega við yfirboðara sína um að reyna fjölga efni því á tímapunkti var þetta orðið nánast ekki neitt sem var sýnt. Til allrar lukku hefur það tekist.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>