«

»

Molar um málfar og miðla 591

  Í daglegu máli í  morgunþætti  Rásar eitt (18.04.2011) var um það  rætt, að ekki  væri í íslensku  til eitt orð yfir  þeyttan rjóma. Á   dönsku væri talað um  flødeskum. Á ensku er hinsvegar  talað um  whipped cream.  Það  rifjaði upp fyrir Molaskrifara  að hann hefði rekist á   orð sem  notað  er yfir þeyttar ísblöndur, en það er nafnorðið þeyta. Sér   raunar í  íslenskri orðabók að orðið þeyta er  þar til, (eðlisfræði/efnafræði) og þýðir  þá upplausn. Þeyta  væri annars prýðilegt orð yfir þeyttan  rjóma, en þeirri orðanotkun sem nú tíðkast, verður varla breytt.

Bjarki M. Karlsson  fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu sendi  Molum   andmæli  við eftirfarandi klausu úr pistli  nr. 588:

„Um tvö hundruð þúsund manns voru hrakin frá heimilum sínum, var sagt í  fréttum Ríkissjónvarps (15.04.2011). Molaskrifari er á því að hér hefði átt að  segja: Um tvö hundruð þúsund manns voru hraktir frá heimilum sínum.“

Hér var vandað til málfars í fréttinni en ráðleggingin þeim mun lakari. Þegar eignarfallseinkunn stendur með fallorði stjórnar fallorðið (orðið sem er ekki í eignarfalli) tölu og kyni sagnar og sagnfyllingar, ekki eignarfallseinkunnin eða merking hennar.

Helmingur kvennanna var beittur misrétti. Ekki voru beittar. Helmingurinn var beittur.

21 prósent bæjarbúa kaus flokkinn. Ekki kusu. 21 prósent kaus.

Um tvö hundruð þúsund manns voru hrakin. Ekki hraktir. Þúsundin voru hrakin.

Hitt er svo annað mál að líklega er tungumálið að þróast á þann veg sem ábending þín gefur til kynna. Nú má vel vera að slík þróun sé meinalaus og verði að lokum ofan á. Mér finnst nú samt óþarfi að málvöndunarmenn og fréttastofur dragi þann vagn. “

  Molaskrifari þakkar  Bjarna og viðurkennir  fúslega að sér hafi hér skjöplast.

Orðbragðið í  Útvarpi Sögu  er á stundum svo sóðalegt að  með ólíkindum er. Á dögunum heyrði Molaskrifari þar talað um að  hreinsa þyrfti út úr  Alþingishúsinu. Það er  svo sem  ekki  nýtt. Það var hinsvegar nýtt að heyra talað um að brenna ætti allt innan úr   húsinu eins og gert var í þessu tilviki. Í  kringum þessa  stöð hefur myndast  einskonar söfnuður,sem er alveg sérstaklega orðljótur. Vonandi taka ný fjölmiðlalög á  svona subbuskap. Það er óþolandi þegar átölulaust  dreift er rógi og ósannindum um nafngreinda einstaklinga.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Bensi skrifar:

    Anna María; það er mikið rétt. Arnþrúður var ein af „vonarstjörnum“ þess skrítna fyrirbrigðis sem kallað er framsóknarflokkur.

  2. Eiður skrifar:

    Arnþrúður Karlsdóttir hefur margsagt að ég sé með ,,milljón á mánuði í eftirlaun.“ Haugalygi,sem hefur bakað mér ýmis óþægindi. Hún hefur líka sagt:,,Hver tekur mark á Eiði Guðnasyni. Hann er alltaf fullur.“ Fyrir nú utan það að hóta konu minni. Líklega ætti ég að stefna kerlingunni. Það er kannski að gera henni of hátt undir höfði.

  3. stefan benediktsson skrifar:

    Bind nokkra von við þetta frumvarp. Bendi á FOX og SKY. Tvær sjónvarpsstöðvar í eigu sama manns en í gjörólíku lagaumhverfi. Frumvarpið tekur m.a. mið af Breskri löggjöf.

  4. Anna María Sverrisdóttir skrifar:

    Ekki heyrði ég þessi ummæli á Sögunni enda eru margir mánuðir síðan ég hlustaði á stöðina og hef varla heyrt í henni nema óvart í fáeinar mínútur í senn. Þetta rímar samt ágætlega við það sem ég heyrði svo oft þaðan. Ég sé að þessi ummæli þín Eiður eru nú komin á dv.is svo einhver virðist hafa brugðist við. Arnþrúður gagnrýnir þig Eiður sem fulltrúa gamallar pólitískrar stéttar. Misminnir mig eða var hún ekki einu sinni á þingi sjálf og mistúlka ég hlutina þegar ég segi að hún sé rammpólitísk?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>