«

»

Molar um málfar og miðla 592

GLEÐILEGT SUMAR OG ÞÖKK FYRIR VETURINN !

Hversu margar sýningar sýnduð þið,  spurði Kastljóssmaður (20.04.2011). Sýningar eru ekki sýndar. Hvað voru sýningarnar margar, hefði verið betra.

Visir.is (18.04.2011):  Maðurinn sem leitað var að í New York eftir að greint var frá því í fjölmiðlum á föstudaginn að hann væri grunaður um fjárdrátt er kominn í leitirnar heilu og höldnu. Þetta  orðalag kann Molaskrifari ekki að meta, þótt ekki sé það rangt. Betra hefði verið að segja, að maðurinn væri  kominn í leitirnar heill á  húfi.

Maðurinn er grunaður um að hafa dregið að sér…. milljónir, sagði fréttamaður  Stöðvar tvö (18.04.2011). Menn draga ekki að sér  fé. Menn  draga sér  fé,  gerast sekir um fjárdrátt.

Og nú spyr kannski einhver: Hver borgar skuldir óreiðumanna í Valhöll?Kannski lendir óreiðan í fangi norræna íhaldsmanna?

 Alltaf verður Molaskrifari jafnhissa, þegar þaulvanir þulir  lesa  ambögu setningar eins og  (18.04.2011). Drög að þriggja  ára kjarasamningi … liggur nú fyrir.  Drög  liggja  fyrir   , hefði átt að segja. Þetta var í sexfréttum Ríkisútvarpsins.

Undarlegt var að heyra fréttaritara Stöðvar tvö í Eyjum  (20.04.2011) segja um borð í Hugni. Huginn beygist, huginn, hugin, hugin, hugins. Það segir Árnastofnun  að minnsta kosti.

Í fréttum Ríkissjónvarps (18.04.2011) var  sagt  frá  tækjum til ostagerðar sem  flutt  hefðu verið  til landsins, nánar tiltekið  til Sauðárkróks.   Tækin voru  sögð standa á höfninni.  Ekki  líkar Molaskrifara þetta orðalag. Betra hefði  verið að segja að  tækin  væru  við höfnina eða á  hafnarsvæðinu. Alls ekki á höfninni.

Hjalti Árnason þakkar fyrir  þessa pistla  og segir:  ,,Ég rakst á þetta greinarkorn í morgun (sjá meðfylgjandi hlekk) og velti fyrir mér notkun á skammstöfuninni SA.  Er það ekki rétt að þarna sé átt við Samtök atvinnulífsins?
http://visir.is/fjorbrot-frekjunnar/article/2011704189947
Þannig að þarna ætti í raun að tala um hvað Samtök atvinnulífsins vilja en ekki hvað SA vill.  En kannski veit Guðmundur Andri þetta betur.” Rétt Hjalti. Hér  ætti að segja:  SA  vilja…  Guðmundur Andri  er okkur örugglega sammála.

Í  Ríkisútvarpinu (17.04.2011) var  nýlega fjallað um vinsæla bók   Reynis Ingibjartssonar um 25 gönguleiðir í og við höfuðborgina og  sveitarfélögin  í kring.  Þar  var talað um  þriðju útgáfu  bókarinnar. Betra hefði verið að tala um þriðju prentun bókarinnar eins og gert er í auglýsingu útgefanda.  Ný útgáfa gefur   til  kynna  breytingar frá eldri útgáfu. Ný prentun er bara ný prentun.    Í þessu sambandi mætti nefna  að  Molaskrifari heyrði í útvarpi  glefsu úr erindi um bókaútgáfa fyrr á öldum.  Þar var  svo tekið til orða að enginn prentari hefði viljað prenta  bækur  höfundar út. Þar var átt við að enginn hefði fengist til að prenta bækur  höfundar. Á þeim  tímum var sjálfsagt ekki um eiginlega  bókaútgefendur að ræða í nútímamerkingu þess orðs. Það er  hinsvegar orðin  málvenja  á tölvuöld, þegar efni er  prentað úr  tölvu, að tala um að prenta eitthvað út.  Þar nægði alveg að tala um að prenta.

Norska sjónvarpið, NRK 2 endursýnir  um þessar mundir  gamla  Derrick þætti og   Dallas. Það þarf ekki nema  að gjóa auga á skjáinn til að sjá  að Derrick   er úr góðmálmi gerður og  ber aldurinn  vel. Dallas fólkið er allt úr plasti.

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Arnbjörn skrifar:

    Eyjamaðurinn hefur ætlað að vanda sig og það ber að virða. En undantekningar frá svokallaðri lykilsreglu eru orðin Reginn, Huginn, Muninn og Yggdrasill. Því á ekki að segja að Óðinn hafi hangið í ‘Yggdrasli’ og fengið síðan fréttir frá ‘Hugni’ og ‘Munni’. Því síður segjum við að Sigurður hafi grandað ‘Regni’.
    Gleðilegt sumar, málvinir.

  2. Ben.Ax. skrifar:

    Forðum daga fannst prófarkalesara á DV það skjóta skökku við þegar auglýst var að sýningum á leikverki færi fækkandi þegar honum fannst augljóst að þeim gæti bara farið fjölgandi. Allir vissu hins vegar við hvað var átt. Tækin til ostagerðar voru greinilega á bryggjunni. Hér fyrir framan mig eru ,,Fimtíu Passíusálmar eftir Hallgrím Pétursson – Fertugasta og þriðja útgáfa. Reykjavík, Ísafoldarprentsmiðja – 1907.“ (Ekki fertugasta prentun)

  3. Eiður skrifar:

    Takk sömuleiðis, – og þakka allmarga vetur !!!

  4. Eiður skrifar:

    Molaskrifari hefði ekki tekið svona til orða.. Þarna er á ferðinni undarlegt tilfinningaleysi gagnvart orðum

  5. Ævar skrifar:

    Stóðu ostagerðartækin ekki bara á bryggjunni?

  6. Sigurður Karlsson skrifar:

    „Tveir vestrænir blaðamenn voru drepnir í líbísku borginni Misratah í dag…“
    var sagt í tíufréttum RÚV í gærkvöldi. Fréttinn lauk svo með þessum orðum:
    „…hafa alls 60 verið drepnir í borginni í dag og 60 verið særðir.“

    Mér leikur forvitni á að vita hvort molaskrifari hefði tekið svo til orða um kollega sína, sem féllu eða fórust í sprengjuárás, þegar hann vann við fréttaskrif á sínum tíma?

    Í öðrum fréttum í gær var hins vegar sagt frá því hve margir hafi „látið lífið í róstum í Norður-Nígeríu“. Væri ekki betra samræmi í að segja að þetta fólk hefði „drepist“ í róstunum?

  7. Karl Steinar Guðnason skrifar:

    Gleðilegt sumar !

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>