«

»

Molar um málfar og miðla 593

  

DV-bloggari segir (19.04.2011) að  Vilhjálmur Egilsson sé leppi LÍÚ. Orðið leppi er  ekki til í íslensku, nema   sem  þágufallsmyndin af orðinu leppur,  sem m.a.  getur  þýtt handbendi.  Molaskrifari þekkir reyndar Vilhjálm sem góðan dreng.  Honum var  ýtt  til hliðar með  bolabrögðum í prófkjöri   hjá Sjálfstæðisflokknum. Vilhjálmur er  hinsvegar í vondu hlutverki nú um stundir.

Í útvarpsfréttum  (19.04.2011) var sagt: Hörð viðurlög  eru við peningafalsi. Í eyrum  skrifara hljómar þetta ekki rétt. Vel  má þó vera að svo sé.  Hann hefði sagt að  hörð viðurlög  væru við  því að  falsa peninga, eða  hörð viðurlög  væru  við peningafölsun. Hvað segja  lesendur?

Æðstu prestar Útvarps  Sögu nota ævinlega forsetninguna á þegar þeir tala um  stöðina. Eðlilegri málnotkun væri  segja til dæmis: Ég heyrði þetta í Útvarpi  Sögu.  

Oft er ruglað  með  forsetningar með staðanöfnum. Við fórum á Akureyri, sagði kona, sem rætt var við á Rás tvö (20.04.2011). Við fórum til Akureyrar og vorum á Akureyri í  viku. Gott var hinsvegar að heyra þáttagerðarmann á Rás tvö  leiðrétta sig, þegar honum varð á að segja á Neskaupstað. Hann leiðrétti sig samstundis og sagði í Neskaupstað. Menn fara í kaupstað ekki á kaupstað.

Undarlegt að heyra auglýsingu á Rás  tvö í Ríkisútvarpinu  frá  háskólanum á Bifröst  þar sem talað var um að  kunna viðskipti. Ekki  var  betra að þurfa að hlusta á að vorið væri alveg að detta inn. Þeir sem stjórna auglýsingadeild  Ríkisútvarpsins eru ekki starfi sínu vaxnir. Taka  við öllu sem  að þeim er rétt.

  Hefur þetta áhrif á öryggisstigið í bænum, spurði  fréttamaður Ríkisútvarpsins á Akureyri (20.04.2011). Öryggisstigið í bænum ?  Það var og !

Í fréttum Stöðvar tvö (20.04.2011) sagði fréttamaður: … verði minni en spáð var fyrir um.  Þarna farið betur á að segja: … minni en spáð var. Spákonan  spáði  fyrir mér. Hún spáði mér  langlífi og góðri heilsu.

Frýs vetur og sumar saman?  Var spurt í   fyrirsögn á  dv.is. Í fréttinni með þessu var farið rétt með þetta.

Mikið er annars gaman að heyra aftur í  lóunni, stelknum, spóanum og jafnvel rjúpuropa  og vera þar sem ,,hneggjar loft af hrossagauki”.

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Haukur Kristinsson skrifar:

    Vilhjálmur Egilsson: Góður drengur í vondu hlutverki.

    Dæmigerð íslensk meðvirkni.

  2. Matthías skrifar:

    Orðið -leppi- er svo auðvitað líka til sem viðtengingarháttur af sögninni að leppa. ,,Þótt ég leppi hrókinn…“.

  3. Eiður skrifar:

    Forráðamenn þessarar útvarpsstöðar kalla hana Útvarp Sögu. Mér finnast eðlilegast að segja að ég hafu heyrt eitthvað í Ríkisútvarpinu og í Útvarpi Sögu rétt eins og ég hlusta á fréttir í útvarpinu ekki á útvarpinu.
    Málvenja heimamanna á hverjum stað á að ráða. Það er rétt mál. Engin algild regla er í þessu efni.

  4. Eiður skrifar:

    Ég veit að líklega eru ekki allir sammála. Séra Emil Björnsson fréttastjóri lagði ríka áherslu á það við okkur fréttamenn að segja og skrifa í Neskaupstað en á Norðfirði. Hann var Breiðdælingur. Líklega er þetta nokkuð á reiki nú orðir. Þakka þér hvatninguna til að halda þessum skrifum mínum áfram.

  5. Valdimar Thor H. skrifar:

    „Gott var hinsvegar að heyra þáttagerðarmann á Rás tvö leiðrétta sig, þegar honum varð á að segja á Neskaupstað. Hann leiðrétti sig samstundis og sagði í Neskaupstað. Menn fara í kaupstað ekki á kaupstað.“

    Held að það sé ófrávíkjanleg venja/regla á Austfjörðunum að segja á á undan nafni -fjarðar, -víkur, -staðar. Maður fer austur á Vopnafjörð. Maður býr á Vopnafirði. Er sjálfur þaðan og það hljómar ekki rétt að segjast fara austur í Vopnafjörð (það er augljóslega ekki rangt heldur) en það hljómar ekki rétt hjá „heimamönnum“. Ég fer austur á Breiðdalsvík, austur á Neskaupstað, austur á Norðfjörð o.s.frv.

    Kær kveðja og takk fyrir að halda úti „Íslensku máli“ á vefnum; ekki gerir RÚV það lengur.

    Valdimar

  6. Gunnar Th. Gunnarsson skrifar:

    Við heyrum eitthvað í útvarpinu, en svo heyrum við eitthvað á tiltekinni útvarpsrás.
    Á Bylgjunni, á Rás 2.
    Ef útvarpsrás héti Saga, þá segðum við: „Ég heyrði þetta á Sögu“, en ekki „í Sögu“.

    Forsetningar í staðarnöfnum; „á“ og „í“ eiga að vera samkvæmt málvenjum á viðkomandi stöðum. Ef Norðfirðingar segðu alltaf „á Neskaupsstað“, þá væri það einfaldlega rétt. Öllum finnst hins vegar „í Neskaupsstað“ eðlilegt og rétt, enda er það málvenjan. En svo eru eflasut einhverjar málfræðireglur í þessu. Við segjum t.d.: „Jón í Kirkjulækjarkoti“ en svo „Jón á Kirkjulæk“. Ræður þarna máltilfinning för, eða er um raunverulega reglu að ræða?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>