Glöggur lesandi sendi Molum þessa ábendingu: Á baksíðu Morgunblaðsins í dag (13.05.2011) er að finna fyrirsögnina „Öll hundrað hjólin seldust upp í fyrra“. Er ekki orðinu „upp“ ofaukið hér? Hefði e.t.v. getað farið svo að 99 hjól „seldust upp“, en að eitt hjólanna hefði ekki „selst upp“? Þakka ábendinguna. Rétt. Annaðhvort: Hjólin seldust upp. Eða: Öll hjólin seldust.
Heldur leiður er sá siður sumra fréttamanna Ríkisútvarpsins að tala sífellt um síðasta vor, þegar verið er að tala um eitthvað sem gerðist í fyrra vor. Þetta heyrist ótrúlega oft og virðist heldur ágerast. Hvar er nú málfarsráðunautur?
Frétt Morgunblaðsins (12.05.2011) um að tveir þingmenn hafi reynt að fá íslenska fjárfesta til að leggja fram 1100 milljónir króna til að fjármagna gullleit í Kólumbíu minnir á liðna tíð. Þá var reynt að fá íslenska ríkið til að veita ríkisábyrgð fyrir láni til að leita að gullskipinu á Skeiðarársandi. Nokkrir þingmenn höfðu forgöngu um þetta, þeirra á meðal var núverandi forseti Íslands, gott ef hann var ekki fjármálaráðherra þá. Sem betur fer var meiri hluti þingmanna skynsamari en svo að kasta skattpeningum almennings á glæ með þessum hætti. Molaskrifari man ekki betur, en Kjartan Jóhannsson, einn af þingmönnum Alþýðuflokksins orðaði það þannig, að eins mætti veita mönnum lán með ríkisábyrgð gegn veði í miða í Happdrætti Háskólans.
Stundum er eins og auglýsingastofur vinni kerfisbundið að því að spilla íslensku máli. Í auglýsingu á bls. 5 í Morgunblaðinu (12.05.2011) frá EJS segir um tölvur: Starfsmennirnir fíla þær. Orðið fíla er enskusletta sem á ekkert erindi í auglýsingu frá fyrirtæki, sem vill vera marktækt. Fyrirtækið EJS sem er hluti af Skýrr hafnar vönduðu málfari.
Gagnrýni Þrastar Ólafssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands á það að ekki skyldi sjónvarpað beint frá fyrstu tónleikunum í Hörpu var réttmæt. Svör stjórnenda Hörpu voru hinsvegar ekki sannfærandi, óljós og út og suður. Svo var frá því sagt að mistekist hefði að taka upp tónleika númer tvö og því orðið að taka upp tónleika númer þrjú. Hvað gerðist? Hvað fór úrskeiðis?
Í dagskrárkynningum Ríkisútvarpsins (12.05.2011)er ýmist talað um opnunarhátíð Hörpunnar eða opnunarhátíð Hörpu. Húsið heitir Harpa ekki Harpan. Ríkisútvarpið,sem núna heitir víst bara Rúv, þarf að gæta samræmis. Annars væri fróðlegt að vita hvort það var stjórn stofnunarinnar sem ákvað að hætta að nota hið gamla heiti Ríkisútvarp eða var það sjálfur útvarpsstjórinn?
Getur annars einhver upplýst hvað stjórn Ríkisútvarpsins gerir (Molaskrifari veit að hún kemur ekki nálægt dagskránni) og hvað hún fær greitt fyrir sín miklu ábyrgðarstörf, sem örugglega eru bæði tímafrek og erfið.
Aðalatriði í frétt Ríkissjónvarpsins frá opnunarhátíð Hörpu(13.011.2011) var tuttugu manna hópur mótmælenda við aðalinngang hússins. Fáránlegt fréttamat.
Skildu eftir svar