«

»

Molar um málfar og miðla 606

Það var ágætt  að heyra orðið formælandi  notað um talsmann Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í fréttum Ríkisútvarps (15.05.2011). Orðið talsmaður er annars algengt og ágætt. Þeir sem telja að konur séu ekki menn hafa búið til orðið talskona. Samkvæmt íslenskri málvenju fornri eru konur menn.

Heilsaði Evrópu með náttúrulegum geislabug, segir  á  svokölluðu Smartlandi Mörtu Maríu á mbl.is  (15.05.2011). Bjarni Sigtryggsson bendir á þetta  og segir:  ,,Þetta  hefði getað verið prentvilla, væri þetta ekki endurtekið í frétt og tilvitnun”. Það var og. Molaskrifari hallast að því að  þeim sem skrifa í  Morgunblaðið og mbl.is  sé  stranglega bannað  að nota orðið  baugur. Hvort sem er  með litlum staf eða  stórum, eitt sér  eða í samsettum orðum.  En það er sem sagt enginn bilbugur á þeim Moggamönnum. 

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (15.05.2011) var sagt frá flóðum í Missisippifljóti. Fréttamaður sagði:  Flóðgáttirnar hafa ekki opnað í næstum40  ár.  Þetta  er rangt.  Flóðgáttir opna ekkert, – ekki frekar en kjörstaðir, – þær eru opnaðar.

Sömu ambögurnar heyrast aftur og  aftur. Kynnir í Evróvisjóndagskrá Ríkissjónvarpsins (14.05.2011) hélt áfram að sigra keppnina   og  bætti því nú við að verið væri að segja okkur upplýsingar.

Undarleg fyrirsögn á pressan.is (14.05.2011)   Rifrildi leiddi til láts, – nær hefði verið að tala  tæpitungulaust og segja: Rifrildi leiddi til morðs.

Úr dv.is (14.05.2011): Karl biðst afsökunar á að hafa nafnbirt eiganda bílsins… Sögnin að nafnbirta  er bull. Karl biðst afsökunar á að hafa birt nafn  eiganda bílsins…

Úr mbl.is (14.05.2011): Sumaropnun Ylstrandarinnar í Nauthólsvík hófst í dag.  Hversvegna ekki:  Ylströndin í Nauthólsvík var opnuð í dag ?

Úr mbl.is (14.05.2011): Nú er draumurinn búinn að rætast.  Nú hefur draumurinn ræst.

Ríkisútvarpið virðist ekki geta gert upp við  sig hvort hljómleikahöllin við höfnina heitir Harpa eða Harpan.  Húsið heitir Harpa.

Að vera á tánum, í merkingunni að vera á varðbergi, gæta sín gagnvart e-u ,  virðist vera  viðurkennt og velmetið mál í Ríkisútvarpinu. Í fréttum (15.05.2011)  var talað  um að  matvælaframleiðendur , ..   séu meira á tánum.  Molaskrifari  er þessu  ósammála. Honum finnst  þetta  ambaga.

Stöð tvö hefur um langt  skeið sýnt  fréttaskýringaþáttinn  60 mínútur  frá CBS í Bandaríkjunum. Þetta er einn  besti  fréttaskýringaþáttur,sem  völ er á  í  sjónvarpi. Merkilegt að Ríkissjónvarpið skuli  ekki hafa sýnt  þessum þáttum áhuga. Á upphafsárum sjónvarps  voru sýndir bresku fréttaskýringaþættirnir  Panorama, sem  voru vandað efni.  Ekkert slíkt efni er  nú á dagskrá Efstaleitissjónvarpsins.

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Jón Óskarsson skrifar:

    Rekstaraðilar Hörpu nota orðið jöfnum höndum með og án greinis.

    Þetta má lesa á heimasíðum þeirra

    http://www.harpa.is
    http://www.austurhofn.is/

  2. Sigurður Karlsson skrifar:

    „Hefðu þurft að ganga lengur“ sagði í fyrirsögn á fréttavef RÚV í gær.
    Í fréttinni sjálfir er hins vegar haft eftir formanni Samtaka íslenskra fiskimanna að honum finnist stjórnvöld hafa átt að „ganga lengra“ varðandi veiði heimildir strandveiðimanna.
    Ætli fréttamanni hafi þótt ástæða til að leiðrétta málfar fiskimannsins? Eða finnst honum kvótafrumvörpin ekki hafa verið nógu lengi í fæðingu og stjórnvöld hefðu átt að ganga lengur með þau?

  3. Qaja skrifar:

    Húsið heitir vissulega Harpa en það er gömul íslensk hefð að bæta greini aftan við sérstakar byggingar og stofnanir. Dæmi um þetta er til dæmis Landspítalinn, Ráðhúsið og núna Harpan.
    Með kveðju

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>