«

»

Molar um málfar og miðla 607

 

Í frétt í Morgunblaðinu (14.05.2011) segir: … Umferð um veginn að Fimmvörðuhálsi hefur verið lokuð frá því fyrir páska. Umferð hefur ekki verið lokuð, heldur hefur vegurinn verið lokaður allri umferð frá því fyrir páska.  Í sömu  stuttu fréttinni segir:  Úthlutað var  sex milljónum króna úr styrkvegasjóði í nýtt  vegstæði… Styrkvegasjóður? Það er   eitthvað sem Molaskrifari hefur aldrei  heyrt talað um.

Ríkissjónvarpið auglýsir eitthvað sem  heitir  Dylan Kóverlagakeppni Rásar tvö.  Molaskrifari viðurkennir að hann hefur ekki hugmynd um hverskonar keppni það er  sem verið er að auglýsa og  biður málfarsráðunaut  Ríkisútvarpsins í allri vinsemd að upplýsa málið. Hér  er um  að ræða nýyrði,sem Molaskrifari hefur aldrei  áður heyrt.

Molavin sendi eftirfarandi: ,,Eyjan vitnar í frétt á netsíðunni bleikt.is þar sem ritstjóri hennar segir frá íslenzkum heimilislækni, sem dáleiði sjúklinga. Læknirinn er alltaf kallaður „dáleiðandi“ í fréttinni. „Dávaldur“ er það íslenzka heiti, sem venjan er að nota um þá sem dáleiða fólk.” Rétt er það og satt. Dávaldur er fínt orð,sem óþarft er að kasta fyrir róða.

Ekki verður sagt að þessi  frétt  dv.is (16.05.2011) sé  mjög lipurlega skrifuð: þegar eldur kom upp í þotuhreyfli vélarinnar.  Og : Farþegar óttuðust um líf sitt og byrjaðu (byrjuðu) margir þeirra að biðja saman.   Eldur kom upp í öðrum hreyfli  vélarinnar. Byrjuðu margir þá að biðjast fyrir.

Í fréttum  Ríkissjónvarps (16.05.2011) var talað um frummælanda fundarins,  þann sem hafði framsögu á  fundinum.  Molaskrifara  hefði fundist eðlilegra  að tala um frummælanda á fundinum.  Í fréttum  Ríkissjónvarps (17.05.2011) var notað orðið fótafúinn. Er ekki rétta orðið fótfúinn? Lélegur til fótanna.

Úr mbl.is (16.05.2011): Julia Gillard, forsætisráðherra Ástralíu, hefur einnig ljáð máls á þessu og látið varnaðar orð falla. Af fréttinni má  ráða  að   orðtakið að ljá máls á, á ekkert erindi þarna. Það þýðir að gefa vilyrði fyrir , taka e-ð í mál. En hér  virðist það  notað í merkingunni að leggja orð í belg  eða segja álit sitt á  e-u. Molaskrifari mundi  skrifa varnaðarorð í einu orði.

Á sunnudagskvöld (15.05. 2011) sýndi norska sjónvarpið NRK 2 frá    hátíðartónleikum í  tilefni sjötugsafmælis óperusöngvarans Placidos Domingos  í óperunni í Madrid. Spænska sjónvarpið  TVE,  BBC   og Eurovision settu saman stórkostlegan 90 mínútna  þátt frá þessum einstæðu tónleikum.  Norska og finnska  sjónvarpið  voru meðal þeirra sem  tóku þátt í þessu verkefni. Ríkissjónvarpið okkar var þar ekki á blaði.   Það er annars merkileg staðreynd og umhugsunarefni,  að  SAM-bíóin hafa líklega gert  meira fyrir sígilda  tónlist á  Íslandi með beinum  sýningum frá Metropolitan í New York og  e.t.v.  víðar,   en nauðungarsjónvarp  ríkisins  við Efstaleiti, þar sem stjórnendur hugsa mest um   fótboltaboltaleiki og  ameríska froðu eins og vídeóleigurnar bjóða. En þar þurfa menn ekki að borga fyrir að fara ekki inn.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir ,Ásgrímur, fyrir þetta ágæta svar. Gott að þessu verður breytt næst.

  2. Ásgrímur Angantýsson skrifar:

    Sæll, Eiður.

    Þetta er mjög réttmæt ábending og ég hef þegar komið henni á framfæri. Eitt er að nota þetta orð í óformlegu spjalli, annað að skella því í auglýsingaborða á vef Ríkisútvarpsins. Ég veit reyndar að menn hafa velt vöngum yfir orðum á borð við ábreiða, þekja og kráka en ekki talið þau heppileg í þessu samhengi. Ég get út af fyrir sig skilið það en tökulag finnst mér tilvalið orð og það fer vel í samsetningum. Mér er þó sagt að sumum tónlistarmönnum finnist að með því sé gefið í skyn að lögin séu tekin og spiluð í óbreyttri mynd. Ég sé reyndar ekki hvernig hægt er að tryggja að enginn túlki orðið koverlag á þann hátt. Niðurstaðan úr spjalli mínu við þann sem sér um dagskrárkynningar Rásar 2 var að láta þetta standa óbreytt að þessu sinni (keppnin var kynnt á þennan hátt og henni lýkur eftir örfáa daga) en ég lagði áherslu á að næst yrði þetta kallað tökulagakeppni eða einhverju öðru góðu íslensku nafni.

    Með kveðju,
    Ásgrímur

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>