Helga Árnadóttir sendi Molum eftirfarandi línur: ,,Heill og sæll ágæti molaskrifari. Þakka þér fyrir þínar góðu og mjög svo þörfu athugasemdir við málfar landans. Hrökk í kút, er ég nú fyrir stundu hlustaði á, að gestum á sveitabæ var boðið upp á brodd!!!! Sem konu alinni upp á sveitabæ, blöskraði mér að heyra bóndakonuna útskýra hvað þetta væri. Því þótt hún hafi farið rétt með uppruna afurðarinnar, þá vissi hún greinilega ekki, að eftir vinnslu nefnist varan ábrystir. Ýmist draflaábrystir eða ábrystir, eftir því hver vinnsluaðferðin er. Vona að þú takir þetta upp í þínum molaskrifum. Þætti þér ekki einkennilegt ef ég byði þér fetamjólk í salatið, eða mjólk ofan á brauðið? (í staðinn fyrir ost) Fyrirgefðu framhleypnina. Með þakklæti og kveðju.” Molaskrifari þakkar Helgu þessa ágætu ábendingu, sem hér með er haldið til haga.
Fínt innslag í Kastljósi (18.05.2011) um Lönu Kolbrúnu Eddudóttur og frábæra jass- og tónlistarþætti hennar á Rás eitt.
Föstudagskvöldið 13. maí sýndi Ríkissjónvarpið okkur barnamynd frá klukkan um hálf ellefu og langleiðina til miðnættis. Mánudagskvöldið 16. maí sýndi Ríkissjónvarpið klukkan rúmlega níu mynd sem var bönnuð börnum. Undarleg eru vinnubrögð þess fólks, sem fær borgað fyrir að raða saman efni í sjónvarpsdagskrá fyrir þjóðina í Efstaleitinu. Líklega er það á rangri hillu.
Í Morgunblaðinu (17.05.2011) er fjallað um breytingar á lögum um gjaldeyrismál og takmarkanir vegna húsa- og bílakaupa erlendis. Í fréttinni segir: Vert er að geta í þessu samhengi að íslenska ríkið hefur verið virkt í fasteignakaupum erlendis á undanförnum árum. Fyrir tveimur árum var keyptur sendiráðsbústaður í Danmörku fyrir ríflega 250 milljónir króna og í fyrra voru fest kaup á sendiráðsbústað í London fyrir hátt í 900 milljónir króna. Augljóslega hefði ríkissjóður þurft að fá undanþágu hefði frumvarop efnahags- og viðskiptaráðherra verið orðið að lögum þegar viðskiptin áttu sér stað. Hér er þess látið rækilega ógetið, að á báðum stöðum voru seld dýrari hús en þau sem keypt voru. Muni Molaskrifari rétt fékk ríkissjóður eitthvað á annan milljarð í gjaldeyri heim til Íslands eftir þessi fasteignaviðskipti. Hverskonar fréttamennska er þetta hjá Morgunblaðinu ? Þegar rætt er um kaup á húsnæði vegna sendiráða Íslands er mikið býsnast yfir kostnaði án þess að hugað sé að fasteignaverði á því svæði sem um er rætt. Man þá enginn lengur að Sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur keyptu ónýta hjalla neðst við Laugaveginn fyrir tæplega 600 milljónir króna? Þegar borgin var svo búin að byggja á lóðinni var kostnaðurinn kominn upp undir milljarð. Allt í boði borgarbúa. Voru það ekki Sjálfstæðisflokkurinn og Ólafur F. Magnússon,sem stóðu fyrir boðinu?
Málfarshnökrar voru á frétt Stöðvar tvö (16.05.2011) um íslenska sjómenn sem breskir togarasjómenn fundu í gúmmíbáti eftir sólarhringshrakninga fyrir hartnær 60 árum. Hnökrana er ekki hægt að tilgreina hér, því eftir að breytingar voru gerðar á vefnum visir.is neitar tölva Molaskrifara að sýna úr fréttum Stöðvar tvö eins og þar er boðið upp á.
Úr fréttum Ríkissjónvarps (16.05.2011): …. enginn hafi fundið eitthvað jákvætt ( við frumvörpin).Hefði hér ekki verið eðlilegra að segja , að enginn hefði fundið neitt jákvætt ( við frumvörpin) ?
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (16.05.2011) var sagt: Norðurá hefur áður flotið yfir bakka sína… Molaskrifara hefði fundist betra að sagt hefði verið: Norðurá hefur áður flætt yfir bakka sína, – ekki flotið yfir bakka sína.
6 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Einar Kr. skrifar:
21/05/2011 at 12:52 (UTC 0)
Í æsku heyrði ég bæði móður mína (úr Skaftafellssýslu) og ömmu (úr Húnavatnssýslu) tala um brodd og ábrysti yfir sömu afurðina. Rétt er hafa í huga að málvenjan getur einnig að einhverju leyti verið mismunandi eftir landshlutum, jafnvel sveitum. Á Wikipedia er hins vegar athyglisverð og fræðandi umfjöllun um þetta:
„Ábrystir eru spónamatur sem búinn er til úr broddmjólk úr kúm en áður var sauðamjólk einnig notuð. Broddmjólkin er misþykk, þykkust fyrsta sólarhringinn eftir burð og þá er hún yfirleitt blönduð með nýmjólk til helminga eða meira, þynnri á öðrum degi og þá er hún minna blönduð og yfirleitt þarf ekki að blanda brodd sem mjólkaður er á þriðja degi eftir burð. Þegar broddurinn er hitaður, þá ystir hann og verður stífur. Vegna þess að ekki er hægt að hræra í honum, þá þarf að setja broddinn í skál eða kastarholu, sem aftur fer ofan í stærri pott með vatni í, sem svo er settur á hellu (eða hlóðir). Þannig brenna ábrystirnar ekki við (nú á tímum er einfaldast að sleppa vatnsbaðinu og sjóða ábrystirnar í örbylgjuofni). Þær eru látnar sjóða við vægan hita þar til þær eru orðnar stífar; það getur tekið um 20 mínútur en tíminn fer þó eftir þykkt broddmjólkurinnar. Ef ábrystirnar eru soðnar of mikið springa þær gjarna (bresta) og af því er nafnið ef til vill dregið. Ábrystir eru ýmist borðaðar heitar, volgar eða kaldar. Vinsælt er að setja kanilsykur út á, en annað útákast þekkist einnig.
Íslendingar eru ekki einir um að nota brodd í matargerð; færeyskur ketilostur er til dæmis mjög áþekkur og svipaðir réttir eru gerðir um öll Norðurlönd, í Skotlandi og reyndar mun víðar. Sunnar á Bretlandseyjum þekkjast ýmsir hefðbundnir réttir úr broddmjólk, sem þar kallast beestings.“
Tek undir athugasemd Eyglóar Y. Fólk má gjarnan kynna sér málin og tileinka sér umburðarlyndi áður en það blöskrast yfir öðru fólki, sem gengur gott eitt til.
Eiður skrifar:
20/05/2011 at 23:55 (UTC 0)
Nei.
Emil R. Hjartarson skrifar:
20/05/2011 at 21:52 (UTC 0)
Rætt var við ferðamálafrömuð í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hann sagði m.a. :“Við sjáum fram á aukningu í ferðamönnum“!!!
Er þetta boðlegt orðalag ?
Eiður skrifar:
20/05/2011 at 12:31 (UTC 0)
Í bernsku fannst mér ég heyra talað um ,,ábresti“ og átti ákaflega erfitt með að botna í því undarlega orði !
Haukur Kristinsson skrifar:
20/05/2011 at 12:20 (UTC 0)
Ég kannast við það hér norður í Þingeyjarsýslum að ábrystir sé kallaður broddur.
Eygló Y skrifar:
20/05/2011 at 04:32 (UTC 0)
Það er á hennar eigin ábyrgð (HÁ) ef henni blöskrar að notuð séu samheiti sem hún kannast ekki við:
broddur; broddmjólk; ábrystir
🙂
Svolítið neyðarlegt að segja aðra fara með rangt mál, þegar maður sjálfur veður í villu og svíma.