«

»

Molar um málfar og miðla 670

Það er undarlegt að Ríkisútvarpið skuli hafa beðið golfáhugamenn afsökunar á því að skynsemin skuli hafa fengið að ráða  þegar ákveðið var sl. sunnudag að fella niður beina útsendingu frá golfmóti suður í Leiru en leyfa þjóðinni þess í stað að fylgjast með einstæðum degi í sögu norsku þjóðarinnar í beinni útsendingu. Þetta ber vott um alvarlega brenglað skyn á  huglæg verðmæti, en kemur svo sem ekki á óvart. Sjá: http://www.visir.is/pall-magnusson-bidur-golfahugamenn-afsokunar/article/2011110729275

Egill sendi eftirfarandi ábendingu vegna fréttar í dv.is (26.07.2011): Þar stendur: „Svo mun hann hafa komið við á heimili kennarans á aðfaranótt laugardagsins þar sem árásin varð.“
Er ekki nóg að skrifa að eitthvað hafi gerst aðfaranótt laugardags? Sumarliði (sumarafleysingafréttamaðurinn) virðist koma víða við.
Það er rétt,Egill, Sumarliði er maður víðförull og vinnur víðar en hjá Ríkisútvarpinu.

Sumar erlendar borgir hafa íslensk heiti sem orðin eru föst í málinu. Því er ástæðulaust að breyta. Ein þessara borga er Hull á Englandi. Hún heitir Húll á Íslandi, ekki Höll eins og  nafn hennar er borið fram á ensku. Í sex fréttum Ríkisútvarps (25.07.2011) var borgin  kölluð Höll, en Bogi Ágústsson sem las   sjöfréttirnar í sjónvarpinu lét það ekkert á sig fá og talaði réttilega um Húll. Hrós fyrir það. Eins og svo margt annað hefur þetta svo sem verið nefnt hér í Molum áður.

Í fréttum Stöðvar tvö (26.07.2011) var talað um að æfa björgunaræfingar. Menn æfa ekki æfingar. Það ætti að vera augljóst. Í sama fréttatíma var talað um að ganga undir læknisrannsókn. Í fréttinni var hinsvegar réttilega talað um að gangast undir læknisrannsókn.

Í  fréttum Ríkissjónvarps (25.07.2011) var sagt frá skattakóngi ársins og sagt að hann hefði átt hluta úr Vatnsendalandi, en landið erfði hann af föður sínum. Molaskrifari er ósáttur við þetta orðalag. Hér hefði til dæmis mátt segja, – en landið fékk hann í arf eftir  föður sinn eða,- en landið erfði hann að föður sínum látnum.

Í sama fréttatíma var sagt um söfnun vegna hungursneyðar í  Afríku, — í fyrra söfnuðust 400 þúsund krónur sem  runnu óskipt til … Molaskrifari er á því að  hér hefði átt að tala um að krónurnar hefðu runnið óskiptar til …. féð rann óskipt til.

Samkvæmt var sínum stað í sexfréttum Ríkisútvarpsins (26.07.2011). Samkvæmt Arnóri, sagði íþróttafréttamaður.

Í Morgunblaðinu voru nýlega  birtar myndir af bílum náttúruníðinga sem  valdið höfðu spjöllum með því að aka utan  vega í fólkvanginum á Reykjanesi. Þess var vandlega gætt á myndunum að þurrka út skrásetningarnúmer bílanna. Það er fáránlegt. Auðvitað átti að birta númerin og helst hefði líka átt að birta nöfn eigenda eða umráðamanna bílanna. Í Morgunblaðinu í dag (27.07.2011) er birt mynd af  bíl föstum úti í mýri í  fólkvangnum á Reykjanesi.  Aftur er númer bílsins þurrkað út. Molaskrifara sýnist bíllinn vera af gerðinni Volvo XC 70 Cross Country. Ökumaðurinn hefur  líklega eitthvað misskilið tegundarheitið. Hversvegna er verið að hlífa þessum brotamönnum? Auðvitað átti að birta númer bílsins. En það er góðra gjalda hjá Morgunblaðinu að vekja athygli á þessum níðingsverkum gegn náttúru landsins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>