«

»

Molar um málfar og miðla 671

Í iðrum kerfisins rumskaði embættismaður eftir sextán ára svefndrunga og sagði: ,,Það er bannað með lögum að baka kökur  heima og  selja í Sjómannadagskaffi, 1. maíkaffi eða á kirkjubasar  til að afla  fjár fyrir  góðan málstað eins og gert hefur verið í 80 ár.”  Hvílíkt rugl! Þetta ku hafa verið í lögum í  sextán ár! Vita menn um einhvern sem heimabakaðar kökur hafa orðið að aldurtila? Vita menn um einhvern sem hefur fengið í magann af kleinum eða pönnukökum?  Næsta skref hlýtur að vera að banna fólki að baka í eldhúsinu heima hjá sér, nema  húsnæði, tól, tæki og hráefni hafi verið vottað af þar til bærum embættismanni.

Fleiri en einn og  fleiri en tveir hafa bent  Molaskrifara á   frétt á mbl.is (28.07.2011)http://www.mbl.is/frettir/erlent/2011/07/28/vidvorun_vegna_lifrarbolgu_ : „Meira en 4.000 Breta gætu þurft á nýju lifri að halda fyrir árið 2020 vegna lifrarbólgu C.“  Nýrri lifur!   Og lesandi bætir við: Ég hefði einnig talið réttara að segja „meira en …. gæti“.   Molaskrifari  er gáttaður.  Nýtt lifur!  Þau dafna vel málblómin í Hádegismóum !  Rétt er þó að geta þess, að þetta leiðrétt. “Sumarliðinn, hefur verið ofurliði borinn, eins  vinur Molanna orðaði það.

Prýðilegir og þarfir eru þættir Umferðarstofu, sem Ríkissjónvarpið hefur verið að sýna að undanförnu.  Profilm er framleiðandi þáttanna. Þar er fagmannlega unnið. Lagfæra mætti málfarshnökra þar sem sagt er að kostnaður geti numið tugum milljónum. Ætti að vera tugum milljóna.

Í  tíufréttum Ríkissjónvarps (26.07.2011) var  sagt að kostnaður  væri dýrari en... Kostnaður verður ekki dýrari. Hann verður hærri en, eða meiri en ….

Það er ekki aðeins Ríkisútvarpið sem brýtur lög um bann við áfengisauglýsingum. Það gerir til dæmis  Bylgjan líka. Mikið kapp er  lagt á að auglýsa  bjór fyrir verslunarmannahelgina og oftar en ekki eru auglýsingarnar ódulbúnar, ekki reynt að  fela sig bak við léttölsmiðann. Og  yfirvöld láta lögbrotin afskiptalaus. Ein versta  auglýsing  sem  Molaskrifari hefur lengi heyrt var á Bylgjunni í morgun (28.07.2011). Það var rímað bull um Carlsberg. Bögubósi hafði samið textann. Ömurlegt.

Í auglýsingu frá Orkunni er talað um einn lyklahafa. Ætti að vera einn lykilhafa.

Egill sendi Molum eftirfarandi (26.07.2011):  ,,Aftur og aftur spurði síðdegiskonan hjá Ríkisútvarpi Rásar 2: „Kvíðir þig?“, þegar hún ræddi við vegfarendur um álagningarseðlana.” Egill segir:  Uss!  Það gerir Molaskrifari líka.

Þátturinn verður fluttur á laugardag,- á sjálfa verslunarmannahelgina, var sagt í dagskrárauglýsingu í Ríkisútvarpinu (28.07.2011) 

Egill sendi einnig eftirfarandi: Hafa íslenskir blaðamenn aldrei lært þáskildagatíð?
Á vefsíðu mbl.is í dag, 26. júlí 2011, stendur: „Hann sagði ítrekað við mig í dag, að hann byggist við að verða skotinn.“ sagði Lippestad.
En réttara er: „Hann sagði ítrekað við mig í dag að hann hefði búist við að verða skotinn …“   Molaskrifari er sammála Agli.

Ingi þakkar pistlana og sendir eftirfarandi:
,,Varð hugsað til þín er ég las þessa frétt á mbl.is
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/07/23/leleg_loftgaedi_i_reykjavik/
Er ekki rétt að tala um að gæði séu mikil eða lítil en ekki góð eða léleg?
Í fréttinni er svo tengill inn á vefsíðu hjá Reykjarvíkurborg og þar má sjá mælingar á svifryki í andrúmsloftinu.
Þar er sama á ferðinni, loftgæðin eru ýmist, góð, miðlungs eða léleg.” Molaskrifari  tekur  undir  með Inga.  En það er orðið svo venjulegt að tala um léleg gæði, að senn finnst  manni það líklega þolanlegt.

   Útvarpsstjóri  Ríkisútvarpsins sagði  nýlega um grein,sem Þorsteinn J. Vilhjálmsson  skrifaði um Ríkisútvarpið: ,,Þetta er innihaldslítið og órökstutt samansafn af sleggjudómum og fimmaurabröndurum sem kallar ekki á neitt efnislegt svar af minni hálfu. Persónuleg höfnunartilfinning er ekki góður leiðsögumaður við svona greinarskrif“ .Það er sem betur fer sjaldgæft að opinberir embættismenn svari gagnrýni með þessum hætti. Þessi kurteislegu og hógværu ummæli minntu Molaskrifa  á   athugasemd sem þessi embættismaður  sendi honum á dögunum. Sjá: http://eidur.is/1567

 Morgunblaðið stuðlar að málefnalegri og vandaðri umræðu um ESB. Í Staksteinum (27.07.2011) er  vitnað með velþóknun í grein sem lýkur   svona: ,,Þetta er draumur Samfylkingarinnar. Að Ísland deyi í Evrópusambandinu. Drepst flest sem þangað fer.” Þetta þykir góð latína í Móakoti, höllinni í Hádegismóum.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

 1. Eiður skrifar:

  Allt frekar einkennilegt.

 2. Jón Óskarsson skrifar:

  Er ekki líka spurning um það hver vissi af ákvæðinu og hver potaði í embættismanninn til að virkja það og af hverju einmitt núna?

 3. Eiður skrifar:

  Sæll Björgvin, — gagnrýni mín beindist fyrst og fremst að því að það eru 16 ár frá því að reglurnar voru settar , en nú fyrst er verið að framfylgja þeim. Það finnst mér ámælisvert.

 4. Björgvin Jóhannsson skrifar:

  Sæll, Eiður.

  Ég vil byrja á því að þakka þér fyrir áhuvaverðar og skemmtilegar færslur.

  Ég verð þó að gera athugasemd við gagnrýni þína á þá/þann embættismann sem ákvað að framfylgja settum reglum (varðandi kökubasarinn). Það er leiður siður hjá Íslendingum að hundsa þær reglur sem þeim þykja ekki skynsamlegar og gagnrýna þá sem þurfa að framfylgja þeim. í stað þess ættu menn að einbeita sér að því að breyta reglunum. Það er ekki vænlegt þegar hver og einn fær að ákveða hvaða reglum hann ætlar eða ætlar ekki að fylgja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>