«

»

Athugasemd frá útvarpsstjóra til Eiðs Guðnasonar

Molaskrifara er það sérstök ánægja að birta eftirfarandi athugasemd, sem Páll Magnússon, útvarpsstjóri hefur sent honum:

,,Sæll Eiður

Ástæða þess að ekki var bein sjónvarpsútsending frá opnunartónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar var einfaldlega sú að forráðamenn Hörpunnar bönnuðu það. Tónleikarnir voru hins vegar í beinni útsendingu á Rás 1 og voru teknir upp fyrir sjónvarp daginn eftir og verða sýndir á Hvítasunnudag – ásamt viðtölum við m.a. hljómsveitarstjóra og einleikara. Formleg opnunarhátíð Hörpunnar í næstu viku verður síðan send út beint bæði í sjónvarpi og útvarpi.

 Þetta hefðirðu getað kynnt þér með t.d. einu símtali og forðast þannig að gera sjálfan þig að hálfgerðu viðundri einn ganginn enn þegar þú fjallar um RÚV. Þú ættir kannski að temja þér að telja upp að tíu áður en þú rýkur froðufellandi af formælingum og bræði og bloggar um hluti sem þú veist nákvæmlega ekkert um – og nennir ekki að kynna þér.

 Stöðug og stjórnlaus heift þín í garð Ríkisútvarpsins og starfsmanna þess er fólki  hér innandyra raunar mikið undrunarefni. Sjálfum finnst mér þetta jafnvel jaðra við að vera rannsóknarefni – a.m.k. fyrir sjálfan þig.

 Með vinsemd en þverrandi virðingu,  Páll Magnússon “

Svo mörg voru þau orð.

Opnunartónleikarnir í Hörpu 4.maí voru  merkasti menningarviðburður undanfarinna áratuga.  Þjóðin hefur beðið þessa húss lengi. Þessi  atburður   fyrstu tónleikarnir, er liðinn  og kemur aldrei aftur.

Það var röng ákvörðun hjá  stjórnendum Ríkisútvarpsins að segja þjóðinni ekki hversvegna ekki var unnt að sjónvarpa beint  frá  tónleikunum. Það voru alvarleg mistök stjórnenda stofnunarinnar. Í staðinn fékk þjóðin venjulegan  handbolta í beinni útsendingu  og svo venjulegan skammt af  amerískri læknafroðu,sem hægt er að fá á  hvaða víedóleigu sem er. Hér breytir  engu þótt í útvarpi  hafi verið  bein útsending á  Rás eitt. Það átti að segja þjóðinni hversvegna ekki var sjónvarpað. Stjórnendur Ríkisútvarpsins  brugðust.

Það var röng ákvörðun hjá  stjórnendum Hörpu að banna sjónvarpsútsendingu. Opnunardagurinn kom engum á óvart. Það er hægt að sjónvarpa  beint  frá íþróttakappleikjum um land allt.  Þjóðin átti heimtingu á að fá að sjá og  heyra þessa fyrstu tónleika. Það eru engin tæknileg rök  gegn því að þetta hafi ekki verið hægt. Stjórnendur Hörpu áttu að gera ráð fyrir þessu frá upphafi. Ganga út frá þessu .  Allur tæknibúnaðurinn er til.  Harpa  er þjóðareign. Þjóðin átti að fá að sjá og  heyra. Ekki bara nokkrir útvaldir.  Þetta voru alvarleg mistök. Það átti  að gera ráð fyrir þessu frá upphafi.

En að lokum þetta:  Nú skil ég miklu betur  en áður  hversvegna  menningin er í tíð núverandi  stjórnenda  Ríkisútvarpsins ævinleg hornreka í Ríkissjónvarpinu.

Fyrir það þakka  ég útvarpsstjóra og virði hann fyrir að koma til dyranna eins og hann er klæddur. Það er gott að þjóðin sjái það.

8 athugasemdir

1 ping

  1. Eiður skrifar:

    Það er fortíðarvandamál að sjónvarpsútsending frá tónleikum trufli tónleikagesti. Það hefði gerst fyrir 20 árum. Það er bara bull ap tala um slíkt gerist nú. Ég verið viðstaddur beina útsendingu tónleika erlendis og það held ég að tæknin hafi ekki truflað nokkurn mann.

  2. Arnar Hólmarsson skrifar:

    Því miður var ég ekki á opnunartónleikunum í Hörpu sl. miðvikudag. En ef svo hefði verið hefði ég ekki viljað sjá að hafa myndatökumenn að vappa um sviðið fram og aftur, auk myndavélabómu í miðjum salnum, til að sýna þetta í beinni útsendingu. Því það þarf mikinn fjölda tæknimanna til að sýna frá svona stórum viðburði og því hefði það skemmt upplifunin tónleikagesta á þessari hátíð. Þetta var eflaust ógleymanleg upplifun að vera þarna við fyrstu tónleika Melabandsins og þess vegna hefði allt svona brölt verið til öllum ama. Ég og aðrir getum bara séð þetta seinna.

  3. Jóhanna skrifar:

    Greinarmerkjasetningunni hjá þér er ábótavant, Eiður. Þannig virðist kommunum vera kastað af handahófi í fyrstu setninguna.

    Þessi setning hér ber einnig vott um handahófskennda kommunotkun: „Þessi atburður fyrstu tónleikarnir, er liðinn og kemur aldrei aftur.“ Þá seturðu ekki bil eftir raðtölum, eins og venja er, og notar bil á undan kommum og punktum. Það er ekki samkvæmt almennri venju og það vita allir.

  4. Axel skrifar:

    Sammála Gunnari. Páll ætti líka að læra telja upp á tíu. En líka sammála Páli. Eiður ætti að temja sér þann sið að kynna sér mál betur. Öll hin menningalega lágkúra í þessu umrædda máli er að Rúv var bannað að sýna beint frá þessum tónleikum.

  5. Gunnar skrifar:

    Páll Magnússon getur ekki með nokkru móti tjáð sig við fólk sem gagnrýnir hann án þess að hreyta í það skætingi.

  6. Anna María skrifar:

    Ég er þér sammála líka Eiður. það er skömm að því að fyrstu tónleikarnir í þessu húsi skuli ekki hafa verið í beinni útsendingu. Þetta er glæsilegt hús sem hefur kostað þessa þjóð allnokkuð og í raun og sann lágmark að þjóðin fengi fyrir sinn nefskatt að njóta tónleikanna á rauntíma.. Hverjum sem það er um að kenna er það skömm.

  7. Orri Einarsson skrifar:

    Alveg sammála þér Eiður. Það voru hrapaleg mistök að leyfa þjóðinni ekki að njóta opnunartónleikanna. Útvarpstjóri afhjúpar hrokann.

  8. Steingrímur Kristinsson skrifar:

    Það er vissulega hægt að gagnrýna margt af því sem við kemur Ríkissjónvarpi og útvarpi. Ekki fyrir það að vera með á dagskrá sinni einhverja „venjulegan skammt af amerískri læknafroðu“ eins og þú kallar það Eiður, nokkuð sem hvorki þú né ég undirritaður hafa áhuga á, en við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum ekki einir í heiminum og að ekki er vafi á að fjölmargir eru negldir framan við kassann á meðan sú útsending og aðrar álíka eru á dagskrá. En mér þykir það langt frá fagmennsku viðkomandi dagskrárstjóra (og yfirstjórn) að láta það viðgangast að breyta án frekari tilkynningar, útgefinni dagskrá sjónvarps og útvarps. Samber þegar einherjum boltaleik er skellt inn í staðinn fyrir aðra áður auglýsta dagskrárliði. Maður sest við kassann, eða opnar útvarp faststillt á Rás 2. og ætlar að horfa á eða hlusta á fréttir á reglulegum tíma, að þá skuli það vera boltaleikur sem ráði þar ríkjum. Og ekki bætir úr skák hvað útvarpið snertir þegar boltaleikur er þar á fréttatíma, og maður hefur fært sig yfir á Rás 1. Þá allt í einu, nánast í miðri fréttaskýringu hrópar fréttaþulurinn „þeir voru að gera mark, staðan nú 1 á móti engu“ Eins og þeir sem engan áhuga hafa á fótbolta og hafa flúið Rás 2, hafi áhuga á slíkum barnalegum tilvitnunum í almennum fréttum.
    Svo er það annað mál hvað varðar hina beinu útsendingu frá Hörpunni, þar sem tónar hennar hljómuðu á Rás 1 en ekki í sjónvarpinu.
    Dagskráin á hljómleikunum Rás 1 var margsinnis ítrekað að ætti að útvarpa þaðan á Rás 1, en að sjálfsögðu ekki á dagskrá Sjónvarpsins umrætt kvöld.
    Ekki er það neitt óvenjulegt þó ekki sé farið að tíunda það hersvegna sjónvarpsstöðvar voru ekki með beinar eða óbeinar útsendingum frá jafnvel merkari atburðum úti á landsbyggðinni, þar sem örugglega enginn mundi banna Ríkissjónvarpinu aðgengi eins og ráðmenn Hörpu virðast hafa gert við „opnunarhátíðina“ margnefndu, sem er vægt til orða tekið furðuleg tilskipun, frá þessum sem þar ráða. Og að lokum.
    Ríkisútvarpið á að koma sér upp sérstakri íþróttarás, svo dagskrárgerðarmenn geti haldið sig við margauglýsta dagskrá og losað okkur hina við ónæði þess efnis í framtíðinni.
    Steingrímur, 210234-4549

  1. Molar um málfar og miðla 671 | Skrifað og skrafað skrifar:

    […]    Útvarpsstjóri  Ríkisútvarpsins sagði  nýlega um grein,sem Þorsteinn J. Vilhjálmsson  skrifaði um Ríkisútvarpið: ,,Þetta er innihaldslítið og órökstutt samansafn af sleggjudómum og fimmaurabröndurum sem kallar ekki á neitt efnislegt svar af minni hálfu. Persónuleg höfnunartilfinning er ekki góður leiðsögumaður við svona greinarskrif“ .Það er sem betur fer sjaldgæft að opinberir embættismenn svari gagnrýni með þessum hætti. Þessi kurteislegu og hógværu ummæli minntu Molaskrifa  á   athugasemd sem þessi embættismaður  sendi honum á dögunum. Sjá: http://eidur.is/1567 […]

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>