«

»

Molar um málfar og miðla 598

Í  sexfréttum  Ríkisútvarps (04.05.2011) var talað um að hækkanir  væru of háar.  Þetta er  ekki rétt . Hækkanir   eru annaðhvort miklar eða litlar. Ekki  háar eða lágar. Þessi ambaga var svo  endurnýtt í sjöfréttum Ríkissjónvarpsins. Það er líklega í  samræmi við margumtalaða málstefnu Ríkisútvarpsins. Í fréttum Stöðvar tvö sama kvöld var talað um að atvinnuleysi væri hátt. Atvinnuleysi  er hvorki hátt né lágt. Það er mikið eða lítið.

 Í útvarpi  auglýsti  apótek  15% afslátt af öllum ilmum.  Karlkynsorðið  ilmur er ekki til í fleirtölu.

Prýðileg var umfjöllun Eiríks Rögnvaldssonar,prófessors,  og umsjónarmanna um íslenskt mál  í morgunþætti Bylgjunnar (05.05.2011). Hrós fyrir það.

Nálægt dellumeti var hinsvegar umræða í morgunþætti Útvarps  Sögu (05.05.2011) um að matreiða bjarndýrakjöt fyrir  ferðamenn ! Matreiðslumeistarinn  viðurkenndi að hann vissi ekkert um málið en  umsjónarmaðurinn  bullaði. Hafa þeir aldrei heyrt talað um trikínur?  Svo  var rætt um  selkjöt. Er selurinn ætur, spurði umsjónarmaður og bætti við:  eins og  bjáni.  Já, þetta eins og  bjáni  var ekki út í hött!

Pressan.is (03.05.2011): „…fylgdist með framvindu árásarinnar, sem lauk með að Osama bin Laden var vígður eins og gervöll heimsbyggðin veit nú eftir að Obama tilkynnti um það síðla sunnudagskvölds.“  Hann var vígður. Það var og.

Í  fréttayfirliti í lok  frétta Ríkissjónvarpsins var talað um að   Schengen-ríkjunum yrði heimilað að taka upp  tímabundið landanmæraeftirlit. Það var  miklu betra orðalag en notað var fyrr  í fréttunum um  landamæraeftirlit til bráðabirgða.

 

Molaskrifari er maður heldur sérvitur eins og  lesendur Molanna vita. Hann  fellir sig aldrei  við það, þegar fréttamenn kalla Ísland klakann,  eins og  gert var í annars ágætri  frétt um vorið og  fuglana í Ríkissjónvarpinu (04.05.2011). Þetta er  orðalag sem  menn geta  kannski notað í óformlegu spjalli í hálfkæringi. Það er óboðlegt og ónothæft í fréttum.

 Það var svolítið  einkennilegt að heyra  í  Ríkisútvarpinu  (04.05.2011) talað um hina  risavöxnu Níundu sinfóníu Beethovens

Einn af þingmönnum Framsóknarflokksins skrifaði   fyrir skömmu  (28.04.2011)grein í Morgunblaðið undir  fyrirsögninni: Alþingi tekið niður. Molaskrifari játar að hann skildi þetta ekki og lagði því á sig að  lesa greinina  í þeirri von að  merking fyrirsagnarinnar lykist upp  fyrir honum. Hann  var litlu nær eftir  lesturinn en hallast þó að því að  greinarhöfundur eigi við að framkvæmdavaldið  láti þingið ekki hafa nóga peninga,og þingið sé ekki nógu duglegt við að samþykkja tillögur þingmannsins  – fjárveitingavaldið  er reyndar hjá Alþingi. Meginefni greinarinnar er hinsvegar að ríkisstjórnin   af ráðnum  hug og einbeittri illgirni  geri þjóðinni allt  til bölvunar og allan þann miska  sem hugsanlegt er.  Í  orðabókinni segir  að taka  niður   sé  notað um  skepnur, og þýði  að  bíta glefsu eða kroppa lítið eitt. Alþingismenn eiga að vanda mál sitt.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Nói skrifar:

    Hvernig líður þér vinur?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>