Eftirfarandi tölvupóstur barst mér frá Arnari Páli Haukssyni vegna skrifa minna um að ekki skyldi sjónvarpað beint frá tónleikunum í Hörpu í gær: Vegna fjölda fyrirspurna er rétt að taka fram að:
Fyrsta beina útsending Rásar 1 frá tónlistarhúsinu Hörpu fór fram í gærkvöldi þegar tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar undir stjórn Vladimírs Ashkenazí fóru fram en þar var flutt verkið Velkomin Harpa eftir Þorkel Sigurbjörnsson, píanókonsert eftir Edvard Grieg og Níunda sinfónía Beethovens. Tónleikarnir og útsendingin tókust afar vel. Vegna fjölda fyrirspurna skal tekið fram að RÚV var ekki heimilt að vera með sjónvarpsútsendingu frá viðburðinum. Hins vegar verða sömu tónleikar teknir upp í kvöld og verða á dagskrá sjónvarps með viðtölum sem Arndís Björk Ásgeirsdóttir tók við Vladimír Ashkenazí og Víking Heiðar Ólafsson á Hvítasunnudag, 12. júní nk. kl. 14.00. Þess má auk þess geta að formleg opnunarhátíð Hörpu fer fram kl. 18.00 föstudaginn 13. maí og verður útvarpað og sjónvarpað beint frá hátíðinni.
Með góðri kveðju,
Bjarni G.
Því er ósvarað hvort Ríkisútvarpið reyndi nokkuð, lagði nokkuð á sig til þess að þjóðin fengi að sjá þessa fyrstu tónleika. Stofnunin er kunn að því að klúðra samningum á sviði íþrótta (og er þar nú bættur skaðinn). Hefur hún kannski klúðrað þessu líka eða var áhuginn ekki fyrir hendi vegna þess að búið var að ákveða að senda beint út þegar uppábúið þotulið þjóðar klingir glösum í boði skattgreiðenda (?) við svokallaða formlega opnun? Það er auðvitað alveg sérstakt tilhlökkunarefni að sauðsvörtum almúganum skuli verða leyft að sjá fyrirfólkið njóta lífsins. Ég er strax farinn að iða af tilhlökkun. Ekki þó vegna þess að ég eigi von á boðskorti !!! Heldur að geta horft á þetta úr sófanum heima.
Þetta breytir engu um það, að það er til skammar að þjóðin skyldi ekki fá að fylgjast með í hljóði og mynd þessum fyrstu tónleikum í langþáðri tónleikahöll þjóðarinnar. Það skiptir engu hvort sökin er öll Ríkisútvarpsins eða Hörpu að hluta. Söm er skömmin. Ef Ríkisútvarpinu var synjað um leyfi til að senda út fyrstu tónleikana í sjónvarpi þá átti Ríkisútvarpið að segja þjóðinni frá því. En Ríkisútvarpið á langt í land með að sýna okkur viðskiptavinum sínum venjulega kurteisi.
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
06/05/2011 at 20:42 (UTC 1)
Það er greinilegt Arnar , að þú ert lítt kunnugur nútíma upptökutækni og hefur ekki horft á tónleikaupptökur eins og til dæmis í Hovedscenen á NRK 2. Þú ert að tala um eitthvað sem var fyrir 40 árum.
Arnar skrifar:
06/05/2011 at 18:31 (UTC 1)
Því miður var ég ekki á opnunartónleikunum í Hörpu sl. miðvikudag. En ef svo hefði verið hefði ég ekki viljað sjá að hafa myndatökumenn að vappa um sviðið fram og aftur, auk myndavélabómu í miðjum salnum, til að sýna þetta í beinni útsendingu. Því það þarf mikinn fjölda tæknimanna til að sýna frá svona stórum viðburði og því hefði það skemmt upplifunina á þessari hátíð. Þetta var eflaust ógleymanleg upplifun að vera þarna við fyrstu tónleika Melabandsins og þess vegna hefði allt svona brölt verið til öllum ama.
Sauðsvartur almúginn getur bara séð þetta seinna, alveg eins og ég.
Bryndís Helgadóttir skrifar:
06/05/2011 at 12:30 (UTC 1)
Sauðsvartur almúginn sem greiddi mánaðarlega inn á reikning til þess að umrætt tónlistarhús risi hefði átt skilið að njóta fyrstu tónleikanna inni í stofu, enn er fólk að taka þátt í þessari söfnun. Gaman væri að vita hve mikið fé safnaðist og í hvað peningarnir fóru.
Það var auðvitað ekki hægt að bjóða okkur öllum, en smá glimt af dýrðinni hefði verið kærkomin. En við fengum reykinn af réttunum, því í Kastljósi sáum við ,,vasaútgáfu“ af því sem koma skal…æ, sennilega höfum við ekki misst af neinu.
Björn Ragnar Björnsson skrifar:
05/05/2011 at 18:54 (UTC 1)
Á dauða mínum átti ég von frekar en að ég gæti tekið undir hvert EINASTA orð í bloggfærslu hjá Eiði Guðnasyni. En nú er sú stund upp runnin. Nei ekki dauðastundin, heldur tek ég undir hvert or’ð Eiðs í þessari færslu.
Hildur Helga Sigurðardóttir skrifar:
05/05/2011 at 17:29 (UTC 1)
Heyrði óljóst viðtal við Sigrúnu Stefánsdóttur á RÚV í dag þar sem hún lýsti því að Ríkisútvarpinu hefði hreinlega verið „bannað“ að senda út frá þessu sögulega kvöldi, m.a. vegna plássleysis fyrir myndatökufólk, þar sem öll sæti hefðu verið uppseld (!).
Hef hreinlega aldrei vitað til þess að Ríkisútvarpinu/Sjónvarpi hafi verið meinaður aðgangur að sögulegum menningarviðburði ´-og það í stórhýsi, sem þjóðin er búin að kosta af litlum efnum í bullandi kreppu. Sammála þér, Eiður. Þetta var ósmekklegt klúður, sama hvar „sökin“ kann að liggja.