Aldrei, aldrei, hefur menningarleg lágkúra Ríkissjónvarpsins í Efstaleiti verið eins augljós og í kvöld (04.05.2011) þegar fyrstu langþráðu tónleikarnir fara fram í Hörpu. Sjónvarpið lét nánast sem Harpan væri ekki til. Tónleikunum er að vísu útvarpað á Rás eitt. Ef einhver döngun og menningarlegur áhugi væri hjá stjórnendum í Efstaleiti hefði öll þjóðin fengið að sjá tónleikana í kvöld í beinni útsendingu. Þetta er dagur ,sem kemur ekki aftur. Stórviðburður í tónlistar- og menningarsögu þjóðarinnar. Bein sjónvarpsútsending hefði sjálfsagt kostaðað eitthvað talsvert. En það hefði verið hægt að spara svolítið á Evróvisjón og fótbolta. Og hvað fengum við í staðinn fyrir útsendingu úr Hörpunni? Við fengum handbolta og fimmtugasta þátt af fimmtíu og þremur af amerískri læknadellufroðu ! Þetta er svo léleg frammistaða að í raun ætti sá ráðherra sem fer með stjórn þessarar stofnunar að reka alla æðstu stjórnendur hennar í einu lagi. Þeir eiga það skilið.
Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (04.05.2011) var okkur sagt að á fyrstu tónleikunum í Hörpu í kvöld yrði fluttur einn af frægustu píanókonsertum norska tónskáldsins Edvards Griegs. Edvard Grieg samdi aðeins einn píanókonsert. Það vita nokkkuð margir. Meira að segja þeir sem ekki eru sérfróðir um tónlist.
Úr dv.is (03.05.2011): Forstöðumaður Laugardalslaugar gat í samtali við DV einungis staðfest að atvik hafi orðið í lauginni og karlmaður hafi verið fluttur á brott með sjúkrabíl. Í fréttinni var einnig talað um endurlífgunartilraunir, þegar nægt hefði að tala um lífgunartilraunir. Það er æ algengara að heyra að atvik hafi orðið, þegar eitthvað fer úrskeiðis, slys verður eða óhapp af einhverju tagi. Molaskrifari er ekki sáttur við þetta orðalag. Hversvegna ekki segja frá því hvað gerðist ?
Í augum og eyrum Molaskrifara bera skrif og tal um björgun þeirra hvítabjarna sem hingað flækjast og flutning þeirra í náttúruleg heimskynni sín keim af heldur ómerkilegu lýðskrumi. Þessar tillögur ganga gegn ráðleggingum vísindamanna og hafa ekki Grænlendingar sagt að þeir neiti að taka við dýrum,sem hér hafa komið á land rétt eins við bönnum allan innflutning á lifandi spendýrum frá öðrum löndum? Sérfræðingar hafa líka sagt að verulegar líkur séu á að eitthvað sé að þeim dýrum sem hingað þvælast um óravegu og þau mundu ekki spjara sig , hvert sem þau væru flutt. Það er fjarstæðukennt að bera aðstæður hvítabjarna, sem hingað flækjast saman við aðstæður dýra norður við Hudsonflóa.
Viljum við friða samviskuna og sinna einhverskonar misskilinni góðvild með tugmilljóna kostnaði án þess að vita nokkuð um árangur? Gleymum því ekki að hvítabirnir eru grimm óargadýr, hættuleg fólki. Hversvegna fara menn ekki í stuttar gönguferðir á Svalbarða, nema vopnaðir rifflum? Í fatahengi háskólans í Longyearbyen eru sérstakir snagar fyrir rifflana. Einhverjum kann að finnast harðneskjulegt að segja það, en allt þetta fjas um að bjarga þessum dýrum og flytja þau á brott er eiginlega bara bull.
Fréttaflutningur af þessu máli sló nýtt met í lágkúru með löngu viðtali við átta ára barn í fréttum Stöðvar tvö (03.05.2011)
Forsöngvari kjánakórsins í þessu máli hefur verið borgarstjórinn í Reykjavík. Og nú liggur við að Morgunblaðið kyrji með kórnum, þótt í einkennilegum hálfkæringi sé, í furðulegri forystugrein (04.05.2011) þar sem slegið er úr og í. Björn Malmquist flutti prýðilegan pistil um málið í hádegisfréttum Ríkisútvarps (04.05.2011)
21 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Gunnar skrifar:
12/05/2011 at 18:44 (UTC 0)
Ég held að allir gestir á opnunartónleikum SÍ í Hörpu geti verið sammála um að þar hafi sögulegur atburður átt sér stað. Sama hvaða nafni sá atburður nefnist þykir mér vægast sagt leitt að hafa ekki fengið meiri hlutdeild í honum með hjálp sjónvarpsútsendingar. Sem betur fer var ekkert sem hindraði Dani í að sýna beint frá fyrstu tónleikum nýja tónleikahússins í Kaupmannahöfn í janúar 2009, það var mögnuð upplifun.
Eiður skrifar:
06/05/2011 at 00:56 (UTC 0)
Ég endurtek Páll. Þessa athugasemd sem þú talar um er ekki að finna í tölvunni minni. Sannara orð get ég ekki sagt. Ég hef aldrei hafnað því að birta leiðréttingu hafi ég ólviljandi farið rangt með. Vionsamlegast sendu mér athugasemdina aftur.
Eiður skrifar:
06/05/2011 at 00:49 (UTC 0)
Sælll, Páll, var að koma af tónleikum í Hörpunni. Hef ekki hafnað neinni athugasemd frá þér. Hef ekki séð neina athugasemd frá þér. Mun að sjálfsögðu svara þér. Hvert sendirðu athugasemdina ? Ég leiði hjá mér athugasemdir um lítilmótlega persónu mína, en sannara orð get ég ekki sagt en að ég hef ekki séð neina athugasemd frá þér, en nú skal ég leita betur.
Eiður skrifar:
06/05/2011 at 00:46 (UTC 0)
Lífgun og endurlífgun er að mínum dómi það sama. Lífgun úr dauðadái.
asdf skrifar:
05/05/2011 at 20:41 (UTC 0)
lífgun – endurlífgun
haefing – endurhaefing
er thetta ekki tvennt ólíkt?
Páll Magnússon skrifar:
05/05/2011 at 19:38 (UTC 0)
Sæll í þriðja sinn Eiður
Á ég sem sé að trúa því að þú hafnir að birta þá athugasemd við skrif þín sem ég sendi upp úr hádeginu í dag – og ítrekaði skömmu síðar?
Ef svo er í pottinn búið ertu enn smærri í sniðum en skrif þín bera þó ljósan vott um – og ég mun þá á morgun gera grein fyrir þessum samskiptum okkar á öðrum vettvangi.
Páll Magnússon
Eiður skrifar:
05/05/2011 at 17:04 (UTC 0)
Heyrði ekki hádegisfréttir í dag, en það hefðu þá verið almennir mannasiðir og kurteisi að segja viðskiptavinum Ríkisútvarpsins frá því hversvegna ekki var sjónvarpað beint frá tónleikunum. En Ríkisútvarpinu hefur aldrei verið sérlega lagið að sýna hlustendum kurteisi. Það er til dæmis ekki fyrr en eftir að sá sem þetta skrifar hefur svo sem tíu sinnum kvartað yfir óstundvísi í sýningu seinni frétta sjónvarps að farið er að segja frá seinkun á skjáborða. Seinkun sem nær alltaf er vegna þess að íþróttaþættir fara fram úr tilsetttum tíma.
Þorvaldur Sigurðsson skrifar:
05/05/2011 at 16:37 (UTC 0)
En nú liggur fyrir, sbr. hádegisfréttir útvarpsins (að vísu er kannski ekkert að marka þær úr því Eiður er hættur hjá ríkisútvarpinu) að Sjónvarpinu var ekki hleypt inn í salinn. Ósjónvörpunin er ekki vegna vanhæfni og vanrækslu Sjónvarpsins heldur vegna þess að forráðamenn Hörpu töldu að tökulið þess rúmaðist ekki í salnum innan um fína fólkið og glasaglauminn. Átti þá Sigrún Stefánsdóttir, og hennar lið, að ryðjast inn í húsið samt?
Eiður skrifar:
05/05/2011 at 14:47 (UTC 0)
Já, það hefði átt að sjónvarpa þessu . Glasaglaumur fína fólksins skiptir minna máli fyrstu tónleikarnir. Ríkisútvarpið á bara að skammast sín.
Axel skrifar:
05/05/2011 at 12:24 (UTC 0)
Jú svaraðu. Er það náttúrulögmál að fyrstu tónleikum hússins sé sjónvarpað? Af hverju má það ekki vera opnunarhátíðin sjálf sem er er sérstaklega hönnuð með sjónvarpsútsendingu í huga eftir að komin er smá reynsla á flutning í húsinu? Gagnrýni þín á ekki að beinast að Rúv. Heldur Hörpunni sjálfri sem valdi að hafa fyrirkomulagið með þessum hætti.
Eiður skrifar:
05/05/2011 at 12:00 (UTC 0)
Þessi botnlausa röksemdafærsla er eiginlega ekki svara verð.
Axel skrifar:
05/05/2011 at 11:56 (UTC 0)
Þetta var generalprufa í þeim skilningi að aldrei stóð til að skipulagning þeirra miðaðist við sjónvarpsútsendingu. Áttu Rúv menn þá að ryðjast inn? Alltaf staðið til að tónleikarnir 13. mars yrðu hinir stóru eiginlegu opnunartónleikar sem yrði sjónvarpa frá.. Skil ekki hvert vandamálið er. Tónleikana í gær mátti heyra íí útvarpinu – sem er gott. Axel ætlar ekki að halda ávarp. Af hverju ætti hann að gera það? Kannnski Haukur ætti að gera það. Hann er svo fyndin
Eiður skrifar:
05/05/2011 at 11:51 (UTC 0)
Þessi setning ,sem höfð er eftir Jóni skipstjóra er líka gullvæg: …sem telur að það sé algjör undantekning að fá skútur á borð við þessa í trollið.
Eiður skrifar:
05/05/2011 at 10:48 (UTC 0)
Þakka þér þessa ágætu athugasemd, Þórhallur. Þriggja mastra , – hvorki meira né minna.
Þórhallur Jósepsson skrifar:
05/05/2011 at 10:30 (UTC 0)
Opnunartónleikar Hörpu voru í gærkvöld, sjálf eldskírn hússins, breytir engu þótt puntveisla verði haldin síðar með skálaglammi og tildri.
Annað, molaskrifari hefur tíðum potað fingri í svona nokkuð: „Ég er búinn að vera fimmtíu ár á sjó eða meira og aldrei fengið flak upp,“ sagði Jón Sæmundsson skipstjóri á Oddgeiri EA 600 í samtali við blaðamann DV sem fékk þriggja mastra seglskútu í trollið fyrr í dag.“
Þetta er af dv.is í dag. Þessi blaðamaður er mikill afreksmaður að fá þriggja mastra seglskútu í trollið(!), Og þriggja mastra? Sussu, sussu!!
Haukur Kristinsson skrifar:
05/05/2011 at 00:08 (UTC 0)
Á heimasíðu Hörpu má lesa: Opnunartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu í kvöld. Svo eru menn að bulla um generalprufu. Ætlar kannski þessi Axel að flytja ávarp á “raunverulega” opnunarkvöldinu?
Eiður skrifar:
04/05/2011 at 23:57 (UTC 0)
Það er engin generalprufa, þegar forseti Íslands flytur sérstakt ávarp. Það var sjálfsagt að þjóðin fengi að sjá og heyra fyrstu opinberu tónleikana í húsinu. Það er bara undanhald og vandræðaleg vörn að kalla þessa glæsilegu tónleika generalprufu
Axel skrifar:
04/05/2011 at 23:25 (UTC 0)
Slaka á í tuðinu. Kvöldið í kvöld var í raun generalprufa og aldrei í boði að sýna frá þessu í sjónvarpinu. Raunverulegt opnunarkvöld Hörpunnar verður 13. maí. Veit ekki betur en það verði sýnt í beinni.
Andrés skrifar:
04/05/2011 at 22:54 (UTC 0)
Formleg opnunarhátíð Hörpu 13. maí verður í beinni útsendingu Ríkissjónvarpsins. 3-4 tíma tónlistardagskrá.
Haukur Kristinsson skrifar:
04/05/2011 at 21:42 (UTC 0)
Hlýt að taka undir orð Eiðs, þar sem ég sit við tölvuna og hlusta á tónleikana í Hörpu á Rás eitt. Algjör lágkúra að bjóða ekki þjóðinni á tónleikana með útsendingu í sjónvarpinu. Meira en lágkúra; skandall, virkilegur skandall. Eins og Eiður segir er þetta dagur sem kemur ekki aftur. Ég barasta skil þetta ekki, er orðlaus.
Hilmar skrifar:
04/05/2011 at 21:20 (UTC 0)
Doði og heimóttabragur sjónvarpsins gagnvart þessum merka menningarviðburði er hreint með ólíkindum…