«

»

Molar um málfar og miðla 596

   Það var heldur betur tíðindasamt í veröldinni í gær (02.05.2011) Osama Bin Laden veginn í austurvegi   og ísbjörn lagður að velli vestur í Víkum á Íslandi.

 Það var fróðlegt  að  fylgjast með alþjóðlegu  fréttstöðvunum í gær. Mest horfði Molaskrifari  á BBC  One, Al Jazeera og  CNN  svona til skiptis. Endaði með því að  horfa  mest  á BBC One og  dást að aðalþul þeirra  Tim Willcox, sem var klukkustundum saman á skjánum.  Íslensku ljósvakamiðlarnir gerðu málum þokkalega góð  skil. Ríkisútvarpið þó einna síst   af því sem   Molaskrifari heyrði. Hafði að  vísu ekki hlustað grannt yfir  daginn. Stöð  tvö stóð sig  vel, en  Ríkissjónvarpið sýnu best. Fréttaskrýring  Jóns Orms  Halldórssonar  prófessors í  Kastljósi var besta greiningin á  stöðunni, sem  Molaskrifari heyrði. Kastljós hefði    að skaðlausu mátt fjalla meira um  málið  en þar er  auðvitað byrjað  að blóðmjólka  Evróvisjón, sem kannski er   að vonum því   þetta er   dýrt  fyrirbæri og þarf að víst að nýta vel. Molaskrifari lofar að nöldra ekki mikið um Evróvisjón.  Veit að margir  horfa á þetta og hann hefur á nóg annað að horfa. Í Íslandi í dag á  Stöð tvö var  fjallað um staðgöngumæðrun.

 Umfjöllun  um   Bin Laden  í  tíufréttum  Ríkissjónvarps  bætti litlu  við það sem áður  hefði verið  sagt.   

Við blasir  eftir þessa velheppnuðu aðgerð, að  ótrúlega mörgum spurningum   er ósvarað. Hversvegna  tók þetta  tíu ár? Hve lengi   vissu Pakistanar að Osama  Bin Laden   var   í  þúsund metra  farlægð frá  helsta   foringjaskóla pakistanska  hersins, snertispöl frá höfuðborginni, Islamabad? Hvernig   gátu     bandarískar  herþyrlur flogið óséðar óravegu  yfir pakistanskt land?  Bin Laden  hlaut að hafa haft net  stuðningsmanna í  Pakistan. Hverjir voru það og  verndar hverra nutu þeir?  Voru bara  fjórar eða fimm manneskjur inni í þessu  virki ? Þetta eru bara  fáar  spurningar. Það verður fróðlegt að  fylgjast með er þessi mál skýrast nánar.  Obama forseti var í senn virðulegur og  fastur  fyrir þegar hann færði þjóð sinni og umheiminum  tíðindin.

  Í fréttum  Stöðvar tvö (02.05.2011)  var  talað um ísbirni,sem hefðu gengið hingað á land.  Eðlilegra hefði verið að tala um ísbirni,sem hér hefðu gengið á land.  Í  sama fréttatíma  Stöðvar tvö  sögðu bæði  fréttaþulur  og fréttamaður að Íslendingum hefði verið beitt ólöglegum  aðgerðum.   Hér  hefði  átt að tala um að Íslendingar  hefðu verið beittir ólögmætum aðgerðum.   Þá má bæta því þriðja við  talað var  um fjáröflun ungra  hjúkrunarfræðinga   til  Kenyaferðar  til að sinna sjúkum. Þar var   talað um fjáröflun ferðarinnar.  Eðlilegra  mál og  betra   hefði verið að tala um öflun  fjár til ferðarinnar  eða   fjáröflun  til  ferðarinnar.  

  Sum erlend  heiti  hafa   unnið sér hefð í íslensku , með   sérstökum  íslenskum  framburði. Þannig  er um   skáldsöguna eftir  Lew Wallace  og  kvikmyndina  Ben Húr með Charlton Heston í aðalhlutverki, sem  William Wyler  stjórnaði. Það er   fast í málinu að   tala um  Ben Húr, ekki  Ben HÖR   eins og  gert var í fréttum  Stöðvar   tvö. Við getum talað um  Se og   Hör, ekki Ben Hör.

Stundum komast ákveðin orðatiltæki í tísku hjá þingmönnum. Nú tala þeir hver á fætur öðrum um að  að standa í lappirnar. Það hefði kannski mátt nefna það fyrr !

Úr  mbl.is  (28.04.2011) Fram kemur á vef Gæslunnar að enginn hafís hafi greinst austur af miðlínu milli Grænlands og Íslands. Enginn hafís hafi sést.  Hafís greinist ekki.

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þetta sem þú bendir á er ekki stafsetningarvilla , heldur innsláttarvilla. Fréttaskríring , hefði verið stafsetningarvilla. Óvandaður yfirlestur. Rétt. Þetta með bilin skrifast á reikning þess að ég gekk í MR en ekki Vélritunarskólann.

  2. Gylfi skrifar:

    Það er stafsetningarvilla hjá þér: „Fréttaskrýring“. Svo er ólag á bilunum, oft mörg í röð, einu sinni á undan spurningamerki og einu sinni vantar bil eftir kommu. Þú verður að passa þetta, Eiður.

    Og þetta með að hafís greinist ekki; þar er ég algjörlega ósammála þér. Mér finnst þessi orðanotkun til fyrirmyndar.

  3. Hjalti skrifar:

    Sést ísinn ekki í radar – ja, ekki nema óbeint.

    Svo má nefna orðabókarskýringu á orðinu:
    sjá, heyra, skynja (naumlega): [t.d.] héðan má greina húsin í björtu veðri.

    Hvernig mætti nota orðið ef ekki svona?

  4. Eiður skrifar:

    Ekki samkvæmt beygingu orðsins þulur á vef Árnastofnunar. Hugsaði mig að vísu um. Lét málkennd ráða.

  5. Eiður skrifar:

    Sést hann ekki í radar?

  6. Hjalti skrifar:

    Hafís getur reyndar greinst með radar án þess að sjást.

  7. Gunnar Jónsson skrifar:

    Dáðistu ekki að aðalþuli BBC? Held að menn þurfi saman að standa vörð um þágufalls i svo það fari ekki sömu leið og ísbirnir sem hætta sér til Íslands, sem maður skyldi Þó ætla af nafninu að tæki þeim opnum örmum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>