«

»

Molar um málfar og miðla 599

 

Það er ekki hátt risið á  forsíðu DV  (06.05.2011) Hvað   kemur  fólki það við  hvort dóttir Gunnars  í Krossinum  var hrein mey eða  ekki, þegar hún gekk í hjónaband?  Molaskrifari var að vona,  að  DV   væri vaxið upp úr svona   Séð og heyrt  rugli.

Rétt er það sem  Morgunblaðið segir í leiðara (06.05.2011), að Landsdómsaðferðin  sé  úrelt. Það er ekki bara  að aðferðin sé úrelt,  heldur  er málsmeðferðin og niðurstaðan þeim alþingismönnum,sem að henni stóðu til skammar. Allt er þetta mál svartur  blettur  í dómsmálasögu landsins. Þetta hefur raunar verið sagt hér áður.

Jón Bjarnason landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra er enginn kjáni. Þessvegna á hann ekki að láta eins og kjáni, þegar hann talar við fréttamenn.

Í þróttafréttum  Ríkissjónvarpsins (06.05.2011) var löng frétt um þjálfaradeilu  hjá  handknattleiksdeild Fram. Molaskrifari spyr:  Er þetta eitthvað ,sem öll þjóðin verður að fá að vita?   Málið er svo mikilvægt í Efstaleiti, að  íþróttadeild   Ríkisjónvarpsins stendur á öndinni.  Rangt fréttamat.

Svavar Halldórsson fréttamaður Ríkissjónvarps á heiður skilinn fyrir  að upplýsa okkur  um  svikamyllu og svindl  stjórnenda Kaupþings  og  Glitnis, sem er hreint  með ólíkindum  að heyra  um (06.05.2011).

Það er of algengt að fréttamenn  noti þolmynd að óþörfu. Germynd er betri. Í morgunfréttum Ríkisútvarps (05.05.2011) var sagt: Sex drukknir  bílstjórar voru stöðvaðir af lögreglu …  Betra hefði verið: Lögreglan stöðvaði sex drukkna bílstjóra ….

Úr mbl.is  (05.05.2011): Opnuðu kjörstaðir klukkan sex að breskum tíma, fimm að íslenskum, og loka þeir klukkan níu að staðartíma í kvöld, átta á Íslandi. Hvað opnuðu kjörstaðir og hverju lokuðu kjörstaðir. Það er óljóst hjá mbl. is.  Þetta var einnig  rangt orðað í fyrirsögn en rétt orðað á öðrum  stað í  fréttinni þar sem  sagt var réttilega, að kjörstaðir hefðu verið opnaðir.

Úr mbl.is (05.05.2011): Kjaraviðræður hófust á ný í morgun og eru fundarmenn enn að týnast inn í hús ríkissáttasemjara. Vonandi eru blessaðir mennirnir  fundnir. –   Þeir fundust sem betur  fer og  samningar tókust.  Meira úr mbl.is (06.05.2011):  ….að kjarnorkuveri suðvestur af Tókýó skildi lokað þar sem það er staðsett nærri flekaskilum... Það  vefst fyrir þeim ypsilonið eða ufsílónið  hjá mbl.is

Í pistli  í Kastljósi (06.05.2011) talaði sagnfræðingur um  geyma ,,Olíufélagsins”   á Klöpp við  Skúlagötu. Geymana átti Olíuverslun Íslands. Þess er  Molaskrifari næsta viss. Á þá  voru málaðir gluggar á stríðsárunum  svo þeir líktust húsum.  Í sagnfræðinni skipta smáatriðin líka máli.

Í fréttum Stöðvar tvö (07.05.2011) sagði fréttamaður: …. sem  sigraði Íslandsmeistaramótið í vaxtarrækt. Menn sigra ekki mót. Menn geta  sigrað á móti.  Raunar finnst Molaskrifara rangt að  tala um vaxtarrækt. Það ætti að tala um afskræmingu mannslíkamans. En Molaskrifari er  náttúrulega  sérvitringur og  nöldrari.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>