«

»

Molar um málfar og miðla 600

Alltaf er verið að  rugla saman  orðtökum, sem eru föst í málinu en  eiga að haldast óbreytt. Í þætti á ÍNN (06.05.2011) sagði stjórnandi: Öryggislögreglan gengur lausum hala…  Hann hefði átt að  segja: Öryggislögreglan leikur lausum  hala, — starfar óbeisluð. Sakamenn sem ekki hafa verið handsamaðir ganga hinsvegar lausir. Og geta reyndar einnig leikið lausum hala og haldið áfram að brjóta af sér.   Sami stjórnandi,sem mun vera stjórnmálafræðingur,  talaði um Kanada og Nýfundnaland,sem tvö  sjálfstæð ríki.  Hann þarf að lesa fræðin betur. Nýfundnaland  var sjálfstætt ríki en varð gjaldþrota, afsalaði sér eiginlega sjálfstæði sínu  og varð hluti  af Kanada um miðja síðustu öld.

Bæði umsjónarmanni  og  viðmælanda í  sunnudagsþætti Sirrýar á Rás tvö , á mæðradaginn (08.05.2011)  varð á í beygingu orðsins móðir. Þolfallið er  móður. Allir eiga  móður,  ekki móðir.  Líklega er þessi þolfallsmsynd á nokkuð hröðu undanhaldi. Óþarft er að Ríkisútvarpið hafi forystu í þeim efnum.

Mbl.is (07.05.2011) „Þeir voru búnir að sjá hafnarljósin og töldu að það væru 20 mínútur þar til þeir gætu farið að hífa gáma í land. Svo kom dynkur á skipið  og meira vissu þeir ekki,“  Molaskrifara fannst þetta  svolítið einkennilegt orðalag.  En orðið  dynkur getur reyndar þýtt þungur skellur. Þannig að þetta er óaðfinnanleg orðanotkun.  Í annarri frétt í mbl.is þennan sama  dag er þó um að ræða  orðalag,sem orkar tvímælis: Bátur með mörg hundruð afríska flóttamenn sigldi í höfn á ítölsku eyjunni Lampedusa. Meira en 650 flóttamenn höfðu troðist um borð í bátinn, þeirra á meðal fjöldi kvenna og barna.  Samkvæmt  íslenskri málvenju er  bátur lítið skip  eða kæna.. Um það þarf ekki að deila. Skortur á máltilfinningu. Meira úr mbl.is: Bílstjóri og þrír farþegar voru send á slysadeild Landspítalans eftir að bíll þeirra ók út af Þingvallavegi…Þetta er  heldur klaufalegt  orðalag, en rétt er  geta þess að í  meginmáli fréttarinnar var þetta betur orðað.

Hafa hlustendur  Ríkisútvarpsins gert  sér  grein fyrir því, að  stofnunin er búin að skipta um nafn,- leggja niður heitið  Ríkisútvarp og heitir nú  bara Rúv?  Fréttastofa  Ríkisútvarpsins er ekki lengur til. Nú er það Fréttastofa Rúv.  Sumir muna  nokkuð langt aftur og ekki  man Molaskrifari betur en þessi skammstöfun hafi verið búin til,  til að nota fyrst og fremst í  erlendum samskiptum.  Látum það vera  þótt þetta sé  notað öðru hverju í fréttum eða  dagskrárkynningum,  en að skipta  algjörlega um nafn og  kasta  hinu góða heitið Ríkisútvarpið fyrir  róða er ótækt.   

  Og nú erum við að fara að heyra kannski sjálft sigurlagið, sagði  poppstjarnan við okkur á  skjá  Ríkissjónvarpsins (07.05.2011).  Þá  hætti Molaskrifari að horfa.  Heyrði  reyndar að sama  stjarna talaði um European Broadcast Union.  Það heiti er rangt. Samband  evrópskra útvarpssstöðva heitir  á ensku: European Broadcasting Union. Rétt er að halda því til haga.  Dagskráin  á  laugardagskvöldið var   dæmigerð ruslakista eins og  okkur nauðungaráskrifendum er yfirleitt boðið að skoða í  hvert einasta laugardagskvöld. Hver ameríska útsölumyndin á fætur annarri. Hvert meistaraverkið á fætur öðru.

Nú er ljóst, að á Bessastöðum situr forseti, sem  umboðsmaður Alþingis  fullyrðir að hafi brotið stjórnsýslulög við ráðningu umsjónarmanns á Bessastaði.

Forseti sem sagði þjóðinni ósatt um  einstæða framgöngu sína í hádegisverðaboði með erlendumsendiherrum  í danska sendiráðinu í Reykjavík nokkru eftir  hrun.

Forseti sem  rauf  samkomulag,sem  ríkt  hefur frá stofnun íslenska lýðveldisins um að  forseti   notfæri sér ekki rétt til að  ganga gegn vilja meirihluta rétt kjörins  Alþingis og neiti að undirrita samþykkt lög.

Forseti sem borið hefur á borð  fyrir þjóðina bullkenningu um að helmingur  löggjafarvaldsins sé hjá þjóðinni, þrátt fyrir að þjóðin hafi kosið 63 þingmenn til að fara með löggjafarvaldið.

Í fréttum Stöðvar tvö (08.05.2011)  um samskipti  forsætisráðuneytis og  forseta Íslands kristallaðist hroki Bessastaðavaldsins. Forseti er greinilega  staðráðinn í  að hafa tilmæli rannsóknarnefndar Alþingis að  engu. Hrokinn,  sem í fréttum kvöldsins beindist  að forminu til að  forsætisráðuneytinu,  beinist í raun að íslensku þjóðinni.  

Þó við séum gallagripir ,Íslendingar, á ýmsan veg þá eigum við þetta ekki skilið.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur Sigurðsson skrifar:

    „ Samkvæmt íslenskri málvenju er bátur lítið skip eða kæna.. Um það þarf ekki að deila“
    Jamm. Hversu stór er kafbátur? Eru ekki til slíkir sem teljast þúsundir tonna? Og þessi fleyta sem Moggamenn tala um virðist, sé að marka myndir sem fréttinni fylgja, ekki stærri en venjulegur vertíðarbátur á Íslandi og jafnvel linlega það. Engum dettur í hug að ráða sig á netaskip í Grindavík. Eru þó sumir netabátarnir bara vænir. Og loðnubátar?
    Sem sagt; hversu lítið er lítið?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>