«

»

Molar um málfar og miðla 601

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (09.05.2011)  var sagt  frá eldsvoða í fyrirtæki þar sem  verkuð eru sæbjúgu. Tvívegis  sagði  ágætur fréttaþulur, –  sæbjúganna ( ef. flt.). Rétt hefði verið að  segja: … sæbjúgnanna.

Úr mbl.is  (08.05.2011): „Hann er aðeins tvítugur en hefur fyllt mjög mikilvægt hlutverk fyrir okkur á þessari leiktíð….”  er haft eftir handknattleiksþjálfara. Ekki  er venja að tala um að fylla hlutverk, heldur gegna hlutverki.

Merkel  fékk að  fæða  mörgæsir  , sagði fréttamaður Ríkissjónvarps (08.05.2011). Má vera  að þetta sé ekki beinlínis rangt. Merkel var að  gefa mörgæsum. Molaskrifari hefði notað annað orðalag. Í sama fréttatíma sagði annar fréttamaður: Enn virðist ekkert  lát á för iðnaðarmanna erlendis.  Átt var við að enn væri  talsvert um að  íslenskir iðnaðarmenn færu  til  starfa  erlendis. Ekki verður með sanni sagt, að þetta hafi verið lipurlega orðað.

 Í sexfréttum Ríkisútvarpsins    var sagt að yfirvöld í Pakistan hefðu eiginkonu Bin Ladens  enn í haldi sínu. Hér er orðinu  sínu ofaukið.  Nægt hefði  að  segja, að yfirvöld hefðu konuna í haldi, – í varðhaldi, gæslu  eða fangelsi. Hald  hefur   fleiri merkingar ,sem kunnugt er. Getur  líka þýtt brók, eða nærbuxur. Að hafa hitann í haldinu þýðir að vera hræddur eða órólegur vegna einhvers, eða fá aðhald  frá einhverjum. Sjá  annars: Mergur málsins eftir dr. Jón G. Friðjónsson, bls. 344.  Í útvarpsfréttunum var líka  fjallað um góða veðrið í Reykjavík og víðar. Sagt var, að  sundlaugarnar  hefðu verið þéttskipaðar fólki, sem  nutu sólarinnar. Þetta er rangt. Fólk naut  sólarinnar, en karlar og konur nutu sólarinnar. – Les enginn  handritin yfir áður en þessu er dembt  yfir okkur?

Bjarni Sigtryggsson   sendi eftirfarandi: ,,Hér er enn glöggt dæmi um áhrif leikskólamáls á skrifaðar fréttir fjölmiðla: Vísir 08. maí. 2011 07:00

David Beckham klessti aftan á bíl á hraðbraut í LA” . Mikið rétt, Bjarni. Hvað ungur nemur, sér gamall temur.

 

Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins (09.05.2011) töluðu bæði kynnir og  fréttamaður hvað eftir  annað um limbó, eitthvað  væri í limbói, í þeirri  merkingu að óvissa  væri um eitthvað. Fréttamenn eiga að nota orð,sem allir skilja. Margir skilja örugglega þessa slettu, en ekki allir.  

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta, Þorkell. Þessi göng munu án efa rísa hátt !

  2. Þorkell Guðbrands skrifar:

    „Allmargar jarðir eiga land þar sem fyrirhugað er að Vaðlaheiðargöngin rísi en göngin þau munu stytta hringveginn um 16 kílometra.“

    Tekið af „Eyjunni“.

  3. Eiður skrifar:

    Sammála þér, Benedikt. Þetta orðasamband hef ég aldrei heyrt í annarri merkingu en að vera kvíðinn eða áhyggjufullur. Það staðfestist og í þeim handbókum, sem mér eru tiltækar.

  4. Benedikt skrifar:

    Í tveimur nýlegum pistlum á vísi.is hef ég rekist á orðasambandið „að vera með böggum hildar“, sem ég hef alltaf haldið að merkti að hafa áhyggjur, eða vera kvíðinn. Í dag er til dæmis þessi frétt á Vísi:

    „Norðmenn eru með böggum hildar eftir að framlag þeirra í Eurovision þetta árið kolféll í keppninni í gær. Laginu „Haba Haba“ hafði verið spáð góðu gengi og voru frændur okkar vissir um að fara létt í úrslitin. Annað kom á daginn og þegar Ísland kom síðast upp úr hattinum í gærkvöldi var Alexander Rybak, sigurvegari Norðmanna hér um árið, þrumu lostinn.“

    Er ég að bulla, eða hafa Vísimenn eitthvað til síns máls? Ég á við, Norðmenn eru varla áhyggjufullir yfir því að lagið þeirra hafi ekki komist áfram, eða hvað? Ég gæti alveg trúað að þeir væru svekktir eða sárir, en varla með böggum hildar?

  5. Eiður skrifar:

    Einhverra hluta vegna tókst mér ekki að fá tölvuna til að breyta leturstærð á síðustu tveimur málsgreinunum. Líkleg skýring er klaufaskapur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>