«

»

Molar um málfar og miðla 602

Réttilega var talað um stjórnarráðshúsið í  hádegisfréttum Ríkisútvarpsins  (10.05.2011). Hrós  fyrir það. Of algengt hefur  verið, að þetta  hús hafi verið kallað  stjórnarráðið,  en   stjórnarráðið er samheiti á öllum ráðuneytum.

Rétt er að gæta samræmis þegar mælieiningar eru  annarsvegar.  Við notum metrakerfið hér á landi. Þessvegna á ekki að tala um mílur og metra  í sömu frétt  eins og  gert var í fréttum Ríkisútvarpsins (10.05.2011)

Úr mbl.is (10.05.2011): Turninn var opnaður í janúar 2010 og þykir mikið þrekvirki.  Er hægt að segja að mannvirki sé þrekvirki? Varla.

Það á að vera hægt að stilla klukkuna sína eftir  byrjun sjónvarpsfrétta. Þannig   er það hjá alvörustöðvum.  Það  virðist hendingum háð hvenær  seinni fréttir Ríkissjónvarpsins hefjast.  Á þriðjudagskvöld  (10.05.2011)  hófust þær  næstum fjórum mínútum seinna en auglýst var. Engin skýring,  engin afsökun.

Gaman var að sjá flinkan kokk á Hótel Borg matreiða þorsk í lofttæmdum plastumbúðum og búa til flókinn eftirrétt úr rabarbara á ÍNN (09.05.2011). Hnakkastykki  úr þorski  er einhver besti matfiskur,sem völ er á. Rabarbari  er vanmetið hráefni. Færeyskir kokkar hafa lengi notað  rabarbara í allskyns eftirrétti með frábærum árangri. Vonandi feta nú  starfsbræður þeirra hér á landi þann sama  veg. 

Molaskrifari sá bróðurpartinn af viðtali Ingva Hrafns við Höskuld H. Ólafsson bankastjóra  Arion banka á  Hrafnaþingi á ÍNN (10.05.2011). Samtalið var yfirvegað og upplýsandi. Skemmtileg andstæða  við ruglið og svartagallsrausið, sem  of  oft  einkennir þætti  Ingva Hrafns.

Stundum   hvarflar það að manni, að  menningarstefna  Ríkissjónvarpsins á Íslandi felist einkum  í því að innræta  ungu fólki, að  það sem  mestu máli skipti  séu boltaíþróttir af öllu tagi og  Evróvisjón, þar sem flest  lögin eru afar einföld  laglína og   flest keimlíkur sönglandi. Sérstök tegund af lyftutónlist. Íslensku strákarnir voru meðal þess skásta á  þriðjudagskvöldið og  verðskulduðu að komast áfram. En strax  á eftir Evróvisjón kom fótboltaþáttur. Þeir bregðast ekki í Efstaleitinu.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Kári Waage skrifar:

    Af dv.is í dag. Kannski tengist þessi frétt annarri um ökumannslausa bíla.

    Keyrt var á konu sem var á leið út úr Lyfjaveri á Suðurlandsbraut 22 í gær. Þegar konan gekk út á götuna kom bíll akandi og konan lenti fyrir bílnum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>