«

»

Molar um málfar og miðla 673

Úr dv.is (28.07.2011): Danska drottningarsnekkjan er nú við höfn í Reykjavík og veltu vegfarendur fyrir sér hvort hér væri mætt Margrét Þórhildur Danadrottning …  Skip eða snekkja Danadrottningar er ekki við höfn í Reykjavík, eins og dv.is segir. Skipið liggur við bryggju í Reykjavík. Það er í höfn í Reykjavík.

Ekki verður annað sagt en að það hafi verið undarlegt fréttamat hjá Fréttastofu ríkisins í Efstaleiti að hafa  tölfræðifrétt um sakamál  fyrstu frétt í  morgunfréttum klukkan  níu (29.07.2011). Sama frétt  var fyrst í tíufréttum Ríkissjónvarps kvöldið áður.

Umsjónarmönnum  morgunútvarps Rásar tvö varð tíðrætt um ell ei í upphafi morgunþáttar (29.07.2011). Þeir áttu við borgina Los Angeles á vesturströnd Bandaríkjanna. Það á að tala við okkur á íslensku í íslensku útvarpi. Umtalið um borgina var inngangur að slúður- og amböguskammtinum sem jafnan er hellt yfir hlustendur Rásar tvö á föstudagsmorgnum.

  Úr mbl.is (28.07.2011): Sharidyn Svebakk, sem var aðeins 14 ára var talin hafa verið ein af yngstu fórnarlömbum … eitt af yngstu  fórnarlömbunum hefði átt að standa hér.

Meira úr mbl.is sama dag: … og leiki oft íþróttir við fanga ...   Leiki íþróttir? Líklega er þarna sumarliði á ferð.

Í fréttum Ríkissjónvarps (28.07.2011) komst þulur þannig að orði, að vatnsmagn í Skaftá hefði hækkað. Vatnsmagn hækkar ekki, það eykst eða minnkar. Vatnsborð getur hinsvegar hækkað eða lækkað. Fleiri hnutu um þetta því  Magnús sendi Molaskrifara eftirfarandi: ,, Ég varð alveg klumsa þegar ég hlustaði á fréttir sjónvarps í gær. Þulan talaði um að óljóst væri hvort hlaup væri að hefjast í Skaftá eða ekki. Þá mæltist henni svo: „Vatnsmagn árinnar hefur hins vegar enn ekki hækkað.“
Það fer illa með mína málkennd að tala um að vatnsmagn hækki eða lækki. Ég vil tala um að vatnsborð hækki eða lækki en að vatnsmagn aukist eða minnki”.  

 Í sama fréttatíma var sagt: .. þannig verði öllum reglum matvælaöryggi mætt.  Reglum er ekki mætt.   Talað er um að fylgja reglum, fara eftir reglum, uppfylla kröfur eða koma til móts við kröfur.

Vegna ummæla  hér í Molum um málfar og miðla (671) sendir  Margrét Erla Maack hjá Ríkisútvarpinu  eftirfarandi leiðréttingu: ,,Egill sendi Molum eftirfarandi (26.07.2011):  ,,Aftur og aftur spurði síðdegiskonan hjá Ríkisútvarpi Rásar 2: „Kvíðir þig?“, þegar hún ræddi við vegfarendur um álagningarseðlana.” Egill segir:  Uss!  Það gerir Molaskrifari líka.

Á aðeins tveimur stöðum í umfjölluninni er spurt hvort fólk kvíði – í hin skiptin er spurt „ertu kvíðin/n“ Ég hvet þig til að hlusta á þetta – og ég sendi það hér með til glöggvunar.
http://dagskra.ruv.is/ras2/4557875/2011/07/26/1/
Fyrst er rætt við mægður og sú yngri er spurð  „…kvíðirðu því kannski…?“ Hér rennur kvíðirðu og því saman, ég viðurkenni það.
Síðar er rætt við tvo einstaklinga, ung hjón– og því er spurt  „kvíðið þið…“
Á öðrum stöðum er orðaröð önnur.

Mér þætti vænt um að þetta verði leiðrétt.
Margrét Erla Maack” – Þessu er hér með komið á framfæri.

Oftar en ekki er Molaskrifara sammála  sjónarmiðum sem fram koma í Pistlum Kolbrúnar Bergþórsdóttur blaðamanns á Morgunblaðinu. Ekki  þó  því sem  Kolbrún skrifar   í fimmtudagsmogga (28.07.2011). Þar tekur hún til varna fyrir Hannes Hólmstein Gissurarson og víkur að grein sem Karl Th Birgisson ritstjóri Eyjunnar skrifaði þar sem vikið var harkalega að Hannesi Hólmsteini.  Kolbrún skautar léttilega framhjá tilefninu að grein Karls Th. Það voru einstaklega rætin og svívirðileg skrif á  vefnum  amx.is  um Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. Amx- vefurinn er afkvæmi og  málgagn öfgahóps í Sjálfstæðisflokknum. Margir telja sig sjá fingraför Hannesar  Hólmsteins á amx.is vefnum. Hannes hefur   aldrei svarið af sér  tengsl  við   þennan vef  öfgaklíkunnar í Sjálfstæðisflokknum. Það er fyrir neðan  virðingu Kolbrúnar Bergþórsdóttur að verja Hannes Hólmstein Gissurarson með þessum hætti.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þakka sendinguna, Þorgeir. Skemmtileg grein svo sem vænta mátti.

  2. Þorgeir Tryggvason skrifar:

    Þetta með kynið á fórnarlambinu er nú umdeilt, sbr. þessa skemmtilegu grein (og frábæru vísu):

    http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=243287

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>