«

»

Molar um málfar og miðla 674

Molavin sendi eftirfarandi: ,,Netmoggi segir í dag, sunnudag, svo frá: „Fimm drukknuðu og fimm er saknað eftir að skemmtibátur sökk í ánni Moskvu í Rússlandi ígærkvöldi. Sjö var bjargað úr vatninu.
Moskva rennur gegnum höfuðborg Rússlands.“ Þetta er eins í fyrirsögn
fréttarinnar.
Hér hefur einhver sumarliðinn þýtt ranglega úr ensku. Moskvuá rennur
nefnilega gegn um Moskvu, höfuðborg Rússlands.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

Meira frá sama: Þeir læra seint á DV: „Þeir farþegar sem DV hefur upplýsingar um höfðu ekki borist neinar upplýsingar rétt fyrir 19 frá Iceland Express…“ segir í dag. Seinkanir, bilanir og upplýsingaskortur af hálfu
miðasölufyrirtækisins Iceland Express eru hætt að vera fréttaefni – og
sömuleiðis kæruleysi í skrifum hjá fréttamönnum DV.  Molaskrifari  víkur nánar að þessum skrifum dv.is í næstu Molum. Þetta var með endemum.

Þakka Ríkissjónvarpinu fyrir að sýna okkur frá minningartónleikunum í Osló (31.07.2011) og síðan frábæran Mahler frá Madrid. Fyrir ,,innipúka” á  rigningardegi var svo ekki dónalegt að hitta  á ITV 1 sem  sýndi Morse lögregluforingja  og Barnaby beint í kjölfarið.

Í tíufréttum Ríkisútvarps (29.07.2011) var meðal annars sagt: Verslunarmannahelginni er fagnað um allt land, þrátt fyrir blauta veðurspá !

Enn er töluverð umferð á Vesturlandsvegi eða bíll við bíl !  Sameinuðu þjóðirnar tilkynntu í dag að safna þyrfti að andvirði 286 milljörðum króna…Svo er  dálítið undarlegt að fréttamenn  skuli ýmist tala um Landeyjahöfn eða Landeyjarhöfn. Hið fyrrnefnda er auðvitað rétt. Það ættu allir  að vita sem einhvern snefil hafa af kunnáttu í landafræði Íslands. Svo allrar sanngirni sé gætt þá var búið að snyrta þetta orðalag heilmikið til í næsta fréttatíma, fréttum á miðnætti.

Stundum skolast það til hver  mælt hafi eða skrifað fleyg orð. Þannig var í ágætum, endurteknum, útvarpsþætti á Rás eitt að morgni dags (30.07.2011)  ,,Úr vesturvegi , um Black Hills og Deadwood.” Þar voru orðin Go west young man,  –  Farðu vestur, ungi maður,  eignuð Custer hershöfðingja. Þessi fleygu orð eru hinsvegar ættuð frá  Horace Greeley (1811-1872) ritstjóra New York Tribune, – og hann bætti við: Go  west young man and   grow up  with the country, Farðu vestur  ungi maður þar sem þú skalt fullorðnast með landinu  Einhverjir börnuðu söguna og sögðu að sjálfur hefði Horace Greeley haldið kyrru fyrir á austurströndinni og  græðst fé. Stytta af Horace  Greeley er í samnefndnum garði þar sem mætast Broadway, sjötta breiðstræti og  33. stræti, örskammt frá þar sem einu sinni var (og er kannski enn) Collingwood hótelið þar sem  áhafnir Loftleiða gistu fyrir hálfri öld,eða svo. Nánari fróðleik um tilvitnunina er að finna á: http://www.llrx.com/features/quotedetective.htm

Stundum er Ríkissjónvarpið svolítið fyndið, – oftast er það nú óviljandi. Í seinni fréttum (28.07.2011) var talað um slátrun á lambakjöti! Svo fengum við að heyra að menn hefðu ekki aðeins gert út um leikinn, heldur gert algerlega út um leikinn.

 

Visir.is (28.07.2011): … eftir að breskur ferðamaður grunaði að hún væri Madeleine McCann …   Breskur ferðamaður grunaði ekki. Breskan  ferðamann grunaði ekki …

Stundum heyrum við íþróttafréttamenn segja að einhver hafi sigrað keppni. Í hádegisfréttum (28.07.2011) sagði íþróttafréttamaður Ríkisútvarps: Finnland vann mótið. Líklega hefur mótið verið harður andstæðingur. Hvorki vinna lönd mót né sigra keppni. Málfarsráðunautur ætti að ræða við suma íþróttafréttamenn Ríkisútvarpsins. Kannski er borin von að slík samtöl beri árangur.

Egill sendi Molum eftirfarandi (29.07.2011): ,,Í veðurfréttum Stöðvar 2 í dag, föstudag, sagði konan: „Gott að hafa regnheldan jakka við höndina ef það fer að skúra!“ Ég hef oft skúrað, án þess að fara í regngalla!
Sömuleiðis talaði önnur veðurfréttakona um daginn, um rigningaskúra, á sömu stöð.” Molaskrifari bætir því við að sögnin að skúra  er í íslenskri orðabók:  það/hann skúrar,  það/hann rignir (mikið) í skúrum. Svo er því  við að bæta að  samkvæmt  sömu orðabók getur  skúr í merkingunni  stutt regndemba verið ýmist karlkyns- eða kvenkynsorð.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur Sigurðsson skrifar:

    „Finnland vann mótið. Líklega hefur mótið verið harður andstæðingur.“
    Hefði mótið verið mýkri andstæðingur ef t.d. Finnar hefðu unnið það?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>