«

»

Molar um málfar og miðla 683

Fáránleg  fyrirsögn  í DV (08.08.2011) : Stofna flokk ef  þingið hlýðir ekki.  Undir fyrirsögninni er vitnað í ummæli  prófessors  Þorvaldar Gylfasonar. Hann notaði hvergi þetta orðlag. Alþingi er ekki þjónn neins. Stjórnlagaráð getur ekki sagt Alþingi fyrir  verkum. Vald þingsins, þingviljinn, er skoðun  meirihluta þingmanna hverju sinni. Óánægðir stjórnlagaráðsmenn geta  stofnað eins marga stjórnmálaflokka og þeir vilja. Alþingi eitt getur breytt stjórnarskránni.

Fréttaflutningur  Fréttastofu Ríkisútvarpsins af glannaskapnum  við Blautulón  hefur verið til fyrirmyndar. Það var hinsvegar ekki eins gott þegar frétt um eldsvoða í vesturbænum í Reykjavík  var skotið inn í kvöldfréttir (09.08.2011) og nánast ekkert var vitað um málið. Það voru ekki góð vinnubrögð.

Frímann benti á í athugasemd að í fréttum Ríkissjónvarps hefði verið talað um  friðsæl mótmæli. Molaskrifari  tekur undir að það er einkennilegt orðalag. Stundum er sagt að mótmæli  hafi verið friðsamleg, eða farið friðsamlega fram, en það er ekki það sama og að mótmæli hafi verið friðsæl.  Frímann nefndi einnig að í Ríkissjónvarpi hefði fréttamaður  talað um kræklóttan veg. Molaskrifari hnaut reyndar einnig um þetta orðalag, sem hann aldrei hafði heyrt. Íslensk orðabók segir  reyndar að kræklóttur geti þýtt hlykkjóttur, en það var einmitt það sem verið var að segja okkur. Molaskrifari mundi frekar tala um krókóttan eða hlykkjóttan veg , ekki kræklóttan.

Áður hefur í Molum verið minnst á  auglýsingu  gullsmiðs sem segir fólki frá því að hann  kaupi gull. Í heilsíðuauglýsingu frá þessum gullkaupmanni í DV (08.08.2011) segir:  Ég …. gullsmíðameistari  er að kaupa  gull, gullpeninga ….  Enn eitt dæmið um hinn svo kallaða er að faraldur  sem nú herjar á íslenskt  mál. Einfaldara og fallegra  hefði verið að  segja Ég …. kaupi  gull ….

Egill sendi Molum eftirfarandi: Í spurningu stjórnanda Síðdegisútvarps Rásar 2, um fjármálakerfið: „Og bara hjúkk að vera ekki að standa í þessu núna“ Og annar stjórnandi sama þáttar: „Á hvaða kaliberi er þetta núna?“ Hinn aftur: „Minnir á ýmsar aðgerðir frá árunum 2008.“ Svo mörg voru þau orð, ég á a.m.k. ekki orð. Ekki einn um það, Egill.

Þá koma  hér ábendingar frá  vini  Molanna, Molavin. Hann segir: ,,Það er jafn mikill ábyrgðarhluti blaðamanna að fara rétt með tölur eins og rétt með mál. Á mbl.is má nú (08.08.2011) lesa frétt um misheppnað uppboð á

meintri vafasamri mynd af Marylin Monroe og þar segir: „Uppboðið átti

að fara fram í Buenos Aires í Argentínu. Seljandinn var Mikel Barsa og

hann setti upp 2 milljónir pesóa, jafnvirði 55,5 milljarða króna.“

Bandaríkjadollar kostar um fjóra argentíska pesóa. Uppsett verð hefur

því verið um hálf milljón dollara eða liðlega 55 milljónir króna.

Þarna hefur Moggamaðurinn þúsundfaldað upphæðina, en prófarkalestur

virðist horfinn af dagblöðum.

Á sama fréttavef segir svo í frétt um flugslys í Rússlandi: „Flugmenn

brugðu á það ráð að reyna neyðarlendingu með fyrrgreindum

afleiðingum.“ Fréttin er að öllu leyti vel og óaðfinnanlega skrifuð,

en þegar þarf að lenda flugvél í neyð, hefur venjulega verið notað

orðið „nauðlending.“  Molaskrifari þakkar sendinguna.

Í fréttum Stöðvar tvö  (08.08.2011) talaði fréttamaður ítrekað um  skýrslu rannsónarnefndar Alþingis.  Þetta var eiginlega  einskonar prentvilla í  töluðu máli. Káið týndist.

Egill sendi eftirfarandi (09.08.2011): Andri Freyr Viðarsson í virkum morgnum á Rás 2 sagði í tvígang í morgun: Það er verið að mjólka kúnna. Hann átti að sjálfsögðu við kúna, en í hans framsögn var kýrin orðin að viðskiptavinum. Þurfa þáttastjórnendur hvorki að hugsa né vanda sig?   Molaskrifari bætir við: Það er því miður ótrúlega algengt að heyra talað um kúnna, ekki kúna, brúnna, ekki brúna, svo aðeins tvö  dæmi séu nefnd. Því miður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>