«

»

Molar um málfar og miðla 684

Útvegsbóndi er gamalt og  gott orð. Það er notað um bónda sem gerir út. Þann sem  stundar sjó og  landbúnað jöfnum höndum. Gamalt og gróið félag er Útvegsbændafélag Vestmannaeyja. Það er því óþarfi að tala um sjávarútvegsbónda eins og gert var er ágætur  viðmælandi  var kynntur til  sögunnar í  morgunútvarpi Rásar eitt (09.08.2011).

Úr mbl.is (09.08.2011): Ísraelsk fjölskylda hefur fengið leyfi dómstóla til að láta frysta egg úr 17 ára gamalli dóttur hennar sem lést í bílslysi. Undarlegt orðalag að ekki sé meira sagt. Dóttir fjölskyldunnar?

Í fimm fréttum Ríkisútvarpsins(10.08.2011) var  talað um  fréttastofuna BBC. Þótt ekki megi lengur nefna Ríkisútvarpið á nafn í íslenska Ríkisútvarpinu  er óþarfi fyrir fréttastofuna í Efstaleiti að breyta nafni breska ríkisútvarpsins, BBC.

Guðmundur Þór  sendi Molum nokkrar  ábendingar og segir: „Síbloggari“ þarf að huga vel að áslætti, stafsetningu og málfari.

Teitur (Atlason) Blogg Ballið er byrjað. 07:29  8. ágúst 2011.

Gunnlaugur M. Sigmundsson sem er miljarðamæringur með framsóknartengsl. Honum munar ekkert um þennan kostnað.

…  Endurskoðandastofan BDO mun hafa umsjón með reikningnum.  Þetta er endurskoðendastofa sem mér lýst vel á.

… Ég hef fengið ófá símtöl við allskonar fólk,

Fréttaritarar DV.is þurfa að taka sér tak:

Kastaði grjóti í lögregluna

Ásta Sigrún Magnúsdóttir astasigrun@dv.is 16:27 › 8. ágúst 2011

… Stúlkan var þáttakandi í mótmælum fyrir utan lögreglustöðina . Ástæða mótmælanna var dauði 29 ára gamals fjögurra barna föðurs sem lést eftir að lögreglumenn skutu hann á fimmtudaginn. Eftir að hún kastaði grjótinu mun hún hafa verið rifinn niður í jörðina.

   Og: ,,Færði skuldir sínar í eignarhaldsfélag sitt

Símon Örn Reynisson simon@dv.is

19:18 › 8. ágúst 2011

…eignarhaldsfélagi sem að Hreiðar Már stofnaði í kringum skuldir sýnar…

… félagið hafi ekki verið réttilega stofnað, það er að ekki hafi verið farið réttilega að lögum

 

Það var enginn amböguskortur í fréttatíma Stöðvar tvö (09.08.2011). Nokkur dæmi: … talað  var um aflimuðu konuna sem hefur unnið með Össur. Konu sem missti annan fótinn og hefur unnið með Össuri.  Þessi  góðmálmur hefur risið í verði. Þessi góðmálmur hefur hækkað í verði. Svo er það auðvitað bara bull þegar svo er tekið  til orða að breski  forsætisráðherrann hefi verið brimsaltur þegar hann ávarpaði þjóð sína.  Forsætisráðherrann talaði enga tæpitungu,  hann kvað fast að orði, hann  sagði meiningu sína umbúðalaust.  Brimsaltur? Bull.

…og  svo er alveg eins kveikt í á eftir. Og svo er  eins víst að  kveikt sé í á eftir.

Hlutabréfamarkaðir opnuðu nánast í  frjálsu falli. Hlutabréfamarkaðir opna   hvorki eitt né neitt. Ekki frekar en kjörstaðir. Verð hlutabréfa var nánast í frjálsu falli þegar markaðir voru opnaðir í morgun. Ágætt orðalag er líka eins og heyrst hefur í Ríkisútvarpinu: Við opnun markaða í morgun.

Í lokin er hér  ábending  frá Agli: Á Rás 2 auglýsir hið fyrrum gjaldþrota fyrirtæki, Egill Árnason, að parket kosti svo og svo mikið, per fermeter. Ég hélt að þetta lærðu menn í grunnskóla. Það heitir fermetri á íslensku og svo er það lítri, en ekki líter. Þessu má nudda í fólk.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>