«

»

Molar um málfar og miðla 685

Gæti skilað einn milljarð króna , var sagt í fréttum Stöðvar tvö (11.08.2011). Ætti að vera: Gæti skilað einum milljarði króna.

 

Fínn þáttur í Ríkissjónvarpinu (11.08.2011) í minningu Ólafs Gauks. Snyrtilega og smekklega saman settur eins og Andrésar Indriðasonar var von og vísa. 

 

Samkvæmt upplýsingafulltrúa embættisins, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps (11.08.2011), Betra hefði verið: Að sögn upplýsingafulltrúa …. Makríllinn dansaði á  sjávarborðinu sagði fréttamaður  í sama fréttatíma. Eðlilegra hefði   ef til vill verið að  segja, að makríllinn hefði dansað í sjávarborðinu. Einnig hefði mátt segja, … í sjólokunum.

 

Kaupahéðinn er maður sem fæst við kaupskap, braskari. Orðið kauphéðinn sem notað var í seinni fréttum Ríkissjónvarps (09.08.2011) er ekki til í málinu.

 

Auglýsingar Símans frá ýmsum merkisstöðum á landinu eru til fyrirmyndar,en það hafa auglýsingar þessa stórfyrirtækis ekki alltaf verið.

 

Það var  ágætlega orðað  í  fréttum Ríkis Ríkisútvarps þegar talað var um skrílinn  í Bretlandi  sem  væri að troða illsakir  við  lögregluna. Sömuleiðis þegar  Gissur Sigurðsson á Bylgjunni talaði um afræktan fálkaunga sem vegfarendur höfðu séð aumur á og skotið skjólshúsi yfir.  

 

Í fréttayfirliti Ríkisútvarps klukkan hálf átta (10.09.2011) var  sagt  frá þjófi sem lögreglan hljóp uppi. Sagt var að þetta hefði gerst á Hádegisvegi. Hádegisvegur er ekki til. Háteigsvegur  hefur hinsvegar lengi verið til. Þetta er raunar ekki í fyrsta skipti sem í Efstaleitinu eru búin til ný götuheiti í Reykjavík. 

 

Molavin  sendi þarfa  áminningu: „Um þarsíðustu helgi voru svo tekin tvö net…“ segir í frétt á visir.is (9. ágúst) en eftir dagsetningum í fréttinni má sjá að átt er

við „fyrri helgi“. Skrif af þessu tagi virðast færast í vöxt; nýlega

mátti sjá skrifað um „þarsíðustu nótt“ þar sem átt var við „í

fyrrinótt“. Þetta er  afleit málþróun. En stjórnendur fjölmiðla virðist bresta þrek til að standa gegn þessu.  

 

Guðmundur Þór sendi tvo Mola:  Pressan.is, 09. ágú. 2011 – 08:30

Harmleikurinn í Útey: Lögreglan leitar að upptökuvél morðingjans – Líklegt að hann myndaði ódæði sín (ætti að vera; hafi myndað)Sjónarvottar í Útey, þar sem … skaut tugi manns (Tugir manna, fleirtala, eignarfall tugi manna.) …Lögreglan hefur lagt hald á mörg hundruð myndavélar, (hundruð myndavéla! Aftur notuð eintala þar sem á að nota fleirtölu.) farsíma með myndavélum og tölvubúnað til að vista stafræn gögn á Útey.

(Athuga orðaröð. Hvar eru gögnin vistuð? Á eynni eða í umræddum búnaði? Helst er hægt að skilja setninguna þannig að lögreglan hafi lagt hald á búnaðinn með það að markmiði að vista stafræn gögn á eynni!)

———–Er þetta ekki örugglega þáttur sem sýnir alls konar? Viktoría Hermannsdóttir viktoria@dv.is 11:57 › 9. ágúst 2011

… segir Þórunn Antonía Magnúsdóttir en hún er annar þáttastjórnanda þáttarins Týnda kynslóðin.… Ég sýni þeim alls konar sem er að gerast hjá ungu kynslóðinni. –   Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Egill sendi eftirfarandi (09.08.2011): „Einn karlmaður á sendiferðabíl var handtekinn í kjölfar hvarfsins.“ Af hverju má ekki skrifa: „Karlmaður á sendiferðabíl var handtekinn …“? Það gefur auga leið að maðurinn var einn ef skrifað er „karlmaður“, annars væri það „karlmenn“. Eru þetta dönskuáhrif? En mand. – Ágiskun þín er ef til vill ekki fjarri lagi, Egill.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>