«

»

Molar um málfar og miðla 729

Það var ótrúlegt að hlusta á Andreu Ólafsdóttur formann svokallaðra Hagsmunasamtaka heimilanna lýsa því í beinni útsendingu (01.10.2011) í Ríkissjónvarpinu hvað hún væri ánægð með að eggjum og tómötum skyldi hafa verið kastað í alþingismenn á leið í og úr kirkju við setningu Alþingis. Það bætir ekki stöðu heimilanna og varla var það fólk úr fátækustu fjölskyldunum sem átti aflögu mat til að kasta í þingmenn.

Í morgunútvarpi Rásar tvö (29.09.09.2011) var talað um þingsetningu Alþingis. Það hálfa hefði verið nóg.

Neyða hákarl í Norðmenn, segir í fyrirsögn á baksíðu Fréttablaðsins (29.09.2011) Í textanum undir fyrirsögninni segir: …sagði Íslendinga neyða hann ofan í frændur sína Norðmenn. Þarna er eins og verið sé að tala um lifandi hákarl! Þegar einhver er neyddur til að borða eitthvað, þá er einhverju neytt ofan í hann.

Bjarni Sigtryggsson sendi þessa ábendingu (29.09.2011): Í mbl.is-frétt segir svo um leynda hættu fyrir Fasbókarnotendur: ,,Til að forða því að samfélagssíðan fylgist með ferðum notandans á vefnum.. Hér á augljóslega að standa „Til að forðast að…“ því ella verður merkingin önnur. Þetta er algeng villa í fréttaflutningi, t.d. þegar talað er um að forða slysi í stað þess að forðast slys. Að forða slysi frá hverju…? Örlítil hugsun er fréttafólki nauðsynleg áður en slegið er á lyklaborðið.”

Vildi reka lykilstarfsmenn og ráða starfsfólk sér nátengdu, segir í fyrirsögn á visir.is (29.09.2011). Hér er eitthvað málum blandið. Líklega ætti þetta að vera: Vildi reka lykilstarfsmenn og ráða starfsfólk sér nátengt. Eða: Vildi reka ríkisstarfsmenn og ráða venslafólk sitt.

Margir virðast ekki valda því að fara rétt með sögnina að valda. Úr DV (29.09.2011) : Áætlanir nýsjálenska orkufyrirtækisins Waikato, um að kaupa þjónustu frá íslenska fyrirtækinu Jarðboranir hafa ollið miklum deilum meðal verkalýðfélaga í Taupo á Nýja Sjálandi. Hafa valdið miklum deilum, ætti að standa hér.

Undarlegur er áhugi forsetahjónanna á fyrirtækinu Fjölskylduhjálp (ehf?) og forstjóra þess. Forsetaskrifstofan ætti að kynna sér samskiptasögu forstjórans og Mæðrastyrksnefndar. Ekki hefur þess orðið vart að forsetahjónin hafi mikinn áhuga á Mæðrastyrksnefnd sem unnið hefur einstakt starf allt frá árinu 1928.

Seðlabankinn eignast heimili og atvinnuhúsnæði,segir í fyrirsögn á Fréttatímanum (30.09.2011) . Það er auðvitað eins og hver önnur vitleysa að segja að Seðlabankinn eignist heimili, þegar um er að ræða hús eða íbúðir. Hvorugt er heimili, hvorki hús né íbúðir.

Skyldi ný Fjölmiðlanefnd hlusta á Útvarp Sögu þaðan sem stundum rignir rangfærslum og öðru þaðan af verra?

Molaskrifari mælir með Tungutakspistli Baldurs Sigurðssonar í Sunnudagsmogga (02.10.2011) umnýt og ónýt orð. Tímabær áminning.

Ákall til Ríkisútvarpsins: Í guðanna bænum hlífið okkur við að hlusta á konuröddina sem með annarlegum uppgerðaráherslum segir við okkur svona tíu sinnum á kvöldi: Hér á Rúv. Það þarf ekki að segja okkur þetta. Reyndar er verið að segja frá efni í Ríkisútvarpinu ekki á Ríkisútvarpinu.

Útvarpsstjóri Útvarps Sögu og lagskona hennar töluðu á föstudag (30.09.2011) um helgarbaðið. Það minnir á karlinn sem sagðist alltaf fara í bað fyrir jólin hvort sem hann þyrfti þess með eður ei. Molaskrifari hélt að orðið helgarbað væri horfið úr málinu með auknu almennu hreinlæti. Svo er greinilega ekki.

Es. Molaskrifari biðst velvirðingar á því að hafa á dögunum eignað símafélaginu Vódafón auglýsingu þar sem talað er um eitthvað sem kallað er app án frekari skýringa. Þessi fáránlega auglýsing er ekki frá Vódafón heldur olíufélaginu sem kallar sig N1 og er því ekki til sóma.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Merkingarlaust bull frá N1. Gæti það verið einhverskonar vísun í enska orðið application ?

  2. Anna María skrifar:

    En ég hef ekki enn fundið út hvað þetta APP merkir. Hef meira að segja reynt að draga það upp úr unga fólkinu í fjölskyldunni sem er mun tæknivæddara og fróðara en ég en það veit engin alveg hvað þetta merkir. Ég skil hugtakið „að adda“. Það er dregið af ensku sögninni „to add“. Ég hef hins vegar reynt mikið til að skilja þetta „app“ Mér sýnist af auglýsingunni að maður appi þegar maður gerir eitthvað við símann sinn svo tengdpabbi geti tekið bensin en hvaða orð er þetta?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>