«

»

Molar um málfar og miðla 730

Af hverju þarf Ríkissjónvarpið að vera óheiðarlegt gagnvart áhorfendum?
Í fréttum eru okkur sýndar gamlar myndir úr myndasafni eins og verið sé að sýna okkur nýteknar myndir. Þegar dagskrá föstudagskvöldsins (30.09.2011) var kynnt var sagt frá kvikmyndinni (fín mynd) Ekki fyrir gamla menn ( No Country for Old Men) sem var á dagskrá eftir miðnætti. Okkur var ekki sagt að verið væri að endursýna myndina. Þetta eru ekki heiðarleg vinnubrögð.

Af mbl.is (30.09.2011): Blóðtappi í hjarta voru dánarorsök danska handboltamannsins Lars Olsens en hann lést í miðjum kappleik með liði sínu Ribe-Esbjerg um síðustu helgi. Blóðtappi í hjarta var dánarorsök …. hefði þarna átt að segja. Vandið ykkur Moggamenn.

Samantekt Andrésar Indriðasonar í minningu Thors Vilhjálmssonar sem Ríkissjónvarpið sýndi á sunnudagskvöld ((02.10.2011) var sannkallað úrvalsefni. Hversvegna er Andrés ekki fenginn til að gera fleiri þætti af svipuðum toga úr fjársjóðakistum Ríkissjónvarpsins? Úr nógu er þar að moða. Enginn er kunnugri því efni en Andrés, sem starfaði við Sjónvarpið frá upphafi. Hann hefur líka alla tíð verið afar smekkvís dagskrárgerðarmaður.

Úr visir.is (01.10.2011): Margrét segir að lokum málflutning samtakanna alls ekki vera beint gegn bændum . Hér er á ferðinni vanþekkingar villa eða letivilla. Málflutningi samtakanna segir hún ekki beint gegn bændum.

Í fréttum Ríkissjónvarps var talað um skútur , báta, sem hefðu skoppað stjórnlaust um í briminu í höfn á Akureyri. Á myndunum sem fylgdu fréttinni var ekki neitt brim að sjá hinsvegar mikil ókyrrð við flotbryggjurnar. Eitt er brim annað er öldugangur eða ókyrrð.

Í fréttum Ríkissjónvarpsins (30.09.2011) var nefndur til sögu Herman van Rompuy, sem titlaður var forseti Evrópuráðsins. Forsætisráðherra Grikklands hafði rætt við hann og Frakklandsforseta um fjármálakreppuna í Grikklandi. Stofnunin sem á íslensku hefur verið kölluð Evrópuráðið heitir á ensku Council of Europe. Aðildarríki þess eru 47. Herman van Rompuy er ekki forseti þess. Hann er forseti einnar af stofnunum ESB, sem heitir European Council. Frá því segir á wikipedia: http://en.wikipedia.org/wiki/European_Council, . Fréttastofa Ríkisútvarps á ekki að rugla þessu saman. Glöggur fréttamaður/fréttaþulur hefði átt að sperra eyrun og spyrja: Hversvegna er forsætisráðherra Grikklands að ræða við forseta Evrópuráðsins ? Getur það verið rétt? Evrópuráðið hefur ekkert með fjármál ESB ríkjanna að gera en þau voru efni fréttarinnar í Ríkissjónvarpinu. En þetta var bara lesið án athugasemda og því fengum við hlustendur rangar upplýsingar .

Mikil var tillitssemi Ríkissjónvarpsins í kvöld (01.10.2011) við svokölluð Hagmunasamtök heimilanna að endursýna ekki viðtalið við formann samtakanna Andreu J. Ólafsdóttur þegar hún í beinni sjónvarpsútsendingu frá mótmælunum á Austurvelli fyrir hádegið vegsamaði það að eggjum og tómötum skyldi kastað í þingmenn á leið í og úr kirkju. Mikil tillitssemi og rangt fréttamat. Auðvitað er það frétt, þegar formaður hagsmunasamtaka lýsir stuðningi við það að Alþingismenn séu beittir ofbeldi. Enn einu sinni brást fréttamatið í Efstaleitinu.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Bæti hér inn athugasemd frás Lárusi J. Guðmundssyni – ESG
    Sæll,
    Það er alltaf erfitt að standast krefjandi ögrun 🙂 (http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/enginn-veit-hvad-a-ad-kalla-appid-i-snjallsimunum-hvada-endemis-rugl-er-her-a-ferdinni).

    Hér er mitt innlegg í umræðuna:

    Byrjum á að skilgreina hvað „app“ er:
    Application = app, er lítið forrit sem hlaðið er niður af vefnum og auðveldar að sækja og njóta þjónustu eða afþreyingu með notkun snjallsíma og spjaldtölva.

    Ýmislegt kemur upp í hugann en í þessari umferð sting ég upp á að endurnýta vel þekkt íslenskt orð. Rétt eins og orðið sími fékk endurnýjun lífdaga legg ég til að orðið „egg“ fái nýja merkingu.

    Egg er allajafna lítið og meðfærilegt og felur í sér að geta orðið eitthvað miklu stærra. Egg er sjálfbært, þ.e. inniheldur allt sem þarf til að vaxa og dafna. Það þarf tvo til að egg sé frjótt og eggi er verpt, þ.e. einhver býr til eggið.
    Allt rímar þetta við tilurð, eiginleika og möguleika „apps“. „Appið“ er lítið og meðfærilegt og auðvelt að hlaða niður í snjallsíma. Það er sjálfbært, þ.e. felur í sér það sem þarf til að virka og verða nytsamlegt. Það þarf tvo til að „appið“ sé frjótt, þ.e. þann sem framleiðir það og þann sem notar það.

    Orðið „egg“ er því kjörið sem nýyrði fyrir enska orðið „app“. Þetta orð býður upp á marga skemmtilega orðaleiki og málfimleika fyrir flinka íslenskumenn. Leikum okkur aðeins með þetta 🙂

    Að sækja sér egg (hlaða niður af vefnum):
    „Ég eggjaði mig upp um helgina, ég sótti 13 ný egg í spjaldtölvuna mína, eitt var hálfgert spælegg en hin voru frábær.“

    Smekkur notandans:
    „GPS eggið var nú hálfgert spælegg, skák eggið hinsvegar, það var sko harðsoðið, engin linka þar!“.
    „Framsóknareggið er illa lyktandi fúlegg og engin framsóknarmaður með snefil af sjálfsvirðingu og smekk fyrir góðum íslenskum afurðum ætti að sækja sér það í símann sinn.“
    „Máleggið frá Íslenskri málstöð er tær snilld, enda verpa þar íslenskumælandi landnámshænur í hverju horni!“
    „Notendur vilja ekki linsoðin egg með skítugri skurn, þeir vilja hrein og mátulega harðsoðin hamingjuegg sem gagnast þeim í daglega lífinu.“

    Takmark forritarans:
    Eggið þarf að vera „eggjandi“ og það yrði markmið þess sem „verpir“ egginu (framleiðir/forritar það) að vera sem mest eggjandi svo notendur hafi á áhuga á að sækja það.
    „Það er komið hávært eggjahljóð í Apple risann, þeir eru að undirbúa nýtt útvarpsegg sem mun nýtast um heim allan, egginu verður verpt ókeypis þegar símarnir koma á markað.“

    Ef forritið er lélegt:
    „Nýja eggið var svo fúlt að það brotnaði þegar ég ætlaði að nota það“

    Tvíeggjað starfsheiti:
    Starfsheitið „eggjaframleiðendur“ mun öðlast nýja merkingu, ekki ósvipað því þegar fjölgaði skyndilega í stétt vefara með tilkomu veraldarvefsins. Það að búa til nýtt egg mun kallast „varp“ og glæný egg verða „nýorpin“, metnaðarfullir framleiðendur munu „verpa“ eggjum ótt og títt og þegar klámframleiðendur komast á bragðið verður Eldey ekki lengur stærsta „súluvarp“ í heimi, þeirra egg verða væntanlega þau mest eggjandi…“

    Fleiri orðtengingar og hugsanatengsl mætti nefna til að gera þetta enn litríkara, s.s. að vera vörpulegur (efnilegur eggjaframleiðandi), „verpill“ yrði samheiti yfir eggjaframleiðanda, að „verpast“ yrði lýsing á óförum verpils, t.d. þegar markaðssetning eggsins mistekst og að „varpa“ eggi milli manna mun þýða að senda egg frá einum notanda til annars.
    Reiðir mótmælendur á Austurvelli munu ekki lengur nota handheld hænuegg til að skjóta niður þingmenn í próssessíu, heldur þartil gert mótmælaegg sem sendir mótmæla smáskilaboð (sms) eða hreinlega nýjasta leikjaeggið þar sem hægt er að salla niður þingheim með stafrænum blóðeggjarauðum.

    Með bestu kveðjum
    Lárus Jón Guðmundsson

  2. Gunnar Jónsson skrifar:

    Þú skrifaðir í fyrri þætti um að „appa“ sig í gang, sem N1 mun auglýsa. Sá líka að íslensk málstöð lýsir eftir nýyrði fyrir þetta, en á ensku er þetta „application“ fyrir síma, þ.e. forrit sem nota má í síma.

    Má ekki kalla þau beitu? Í þessari merkingu snýst þetta um að geta beitt forriti á símanum sínum og um leið nota símfélögin þessi forrit til þess að egna fyrir viðskiptamenn og beita er náttúrulega agn.

    Beittu símanum fyrir þig í stað þess að „appa“ í gang. Ný beita fyrir síma vísar fólki veginn o.s. frv.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>