Gleðilegt ár !
Molaskrifari nennir ekki að hafa miklar skoðanir á Áramótaskaupi Ríkissjónvarpsins. Fannst það heldur þunnt og ekki mjög fyndið. Það sem átti að vera fyndið um Sjálfstæðisflokkinn einkenndist fremur af illkvittni en fyndni.. En annað tók þó út yfir allan þjófabálk í Skaupinu. Það var að skopast skyldi að fjöldamorðunum í Útey í Noregi og þau voðaverk sem þar voru framin höfð í flimtingum. Það sýnir veikleikana í yfirstjórn Ríkisútvarpsins að hvorki útvarpsstjóri né dagskrárstjóri skyldu koma í veg fyrir þessa ósvinnu. Stöðva þessa einstæðu smekkleysu. Þessir embættismenn eiga nú að ganga á fund sendiherra Noregs á Íslandi og biðjast afsökunar á þessum dæmalausu mistökum Ríkisútvarpsins. Útvarpsstjóri og dagskrárstjóri bera fulla ábyrgð á þeirri lítilsvirðingu sem norsku þjóðinni var sýnd í íslenska Ríkissjónvarpinu á gamlárskvöld. Þetta var þjóðarskömm.
Ráðamenn og fréttastjóri Stöðvar tvö eiga að kenna fréttamönnum sínum að nota sagnirnar að kaupa og að versla rétt og í samræmi við málvenju. Það er ekki flókið. Óttalega var hallærislegt að heyra fréttamann Stöðvar tvö segja um áfengisinnkaup (30.12.2011) þar sem fólk verslaði inn áfengi fyrir morgundaginn. Fólk var að kaupa áfengi. Og svo bætti þessi sami fréttamaður gráu ofan á svart með því að segja: … margir hafa það fyrir sið að skála í böbblí… , skála í böbblí ! Líklega átti stúlkutetrið við kampavín eða freyðivín. Fólk sem er ekki betur talandi en þetta þarf að senda á skólabekk áður en það er sent inn í stofur landsmanna. Þið verðið að sýna að þið hafið metnað til að gera betur en þetta. Léleg frammistaða fréttamanns og fréttastjóra. Bætið ykkur á nýju ári.
Úr mbl.is (30.12.2011): Ragnar Arnalds, fyrrverandi fjármálaráðherra og formaður Alþýðubandalagsins, segir að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sé að ganga hagsmuna Evrópusambandsins með því að ýta Jóni Bjarnasyni úr ríkisstjórninni. Molaskrifari átti samleið með Ragnari Arnalds á Alþingi í hálfan annan áratug og fullyrðir að svona hefur Ragnar aldrei orðað hugsun sína. Hér er á ferðinni blaðamaður sem ekki er vel að sér í íslensku og leggur Ragnari þessi orð í munn. Menn ganga ekki hagsmuna einhvers. Menn geta gengið erinda einhvers, unnið í þágu einhvers eða gætt hagsmuna einhvers, – séð til þess að hagsmunir e-s séu ekki fyrir borð bornir.
Á gamlársdag og nýarsnótt voru um það bil átta klukkustundir af endursýndu efni í dagskrá Ríkissjónvarpsins. Sjálfsagt er að endursýna gott efni, en fyrr má nú rota en dauðrota eins og hún móðir mín heitin sagði stundum.
Í Fréttablaðinu segir á gamlársdag: Gæði kalkúnsins hans Júlíusar hefur spurst út … Orðið gæði er fleirtöluorð eins og hér hefur oft verið nefnt. Orðið er ekki til í eintölu. Þessvegna hefði hér átt að segja: Gæði kalkúnsins hans Júlíusar hafa spurst út.
Í fréttum Ríkisútvarps fyrir áramótin var sagt frá eldsvoða í rússneskum kjarnorkukafbáti. Sagt var að báturinn hefði verið í slippi. Hann var til viðgerðar í skipasmíðastöð. Þágufallið af orðinu slippur er slipp. Báturinn var í slipp.
Hvað segir Bandalag íslenskra listamanna um afskræmingu Bílabúðar Benna á ljóði Freysteins Gunnarssonar, Áfram veginn í vagninum ek ég … sem nú dynur á okkur í sjónvarpsstöðvunum? Bandalagið hlýtur að hafa skoðun á þessu. Tjáningarfrelsið nær ekki til þess að taka listræn verk annarra og snúa út úr þeim og nota í hagnaðarskyni. Það er bara bölvað klám.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (01.01.2012) var sagt frá jarðskjálfta sem átti upptök sín undir botni Kyrrahafs. Tvísagt var: … skjálftinn mæltist … Ræðumanni mæltist vel, en jarðskjálftinn mældist 5,2 ( eða hvað það nú var). Þarna verður að vera skýr munur á í framburði.
Hvort munu nú skoðanasystkinin Morgunblaðið og Útvarp Saga (sem eru í einskonar skjallbandalagi) taka höndum saman og skora á Ólaf Ragnar Grímsson að ,,hætta við að hætta”? Fróðlegt verður að fylgjast með því.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
12 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
04/01/2012 at 23:12 (UTC 1)
Hvort tveggja var ósmekklegt og óþarft.
Njáll skrifar:
04/01/2012 at 23:05 (UTC 1)
Sammála því að tilvísun til úteyjarmorðana var vanhugsuð. Sama fannst mér þegar vísað var til Geirfinnsmálsins. Óskiljanlegt og ekkert fyndið, eða hvað haldið þið að ættingjum hans hafi fundist um þetta.
Eiður skrifar:
04/01/2012 at 15:13 (UTC 1)
Hættu þá bara að lesa það sem ég skrifa. Það er einfaldast.
Karl Kr. skrifar:
04/01/2012 at 14:25 (UTC 1)
Leiðinlegt röfl í útbrunnum stjórnmálamanni, blessaður hættu þessu tuði.
Leifðu þeim mönnum sem höfðu mætur á þér þegar þú varst í sjónvarpi og stjórnmálum að muna eftir þér eins og þú varst þá. Ekki sítuðandi það nennir enginn að hlusta á það, reyndu nú að vera jákvæður annars verður þú eins og Mörður Árna.
Björn skrifar:
04/01/2012 at 10:17 (UTC 1)
Ég vill ráða þér heilt, ekki fara til Bretlands, ekki kveikja á sjónvarpi ef hætta er á að uppistandari frá Bretlandi sé að láta ljós sitt skína. Skinheilögu fólki gæti brugðið illa, jafn vel svo að það næði ekki upp í nef sitt, eina ferðina enn. Pólitísk rétthugsun og aukin ritskoðun pólitíkstskipaðs útvarpsstjóra þarf ekki hvatning til dáða.
Skúli Bollason skrifar:
04/01/2012 at 09:00 (UTC 1)
Ég er sammála þér um að betra hefði verið að sleppa þessu með Úteyjarmálið, en í heild sinni fannst mér skaupið mjög gott. Mér fannst ekkert frekar skotið á sjálfstæðismenn eða aðra og þó er ég fyrrv. sjálfstæðismaður. Gat ekki betur séð en að Jón Bjarnason, Jóhann og Steingrímur fengju meira að kenna á því. En ekki erum við öll eins, það sem einum finnst fyndið, þykir öðrum ekki fyndið.
Hjalti skrifar:
02/01/2012 at 18:30 (UTC 1)
Veit svosem ekki með hvernig húmor þú ert Eiður, en mér fannst skaupið gríðarlega gott og meinfyndið. Sammála þessu með Úteyjardæmið sem hefði mátt sleppa.
Guðmundur St. Ragnarsson skrifar:
02/01/2012 at 16:05 (UTC 1)
Ég er sammála þér í einu og öllu varðandi skaupið, Eiður. Lágkúran varðandi Útey var ófyndin og afar smekklaus. Grínið að sjálfstæðismönnum var rætið. Mér finnst nauðsynlegt að gera grín af pólitíkinni en þegar höfundar geta ekki falið sínar pólitískar meiningar má fara að sleppa skaupinu því þar eiga flestir, óháð flokkapólitík, að geta sameinast um að hlæja að stjórnmálamönnunum okkar. Þegar um húmorinn er orðinn rætinn í garð eins aðila (eða flokka) umfram aðra hefur tekist illa upp.
Danni skrifar:
02/01/2012 at 12:00 (UTC 1)
„Málfar og gagnrýni“ er ekki alveg það sama þegar manneskjan er í karakter. Það var auðvitað óbeint verið að hæðast að Ásgeiri Kolbeins og slíkum spöðum.
En hvað um það. Það er auðvitað segin saga að um leið og eitthvað byrjar að vera fyndið, þá fer einhver að móðgast.
Eiður skrifar:
02/01/2012 at 11:53 (UTC 1)
Það hefði verið sjálfsagt og eðlilegt að útvarpsstjóri og dagskrárstjóri hefðu horft á Skaupið í heild áður en það var sent út. Hvernig eiga þeir annars að bera ábyrgð á efni þess? Það er hreinn útúrsnúningur að ekki hafi verið skopast að morðunum í Útey og þessi harmleikur hafður í flimtingum.. Það var einstaklega ósmekklegt og Ríkissjónvarpinu til skammar. Þetta var lítilsvirðing við norsku þjóðina, – undan því verður ekki komist. Þessvegna eiga yfirmenn Ríkisútvarpsins, – ef þeir hafa kjark og kurteisi til , – að biðja norska sendiherrann afsökunar á þessum mistökum.
Skeggi Skaftason skrifar:
02/01/2012 at 11:17 (UTC 1)
Ertu að leggja til að skauphöfundar skulu legga tilbúið handrit sitt fyrir útvarpsstjóra eða dagskrárstjóra til yfirlestrar og samþykktar eða synjunar?
Reyndar er ég ósammála því að skopast hafi verið að fjöldamorðunum. Það var skopast að fólksflutningum Íslendinga til Noregs, þar með ekki sagt að verið væri að gera það léttvægt, heldur líta á þessa samtímasögu í spéspegli. Þessi tilvísun til Breivik kom þar inn, svona væntanlega til að benda á að fyrirheitna landið er ekki fullkomin paradís frekar en önnur byggð ból. Ekki fannst mér að verið væri að gera þessa atburði léttvæga, en skil vel að menn hafi misjafnar skoðanir á því hvort þetta hafi átt erindi í skaupatriðið. Sjálfum fannst mér þetta ekki koma vel út.
Þorvaldur S skrifar:
02/01/2012 at 09:50 (UTC 1)
Sammála með úteyjarmorðin. Þetta var lágkúra. Og dónaskapur. Og taktleysi.
Og svo verða menn að gæta þess að málfar og gagnrýni verður ekki beittari þótt fokkað sé í öðru hverju orði. Það er bara sóðaskapur.