Ólafur Ragnar sagði ekki afdráttarlaust í áramótaávarpi sínu að hann væri að hætta Hann lokaði ekki í hálfa gátt. Hann skildi bara eftir smáglufu. Hann var eiginlega að biðja þjóðina að skora á sig að halda áfram. Og Sögukórinn er byrjaður að syngja. Moggi mun taka viðlagið. Ólafur Ragnar sýnir þjóðinni óvirðingu með því að segja ekki skýrt og skorinort af eða á, – hvort hann ætlar að hætta eða ekki.
Á námsárum sínum í Manchester fór Ólafur Ragnar ekki dult með það við skólafélaga sína að hann ætlaði að verða forsætisráðherra á Íslandi. Það var líklega hluti af þeirri áætlun að bók Machiavellis, Furstinn, um valdabaráttu og valdklæki mun yfirleitt hafa legið opin á skrifborði hans á stúdentagarðinum í Manchester. (,,Bókin er leiðarvísir handa furstum um hvernig halda skuli völdum og auka þau, hvaða brögðum beri að beita og hvaða sögulega lærdóma sé hægt að draga. Um leið sýnir hún einkar vel hugsunarhátt og aðferðir valdhafa gegnum aldirnar, enda er hún eitt frægasta stjórnmálarit allra tíma.Á enskri tungu er það orðið niðrandi lýsingarorð að segja einhvern vera machiavellian og er þá átt við að viðkomandi sé snauður tilfinningum, og jafnvel siðferði og hugsi einvörðungu um eiginhagsmuni.”, – Wikipedia)
En draumur Ólafs Ragnars um að verða forsætisráðherra rættist ekki. Hann varð forseti. Ekki forsætisráðherra.
Nú skynjar Ólafur Ragnar tómarúm á sviði stjórnmálanna. Hann kannar jarðveginn til þess að geta fyllt það tómarúm. Hann daðraði við fleiri flokka en Framsókn þegar hann kom, heim frá námi til að kanna hvar framavonir væru mestar. Hann mun taka sér nokkrar vikur til að láta lautinanta sína kanna sviðið. Leita lags. Hann veit líka að ef við fáum áfellisdóm í Icesavemálinu yrði það honum þúsundfalt efiðara á Bessastöðum en í litlu húsi á lækjarbakka í Mosfellssveit. Sumpart sér Ólafur Ragnar sig sem einskonar Gunnar Thoroddsen sem hann dáði mjög. Minningarorð sem Ólafur skrifaði um Gunnar voru í þeim anda hann hefði eiginlega verið pólitískur fóstursonur Gunnars ! Það var grátstafur í greininni. Gunnar Thoroddsen náði að gegna öllum æðstu embættum þjóðarinnar, – nema forsetaembættinu. Í flókinni pólitískri refskák þar sem Ólafur Ragnar var ekki víðs fjarri hreppti Gunnar embætti forsætisráðhera á gamals aldrei. Skyldi Ólafur sjá það fyrir sér að hann geti leikið sama leik? Enginn frýr honum vits, en dómgreind hans um eigin efni hefur oft reynst brigðul. En Ólafurr Ragnar er enginn Gunnar Thoroddsen.
Nú ætlar Óalfur Ragnar Grímsson að róa á ný mið. Hinn margyfirlýsti alþjóðasinni ætlar að nýta sér andstöðuna við ESB og vinna gegn því að Íslendingar starfi náið með öðrum Evrópuþjóðum. Auka einangrun okkar meðal þjóðanna. Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Mogga er þegar sestur við fótskör Ólafs Ragnars. Þar er líka pláss fyrir Davíð og Björn. Munu þeir líka krjúpa?
Bíðum og sjáum hvað setur. Það á ýmislegt óvænt eftir að koma í ljós. Ólafur Ragnar ætlar sér áfram að vera á miðju sviðinu. Hann ætlar að leika aðalhlutverkið og annast leikstjórnina líka. Fyrrum foringjar Sjálfstæðisflokksins fá að vera statistar. Litlu verður Vöggur feginn, eins og þar stendur.
14 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Þórður Óskarsson skrifar:
03/01/2012 at 23:52 (UTC 1)
Sagan mun ekki skrá pínulítinn kall eins og Eið í bækurnar sem er sífellt úrillur og geðvonudur út í flest alla. Hins vegar verður Ólafur Ragnar á blöðum sögunnar sem mikilmenni þjóðarinnar. Ólafur Ragnar er eina von þjóðarinnar um að landsölumenn nái ekki markmiði sínu á næstu árum og þjóðin treystir honum en ekki félögum Eiðs.
sigmar þröstur óskarsson skrifar:
03/01/2012 at 21:59 (UTC 1)
Gott innlegg hjá þér Eiður, en ef þú værir fréttamaður núna með þessa blogg-frétt þá held ég að Palli Magg væri ekki ánægður með árangurinn hjá þér . Mér er spurn hvort þú sért svegtur að hafa ekki fengið fálkaorðu frá Ólafi ? Eða þetta sé eitthvað eldra , og þú vilt hefna þín núna ? Eða ertu svegtur að Ólafur fái hærri eftirlaun en þú ? En eitt veit ég að Herra Ólafur Ragnar Grímsson brosir af þessu bloggi þínu, og ég ætla að gera það líka ;))))
Eiður skrifar:
03/01/2012 at 20:11 (UTC 1)
Það neyðir þig ekki nokkur maður til að lesa skrif mín.
Karl skrifar:
03/01/2012 at 19:05 (UTC 1)
Er sammála þér Eiður, það er nóg komið af hálfkveðnum vísum í þessu þjóðfélagi. Okkur vantar forystumenn sem tala tæpitungulaust. Einnig er hefð fyrir því að forseti segi frá þessari ákvörðun sinni þannig að ekki verði um villst, svona til að sýna þjóðinni augljósa kurteisi.
Margrét Annie skrifar:
03/01/2012 at 17:42 (UTC 1)
Ég heyrði ekki betur skýrt og skorinort að hann ætlar að hætta. Þú hefur kannski verið að horfa á eitthvað allt annað en ég horfði á.
Þetta var mikill sorgardagur fyrir þjóðina þegar hann tilkynni að hann ætlaði ekki aftur að bjóða sig fram. Hann hefur bjargað þjóðinni frá óþjóðinni sem situr á alþingi þessa stundina.
Ég vona bara að hann stofni sinn eigin flokk í kjörfarið.
Bestu kveðjur,
Margrét Annie
Ketill A. Hannesson skrifar:
03/01/2012 at 16:43 (UTC 1)
Eiður
Ég hef fengið nóg af skrifum þínum og þessi skrif um Ólaf Ragnar Grímsson eru ámælisverð. Hver og einn á að þekkja sinn vitjunartíma. Þú ert þar engin undantekning.
Hilmar skrifar:
03/01/2012 at 11:57 (UTC 1)
Sá vemmilegi farsi sem Ólafur Ragnar Grímsson bauð þjóðinni upp á í nýársávarpinu var auðvitað hlægilegur og sýnir öðru fremur hvernig maðurinn hefur markvist uppskrúfast og sjálfhverfst í forsetaembættinu.
Höfum í huga að Ólafur hafði áður gefið það út að í nýársávarpinu myndi hann tilkynna þjóðinni hvort hann hyggðist halda áfram sem forseti eða ekki.
Ólafur valdi hins vegar að tilkynna brotthvarf sitt úr forsetastól á hálf kveðnu dramatísku rósamáli krydduðu með tilgerðarlegri væmni. Þeir sem muna eftir ferli Ólafs sem stjórnmálamanns ættu að kannast við taktana.
Eiður skrifar:
03/01/2012 at 09:33 (UTC 1)
Kannski átt þú kollgátuna !
Þorsteinn Úlfar Björnsson skrifar:
03/01/2012 at 09:19 (UTC 1)
Kannski ætlar ÓRG að bíða og sjá hvaða kandidatar gefa sig fram. Ef hann telur sig geta unnið þá í kosningum, býður hann sig fram. Annars ekki.
Jú, kannski ef embættinu yrði breytt í einveldi. Mér heyrðist hann svona fremur vera að ýja að því að hann væri tilkippilegur ef núverandi hefðum, reglum og venjum yrði breytt og hann væri ekki bundin af þeim.
Gunnar Egilsson skrifar:
03/01/2012 at 08:53 (UTC 1)
Ólafur að einangra þjóðina?????????!!!
Ekki veit ég hvaða hvatir liggja að baki þessum skrifum hjá þér Eiður?
En hitt er víst að fáir ráðamenn,ef nokkur hafa unnið jafnötullega að því að verja málstað Íslendinga og svo vill til að þessi sami Ólafur er virtur í alþjóðasamfélaginu fyrir góð störf
á ýmsum vetvangi.Það stendur hins vegar ekki fyrir ykkur dáðadrengjum þér og JBH,
báðum misheppnuðum pólitíkusum, að kasta steinum úr glerhús,það er dapurlegt þegar
menn reyna að dylja blettina með því að varpa skít á aðra.
Gunnar Egilsson
Anna Grétarsdóttir skrifar:
03/01/2012 at 00:49 (UTC 1)
Áfram Ólafur 🙂 🙂 🙂
Best væri nú að hann sæti sem fastast á Bessastöðum, allavega meðan þessi ríkisstjórnar ómynd hangir inni.
Guðjón Jensson skrifar:
03/01/2012 at 00:23 (UTC 1)
Mig langar til að þakka vel ígundaða hugleiðingu þína Eiður.
Sagt er að betri er rýr sátt en engin. Samningarnir um Icesave voru ekki slæmir þegar í ljós kom að eignir virðast nægja úr þrotabúi gamla Landsbankans. Nú má reikna með að ítrustu kröfur verði settar fram og okkur hvergi vægt í dómsmáli.
Enginn forseti íslenska lýðveldisins hefur skilið þjóðina í eins mikillri óvissu og Ólafur Ragnar. Við erum stöðugt í lausu lofti og vitum ekki hvert hann vill teyma okkur. Spyrja má um tilganginn? Hvaðan fær hann þessar hugmyndir? Er hann kannski sá að grafa undan íslensku samfélagi og réttarríkinu?
Íhaldsmenn hefðu einhvern tíma litið á þetta grafalvarlegum augum en nú fagna þeir!
Með von um betri stundir.
Guðjón Jensson
Mosfellsbæ
Eiður skrifar:
02/01/2012 at 20:02 (UTC 1)
Hvað er ódrengilegt? Hvað á ég að skammast mín fyrir ?
ólafur skrifar:
02/01/2012 at 18:51 (UTC 1)
þetta er ódrengilegt af þér ég sá að hann mundi hætta en sem betur fer heldur hann þvíopnu ef bara rugludallar og sendiherrar bjóða sig fram skammastu þín Eiður