Á öðrum degi ársins tók Molaskrifari eftir þeirri breytingu í dagskrá morgunútvarps Rásar tvö hjá þeirri ágætu útvarpskonu Sigurlaugu M. Jónasdóttur að morgunbæn var flutt áður en veðurfregnir voru sagðar frá Veðurstofu Íslands klukkan 06 40. Þetta er rökrétt og skynsamleg breyting.
Það var ágætt hjá Ríkissjónvarpinu að sýna okkur Nýárstónleikana í Vín, en auðvitað hefðum við átt að fá að sjá þá í beinni útsendingu eins og nær allar Evrópuþjóðir , – og fleiri. Sömuleiðis var gott að sjá og heyra Jonas Kaufman. Í sameiningu verða Harpa og Ríkissjónvarpið að vinna að því að bæta lýsingu við upptökur af þessu tagi. Það er hægt annarstaðar. Það er örugglega líka hægt í Hörpu. Landinn og gæðingamyndin á undan tónleikunum stóðu líka fyrir sínu.
Margir hafa tekið undir þá gagnrýni Molaskrifara að það hafi verið frámunalega ósmekklegt að grínast með fjöldamorðin í Útey í Noregi í Áramótaskaupi Ríkissjónvarpsins á gamlárskvöld. Það var alvarlegur dómgreindarbrestur. Útvarpsstjóri er á öðru máli. Hann er ánægður með Skaupið. Og meira en það. Hann segir: Og ég veit um málsmetandi Norðmenn sem eru sama sinnis og ég. Málsmetandi Norðmenn sem eru hrifnir af því að tilvísun í voðaverk Breiviks í Osló og Útey, mestu hörmungar sem dunið hafa yfir norsku þjóðina frá stríðslokum, sé hluti af ,,skemmtiefni” í íslenska Ríkissjónvarpinu á gamlárskvöld ? Getur það verið? Molaskrifari leyfir sér að draga í efa að hér sé farið með rétt mál. Mikið væri annars fróðlegt ef þessir ,,málsmetandi Norðmenn” væru nú leiddir fram í dagsljósið og við fengjum að heyra þá lýsa ánægju sinni með tilvísunina til morðanna í Útey. Hvað heldur útvarpsstjóri að við séum?
Í fréttum Stöðvar tvö (01.01.2012) var sagt að áramótabrennur hefðu verið vinsælar líkt og von væri og vísa. Ekki fellir Molaskrifari sig allskostar við þetta orðalag. En kannski er það bara sérviska. Segja hefði mátt á áramótabrennur hefðu verið vinsælar að venju eða líkt og undanfarin ár. Orðatiltækið von og vísa er miklu fremur notað um persónur: Hún var stundvís eins og hennar var von og vísa. Stundvís eins og vænta mátti eins og var hennar háttur eða venja.
Það er kominn tími til að breyta til í sambandi við áramótaávörp forsætisráðherra og forseta. Þegar Molaskrifari átti sæti í útvarpsráði upp úr 1980 orðaði hann það þarna mætti breyta til, til dæmis um tímasetningar. Það fékk ekki hljómgrunn. Hann vill enn nefna hugmyndir til breytinga og leggur til:
Ávarp þjóðhöfðingjans ætti að vera síðdegis á gamlársdag. Til dæmis klukkan 17 00 eða 17 30 og ekki lengra en 15 mínútur. Þrátt fyrir ágæta leikhæfileika núverandi forseta eru 25 mínútur of langur tími. Það er ekki hve lengi talað er, heldur hvað sagt er sem skiptir máli.
Ávarp forsætisráðherra ætti að vera á Nýársdagskvöld. Á undan fréttum eða strax á eftir fréttum. Sama lengd. Ekki lengra en 15 mínútur. Efnislega var ekkert sérstakt um ræðu forsætisráðherra að þessu sinni að segja, en hinsvegar var þetta í fyrsta skipti í langan tíma sem Molaskrifari hefur heyrt forsætisráðerra flytja ræðu, venjulega les hún ræður. Framför.
Þá mætti líka breyta myndinni. Hún mætti stundum vera víðari, ekki alltaf óbreytt. Eins mætti alveg sjást að þeir sem töluðu væru með handrit eða blöð, – læsu ekki bara skjáskriftina beint. Ræðurnar eru ekki utanbókarlærðar ef einhver skyldi halda það. Það er ekkert að því að sjá að ræðumenn séu með skrifaða ræðu. Líklega hefur enginn flutt vel samdar og vel fluttar ræður blaðlaust síðan við nutum predikana Sigurbjörns Einarssonar biskups mörg aðfangadagskvöld á árum áður.
Fréttamaður Bylgjunnar sem í hádegisfréttum (02.01.2011) talaði um ríkið Arkansas í Bandaríkjunum ætti að fletta upp í framburðarorðabók. Þær eru til bæði prentaðar og á netinu (með hljóðdæmum). Það er ein algengasta framburðarvilla sem heyrist í fréttum að nafn þessa ríkis er rangt borið fram. Réttur framburður er : (akanso)
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
7 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Þorvaldur S skrifar:
04/01/2012 at 17:07 (UTC 1)
Reyndar má taka fram að það er ævagömul hefð að kalla það, sem núlifandi menn nefna Bandaríki N-Ameríku, Bandafylki. Er nóg að gúggla orðið og koma þá fjölmörg dæmi í ljós, reyndar flest frá 19. öld og eitthvað fram á þá tuttugustu.
Eiður skrifar:
04/01/2012 at 09:38 (UTC 1)
Kærar þakkir, Viðar. Þetta er hárrétt. Hér varð mér á í messunni. Þetta mun ég leiðrétta. Þakka þér ábendinguna.
Viðar Eggertsson skrifar:
04/01/2012 at 09:22 (UTC 1)
Sæll og gleðilegt ár.
Langar að vekja athygli þína á þessari setningu í upphafi pistils þíns:
„Á öðrum degi ársins tók Molaskrifari eftir þeirri breytingu í dagskrá morgunútvarps Rásar tvö hjá þeirri ágætu útvarpskonu Sigurlaugu M. Jónasdóttur að morgunbæn var…“
Hér hefur þér því miður skjölast. Rétt er að morgunbænin er flutt á Ras 1, eins og hefur verið frá því að elstu menn muna (eða hérum bil), en ekki á Rás 2.
Hafa skal það sem réttara er.
með kv.
Viðar Eggertsson
Eiður skrifar:
03/01/2012 at 22:55 (UTC 1)
Óvenjumargar athugasemdir hafa borist í dag og biðst ég velvirðingar á fremur síðbúnu svari. Þú sendir þessar línur síðdegis og ég svara þeim nokkrum klukkustundum síðar. Þú talar um ,,hefðbundinn fúkyrðaflaum´´ frá mér. Hvenær hef ég notað orðin ,,landráðamenn“ og ,, þjóðníðingar“? Vænt þætti mér um að þú tilgreindir það. Ég hef vitnað í menn sem kalla stuðningsmenn ESB aðildar landráðamenn, en engan hef ég nefnt slíku nafni eða kallað þjóðníðing, allavega rekur mig ekki minni til þess. Nefndu mér dæmin annars ert þú hreinlega að ljúga upp á mig. Það voru mistök að hafa tilvísun Úteyjarmorðin í Skaupinu. Öllum geta orðið á mistök, en það eru ekki allir menn til að viðurkenna eigin mistök. Því miður. Ég skora á þig á nefna þessa málsmetandi Norðm,enn sem voru svona ánægðir með Skaupið og tilvísunina í voðaverkin. Ég mun ekki víkja að þeim einu orði . Þú þarft ekki að nefna þá , – getur bara beðið þá sem Norðmenn að lýsa ánægju sinni með Skaupið og tilvísunina í voðaverkin . Annars falla orð þín dauð og ómerk. Þú biður mig að birta þetta á þeim vettvangi þar sem skrif mín hafa birst og það geri ég nú strax eins og þú biður um , – og þetta svar mitt.
Páll Magnússon skrifar:
03/01/2012 at 16:34 (UTC 1)
Sæll Eiður
Nú ætla ég mér ekki þá dul að hefja rökræður við þig, en höfum samt eitt alveg á hreinu: Ef fjöldamorðin í Noregi og fórnarlömb þeirra væru höfð í flimtingum í Áramótaskaupi þætti mér það jafn forkastanlegt og þér. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi ekki verið gert með þeirri setningu í Skaupinu sem skírskotaði til morðingjans. Í því felst væntanlega skoðanamunur okkar, – ekki í hinu hvort hafa megi þennan harmleik í flimtingum. Eða trúir þú því að þessi hópur ungs listafólks, sem skrifaði og leikstýrði Árámótaskaupinu í þriðja sinn, sé svo illa innrættur að hafa ætlað sér einmitt það?
Norðmönnunum umræddu vil ég ekki gera þann óleik að nefna, nema þá með sérstöku leyfi þeirra, því það myndi væntanlega kalla yfir þá hefðbundinn fúkyrðaflaum frá þér – á borð við „þjóðníðingar“, „landráðamenn“ eða eitthvað þaðan af verra.
Þú birtir þessa athugasemd væntanlega á þeim vettvangi sem þín eigin skrif um málið hafa birst.
Eiður skrifar:
03/01/2012 at 15:56 (UTC 1)
Takk fyrir þetta, Jóhannes. Ég hef stundum nefnt þetta með ríkin og fylkin og einmitt bent á að þetta heita ekki Bandafylki Norður Ameríku heldur Bandaríki Norður Ameríku..
Jóhannes Reykdal skrifar:
03/01/2012 at 12:51 (UTC 1)
Gott mál að benda á mismunandi framburð á heitum ríkja Bandaríkjanna. Annað sem má finna að er sá leiði siður á fréttastofum ljósvakamiðlanna að vera til skiptis að tala um ríki og fylki í Bandaríkjunum. Eins og nafnið ber með sér þá er þetta „ríkjasamband“ og því út í hött að tala um fylki. Á hinn bóginn hefur skapast sú málvenja að tala um fylki í Kanada.