«

»

Páll Magnússon sendir mér línu

Páll Magnússon útvarpsstjóri sendi mér þessar línur síðdegis í dag (03.01.2012) Sæll Eiður
Nú ætla ég mér ekki þá dul að hefja rökræður við þig, en höfum samt eitt alveg á hreinu: Ef fjöldamorðin í Noregi og fórnarlömb þeirra væru höfð í flimtingum í Áramótaskaupi þætti mér það jafn forkastanlegt og þér. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi ekki verið gert með þeirri setningu í Skaupinu sem skírskotaði til morðingjans. Í því felst væntanlega skoðanamunur okkar, – ekki í hinu hvort hafa megi þennan harmleik í flimtingum. Eða trúir þú því að þessi hópur ungs listafólks, sem skrifaði og leikstýrði Árámótaskaupinu í þriðja sinn, sé svo illa innrættur að hafa ætlað sér einmitt það?
Norðmönnunum umræddu vil ég ekki gera þann óleik að nefna, nema þá með sérstöku leyfi þeirra, því það myndi væntanlega kalla yfir þá hefðbundinn fúkyrðaflaum frá þér – á borð við „þjóðníðingar“, „landráðamenn“ eða eitthvað þaðan af verra.
Þú birtir þessa athugasemd væntanlega á þeim vettvangi sem þín eigin skrif um málið hafa birst.
Og ég svaraði Páli Magnússyni útvarpsstjóra í kvöld: Óvenjumargar athugasemdir hafa borist í dag og biðst ég velvirðingar á fremur síðbúnu svari. Þú sendir þessar línur síðdegis og ég svara þeim nokkrum klukkustundum síðar. Þú talar um ,,hefðbundinn fúkyrðaflaum´´ frá mér. Hvenær hef ég notað orðin ,,landráðamenn“ og ,, þjóðníðingar“ sem þú skrifar innan gæsalappa eins um beina tilvitnun í skrif mín sé að ræða? Vænt þætti mér um að þú tilgreindir það. Hvern eða hverja hef ég kallað þessum nöfnum ? Ég hef vitnað í menn sem kalla okkur stuðningsmenn ESB aðildar landráðamenn, en engan hef ég nefnt slíku nafni eða kallað þjóðníðing, allavega rekur mig ekki minni til þess. Nefndu mér dæmin annars ert þú hreinlega að ljúga upp á mig.
Það voru mistök að hafa tilvísun í Úteyjarmorðin í Skaupinu. Öllum geta orðið á mistök, en það eru ekki allir menn til að viðurkenna eigin mistök. Því miður. Ég skora á þig að nefna þessa málsmetandi Norðmenn sem voru svona ánægðir með Skaupið og tilvísunina í voðaverkin. Ég mun ekki víkja að þeim einu orði . Þú þarft ekki að nefna þá , – getur bara beðið þá sem Norðmenn að lýsa ánægju sinni með Skaupið og tilvísunina í voðaverkin . Annars falla orð þín dauð og ómerk. Þú biður mig að birta þetta á þeim vettvangi þar sem skrif mín hafa birst og það geri ég nú strax eins og þú biður um , – ásamt þessu svari mínu.

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Valbjörn Jónsson sendi mér eftirfarandi athugasemd í tölvupósti:
    ,,Ýmislegt var ósmekklegt í Áramótaskaupinu . „Norska grínið þó alveg gjörsamlega fyrir neðan allar hellur. Yfirklór Páls Magnússonar frekar aumlegt. Það var full þörf á að vekja athygli á þessari vitleysu. bestu þakkir fyrir það. Kv Valbjörn Jónsson

  2. Eiður skrifar:

    Þetta er kjarni málsins, Kjartan, en sumum virðist fyrirmunað að skilja það.

  3. Kjartan Valgarðsson skrifar:

    Ímyndum okkur að 10 íslenskir unglingar hefðu verið skotnir af brjálæðingi vegna skoðana sinna.

    Í næsta áramótaskaupi væri svo atriði um aukinn straum ferðamanna til Íslands, og þar myndu fulltrúar Ferðamálaráðs bjóða ferðamennina velkomna til landsins í Leifsstöð og legðu áherslu á öryggið í landinu:

    „„Við tökum þó ekki ábyrgð á innfæddum, sinnissjúkum karlmönnum á miðjum aldri, sem skjóta þig, og eða sprengja húsið þitt í tætlur með áburðarsprengju.“

    Væri þetta ekki ógeðslega fyndið?

  4. Eiður skrifar:

    Sæll Páll, – ekki nenni ég að eltast við útúrsnúninga þína. Það er óumdeilt að þú sagðir málsmetandi Norðmenn hafa lýst ánægju með Skaupið, – og þá auðvitað líka tilvísunina til voðaverkanna í Útey fyrst það var ekki undanskilið sérstaklega. Þetta voru mistök og þú átt að vera maður til að viðurkenna það.
    Með notkun gæsalappa um orðin landráðamaður og þjóðníðingur ertu að segja lesendum að einmitt þessi orð hafi ég notað. Það eru hrein ósannindi og þér ekki sæmandi. Þú leggur mér þessi orð í munn og það er ekki stórmannlegt.

  5. Eiður skrifar:

    Það var dómgreindarbrestur og hörmuleg mistök að vísa til voðaverkanna í Útey í Áramótaskaupi Ríkissjónvarpsins og hafa fjöldamorð í flimtingum. Yfirmenn stofnunarinnar ( sem útvarpsstjóri kallar nú ,,félagið“) virðast ekki geta viðurkennt að þeim hafi orðið á mistök. Það finnst mér ekki stórmannlegt. Þeir ættu að biðjast afsökunar á þessum mistökum. Þar með væri málinu væntanlega lokið. Ekki þarf að efa að norska sendiráðið í Reykjavík hefur sagt norska utanríkisráðuneytinu frá framferði Ríkissjónvarpsins og ánægju útvarpsstjórans með þetta allt saman.

  6. Bernharð Hjaltalín skrifar:

    Harmleikurinn í Útey var það alvarlegur að norska stórþingið ásamt embættismönnum
    hefði átt að koma saman eitt mál á dagskrá, Dauðadómur þetta sagði ég strax við vitum hvernig blaðamenn hafa matreitt harmleikinn til að selja blaðið og svona mun það halda áfram, þeir sem lifðu af sjá hann daglega fyrir sér morðinginn á leið í réttarsal eða frá réttarsal í fangelsið. Síðan má ekki gleyma því að margir ungir blaðamenn leikarar og handritshöfundar eru komnir (in) út í hið ljúfa líf.

  7. Páll Magnússon skrifar:

    Sæll aftur Eiður

    Í þessu svari þínu kristallast nákvæmlega ástæðan fyrir því að það er til lítils að rökræða við þig yfirleitt. Þú gerir mönnum upp orð og ferð síðan eiginlega að rífast við sjálfan þig um eitthvað sem enginn hefur haldið fram.

    Í fyrsta lagi hef ég hvergi sagt að títtnefndir Norðmenn hafi lýst „… ánægju sinni með Skaupið og tilvísunina í voðaverkin“. Ég sagði þá einungis deila þeirri skoðun minni að í umræddri skírskotun fælist ekki að fjöldamorðin og fórnarlömb þeirra hefðu verið höfð í flimtingum. Á þessu tvennu er eðlismunur – þótt þú virðist ekki henda reiður á því.

    Í öðru lagi segi ég hvergi í athugasemd minni að þú hafir notað þessi tvö tilteknu orð – þjóðníðingar og landráðamenn – heldur að viðlíka orðaleppa væri að vænta frá þér ef menn leyfðu sér að stíga fram og vera þér ósammála.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>