«

»

Molar um málfar og miðla 804

Ótrúlegt var að hlusta á það í fréttum Stöðvar tvö (03.01.2012) hvernig borgaryfirvöld í Reykjavík þvælast fyrir og tefja að ráðist verði í löngu tímabærar lagfæringar á skúraklasanum frá stríðsárunum sem hýsir farþegaafgreiðslu innanlands- og millilandaflugs á Reykjavíkurflugvelli. Hreint ótrúlegt. Borgaryfirvöld hafa dregið það í átta mánuði að afgreiða einfalt mál. Þetta er ámælisverð stjórnsýsla að ekki sé meira sagt. Eru andstæðingar flugvallarins í borgarstjórn Reykjavíkur í hernaði gegn fólkinu sem þarf að nýta sér flugið og fólkinu sem vinnur þarna við gjörsamlega óviðunandi aðstæður ? Þarna eru pólitíkusar og embættismenn sem vinna samkvæmt skipunum þeirra að vinna skemmdarverk.

Molavin sendi eftirfarandi: Svo segir í fyrirsögn á Netmogga: Innlent | Morgunblaðið |3.1.2012
,,Upplýstu stórfelld svik
Sögnin að „upplýsa“ (e-n um e-ð) er áhrifssögn og því er eðlilegt að skilja fyrirsögnina sem svo að stórfelld svik hafi verið upplýst um eitthvað mikilvægt. Svo er vitaskuld ekki. En þarna er á ferð dæmi um vaxandi tilhneigingu fólks, sem hefur það að starfi að upplýsa þjóðina um viðburði, til að nota helzta verkfæri sitt, móðurmálið, með röngum og villandi hætti. Slysum er forðað (undan hverju?) og verzlanir loka eða skíðasvæði opna, svo fátt sé talið. Þetta kann að hljóma sem nöldur, en dropinn holar steininn. Metnaðarleysi stjórnenda fjölmiðla er trúlega mesta hættan, sem nú steðjar að framtíð móðurmálsins. Ekki myndi ég vilja sjá sama metnaðarleysi í heilbrigðisþjónustunni og ríkir meðal eigenda og stjórnenda fjölmiðla.
Með áramótakveðju, Molavin.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

Hverskonar bjálfagangur er það þegar fjölmiðlar ( Stöð tvö til dæmis) tala um það sem ,,alvörufrétt’’ hvort Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík muni bjóða sig fram til embættis forseta Íslands? Fréttastofan hefur greinilega ekki mikið álit á okkur sem horfum á fréttirnar.

Fjölmiðlar hafa gert mikið úr ummælum formanns Viðskiptaráðs um að skattar hafi verið hækkaðir hundrað sinnum á tilteknu tímabili. Vissulega er það ekki fyrirmyndar. Svo sannarlega ekki. En skiptir ekki meira máli hve mikið skattarnir voru hækkaðir fremur en hve oft þeir voru hækkaðir ?

Stúlkan var á Akranesi ásamt móðir sinni, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (02.01.2012) Þágufallssýkin er að verða regla. Slæmt.

visir.is (03.01.2012). Þar segir: Um tuttugu tonn af dauðri síld skolaði upp að ströndinni í sveitarfélaginu Nordreisa í Norður-Noregi í gærmorgun. Þetta hefði betur mátt segja með öðrum hætti. Til dæmis: Um tuttugu tonn af dauðri síld bárust upp í fjöru í sveitarfélaginu…. Eða: Um tuttugu tonn af dauðri síld rak á land eða upp í fjöru …

Síðasta sumar sagði fréttaþulur í tíufréttum Ríkissjónvarps (03.01.2012). Í fyrra, sagði Jóhann Bjarni Kolbeinsson fréttamaður í fréttinni. Takk fyrir það.

Leiðrétting: Í Molum um málfar og miðla 803 talaði Molaskrifari um morgunbæn á Rás tvö í Ríkisútvarpinu. Það átti að sjálfsögðu að vera á Rás eitt og leiðréttist það hér með.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Það er hárrétt að það er auðvitað bara bull að tala þarna um þágufallssýki og biðst ég velvirðingar á því. Þarna notaði fréttamaður nefnifall þar sem átti að nota þágufall. Stúlkan var á Akranesi ásamt móður sinni, ekki móðir sinni eins og greinilega var sagt. Þetta snerist svona illilega við í hausnum á Molaskrifara !

  2. h skrifar:

    „Sögnin að „upplýsa“ (e-n um e-ð) er áhrifssögn og því er eðlilegt að skilja fyrirsögnina sem svo að stórfelld svik hafi verið upplýst um eitthvað mikilvægt.“

    Áhrifssögn er sögn sem tekur með sér andlag. Í þessu tilfelli eru „stórfelld svik“ einmitt þetta andlag. Hins vegar vantar í þessa setningu frumlag en slíkt er alvanalegt í fréttafyrirsögnum.

    „Stúlkan var á Akranesi ásamt móðir sinni, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (02.01.2012) Þágufallssýkin er að verða regla. Slæmt.“

    Getur molaskrifari upplýst okkur fáfróðan pöpulinn um það í hverju þágufallssýki felst og hvernig hún kemur við sögu í dæminu sem nefnt er?

  3. Þorvaldur S skrifar:

    „,,Upplýstu stórfelld svik
    Sögnin að „upplýsa“ (e-n um e-ð) er áhrifssögn og því er eðlilegt að skilja fyrirsögnina sem svo að stórfelld svik hafi verið upplýst um eitthvað mikilvægt. Svo er vitaskuld ekki….“
    Hér er misfarið með. „Að upplýsa“ þýðir frá fornu fari m.a. að leiða sannleika um mál í ljós, sjá t.d. orðabók félaga Marðar. Í ungdæmi Eiðs tíðkaðist að menn segðu, hafandi fengið svar við spurningu sinni: „Upplýst með svarinu“, teldu þeir svarið fullnægjandi. Það er því viðurkennt, viðeigandi og í samræmi við hefð að segja að einhverjir hafi upplýst stórfelld svik.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>