«

»

Molar um málfar og miðla 838

Í kvöldfréttum Ríkisjónvarpsins (08.02.2012) var sagt frá  nýjum drögum að frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið. Í fréttinni var aftur og  aftur talað um Rúv og aftur Rúv. Það er í fullu samræmi við bann útvarpsstjóra við notkun hins rétta heitis stofnunarinnar, sem  að lögum heitir  Ríkisútvarpið. Á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins er hægt að fræðast  frekar um þetta mál. Þar  er ekkert sem heitir  Rúv. Þar er  talað um Ríkisútvarpið. http://www.menntamalaraduneyti.is/  Nú þarf menntamálaráðherra að  kenna yfirmönnum í Efstaleiti hið rétta nafn stofnunarinnar sem þeim hefur  verið trúað fyrir. Það er auðvitað ekkert að því að nota þessa skammstöfun á  skjánum og  í  erlendum samskiptum. En það hefur enginn heimilað  útvarpsstjóra  að banna orðið Ríkisútvarp. Það er hið mesta óþurftarverk. 

Fram hefur komið að í þessum  nýju lagadrögum sé útvarpsstjóra bannað að lesa fréttir. Það er auðvitað arfavitlaust.   Það er væntanlega svolítil  búbót að lesa fréttir og útvarpsstjóri  er fínn  fréttalesari. Ef til vill lætur honum það betur en að stjórna stórri stofnun.

 

Á hlaupum heyrði Molaskrifari (09.02.2012) einhvern segja í  Morgunútvarpi Bylgjunnar að  verðtryggingin væri eins og  geislavirkur úrgangur.  Líklega veit sá sem þetta sagði lítið um geislavirkan úrgang og ekkert um þau áhrif sem hann  hefur  á fólk. Og líklega man    sá sem þetta sagði ekki svo  langt aftur til þess tíma að óðaverðbólgan  brenndi  sparifé um leið og það var lagt í banka þannig að  sparnaður í landinu  var nánast enginn.  Sparnaður byrjaði ekki að myndast fyrr en verðtrygging kom til skjalanna.

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (09.02.2012) beindi fréttamaður tveimur spurningum til fulltrúa Lista Kópavogsbúa. Bæjarfulltrúinn svaraði hvorugri spurningunni og fréttamaður lét sér það vel líka.

 

Báðar standa   fréttastofur  sjónvarpsstöðvanna sig  vel í því að fjalla um fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Ekki var Ögmundur Jónasson öfundsverður í kvöld  frekar en  fyrri daginn eftir   frétt Svavars  Halldórssonar í fréttatíma  Ríkisjónvarpsins!  Jón Baldvin og Jóhanna   komu skemmtilega  við sögu í fréttum Ríkissjónvarpsins. Jón Baldvin var eini þingmaðurinn sem  greiddi atkvæði gegn því að lífeyrissjóðum  væri gefi  gefinn laus taumurinn  til  að braska og  Jóhanna  sagðist ætla að  feta í fótspor ömmu sinnar ,  Jóhönnu Egilsdóttur og halda áfram þangað  til hún yrði hundrað ára.  Ekki hefur líklega öllum verið skemmt  yfir þessari yfirlýsingu ! Nú  hefur Ögmundur mestar áhyggjur af því að ef útlendingur fær  land á leigu hjá  sveitarfélagi fyrir norðan þá sé það eins og hann  kallar ígildi eignarhalds. Maður gæti haldið að Ögmundi væri illa við útlendinga.

 

Föstudagsstórmynd Ríkissjónvarpsins I Hate Valentine´s Day fær einkunnina    4,5 (af 10,0) á Internet Movie  Database.  Líklega er  Ríkissjónvarpið að minna fólk á  amerískan (hátíðis)dag, Valentínusardag,  sem er 14. febrúar og  nokkrir  fjölmiðlamenn og kaupsýslumenn hafa verið að reyna að innleiða á Íslandi. Það er svo sem algjör óþarfi. Ríkissjónvarpið þarf ekki að taka þátt í þeim leik með því að sýna okkur lélega kvikmynd.

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.  Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar  athugasemdir eða athugasemdir  undir dulnefni. – . ESG

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þakka þér orðin, Jón. Þetta orð ,,sjálfumhirðu“ hef ég aldrei ,heyrt. Bara bull ! Hagkaup geta ekki afnumið virðisaukaskatt af einu eða neinu. Fyrirtækið getur hinsvegar veitt afslátt sem nemur vsk prósentunni. Meiri vitleysan sem þetta er.

  2. Jón Sveinsson skrifar:

    Sæll Eiður. Það er nokkuð síðan ég sendi þér línu síðast, en nú langar mig að taka undir það sem þú hefur verið að skrifa um Skálholt og „kofann“ sem þar er risinn við hliðina á kirkjunni. Mér finnst þessi verknaður fyrir neðan allar hellur, allavega hvað varðar staðsetninguna og þá á meðan byggingu stóð, hve fornaldarleg vinnubrögð voru viðhöfð, sennilega til að gera „kofann“ enn dýrari en ella.
    Nú meginástæðan mín fyrir skrifum mínum í dag er orðalag í auglýsingu Hagkaupa í fréttablaðinu 09.02.2012. Auglýsingin varðaði snyrtivörur. Neðst á síðunni mátti lega þetta “ Fríhafnardagar dagana dagana.9.-12. febrúar afnemum virðisaukaskatt af öllum sérsnyrtivörum*. * Gildir ekki um sjálfumhirðu snyrtivörur (sjampó, dömubindi, rakvörur,sápur, tannvörur ofl.) Ja hérna alltaf lærir maður nú eitthvað nýtt í íslensku máli ! Orðið sjáfumhirðu hef ég ekki heyrt eða lesið áður og skil ekki vel. Hvernig á maður að skilja það, þegar þessar upptaldar vörur virðast eiga þetta sameiginlegt ? Að vera sjálumhirðulegar. Geturðu frætt mig fáfróðan manninn ? Kv. J.Sv.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>