«

»

Molar um málfar og miðla 840

Molaskrifari fékk sér gönguferð á laugardagsmorgni (11.02.2012) og hlustaði á Vikulokaþátt Rásar eitt. Í þátttakendavali hafa umsjónarmenn Vikulokanna gjarnan asklok fyrir himin og eru hreint alveg að drepast úr nýjungagirni. Þátttakendur voru Birgitta Jónsdóttir, Hreyfingin, Sigurður Þ. Ragnarsson, fulltrúi Lilju Mósesdóttur (Samstaða, – eitthvað óljóst hver á mest tilkall til þess nafns) og Guðmundur Steingrímsson frá Bjartri framtíð. Hallgrímur Thorsteinsson sletti á okkur ensku þegar hann sagði : Er þetta ekki bara two point o ? Efast um að allir hlustendur hafi skilið hvað hann átti við. Enskukunnátta á ekki að vera skilyrði þess að geta notið efnis í Ríkisútvarpinu. Þetta voru annars mjög hefðbundnar pólitískar umræður, en umsjónarmaður á ekki að segja okkur hlustendum að Liljuflokkurinn hafi fengið 20 prósent plús fylgi í skoðanakönnun. Bera tölurnar ekki með sér að það voru milli 80 og hundrað manns sem hugsanlega lýstu stuðning við flokkinn? Rúmlega 20% fylgi er bara bull í þessu samhengi. Birgitta Jónsdóttir talaði um gjörvallan þinghóp Hreyfingarinnar! Eru þau ekki þrjú? Rætt var um verðtryggingu sem Hreyfingin og Liljuflokkurinn vilja afnema. Setjum svo að Molaskrifari hefði fengið lánaða 25 lítra af bensíni að verðmæti 5000 krónur hjá Sigurði Þ. Ragnarssyni fulltrúa Liljuflokksins þegar bensínlíterinn kostaði 200 krónur. Væri Sigurður ánægður ef ég borgaði honum nú með 20 lítrum af bensíni sem fást fyrir 5000 krónur þegar verð eins líters er komið upp í 250 krónur? Auðvitað ekki. Um þetta snýst verðtryggingin. Gjalda sömu verðmæti til baka. Guðmundur Steingrímsson var sá eini sem sagði eitthvað vitrænt um verðtrygginguna. Og svona til að undirstrika fjölbreytnina í vali þátttakenda sagði Sigður Þ. Ragnarsson hlustendum að hann yrði í Silfri Egils í Ríkissjónvarpinu daginn eftir. Fáránlegt. Svo vaknar sú spurning í lokin hversvegna er svona þáttur notaður til að auglýsa tónleika sem eru nátengdir einum þátttakenda? Vikulokin eiga ekki að vera auglýsingatími.

Það kemur fyrir að Molaskrifari er svolítið ruglaður í ríminu þegar hann vaknar á morgnana. Þetta var óvenju slæmt að morgni mánudagsins (13.02.2012). Umsjónarmaður Rásar tvö tilkynnti hátíðlega klukkan 0645 að upp væri runninn 15. febrúar. Þegar fréttir hófst klukkan 07 00 sagði fréttamaður okkur að í dag væri 13. febrúar. Það var nær lagi. En að loknum fréttum ítrekaði umsjónarmaður morgunútvarps að í dag væri 15. febrúar. Nú fóru að renna tvær grímur á nývaknaðan Molaskrifara. Greinilega var risin alvarleg deila í Ríkisútvarpinu í Efstaleiti. Það var ekki sami dagur í hljóðstofu Rásar tvö og á fréttastofunni. Sem betur fer var þetta leiðrétt þegar klukkan var farin að halla í hálf átta. Það var 13. febrúar. Molaskrifari var ekkert ruglaður í ríminu eða í rúminu.

Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (06 00 11.02.2012) var sagt: Tillögum Obama er beðið með óþreyju … Hér átti að segja: Tillagna Obama er beðið með óþreyju. Einhvers er beðið. Í þessum sama fréttatíma var sagt: Vefsíða bandarísku leyniþjónustunnar CIA lá niðri í marga klukkutíma … Molaskrifari er ekki sáttur við þetta orðalag. Betra hefði verið að segja að vefsíðan hefði verið óvirk í marga klukkutíma eða að hún hefði lokast vegna árása tölvuþrjóta. Talað er um að leggja niður starfsemi. Og einnig er sagt að starfsemi hafi legið niðri í mörg ár. En þótt eitthvað bili eða verði óvirkt um stundarsakir eins og sími , rafmagn, umferðarljós eða vefsíða í þessu tilviki er hæpið að tala um að það liggi niðri. Og enn var í þessum fréttatíma talað um stjórnarráðið þegar átti að segja stjórnarráðshúsið.

Í framhaldi af stjórnarráðshúsinu: Svo er sagt að þegar Helgi Sæmundsson var ritstjóri Alþýðublaðsins fyrir meira en hálfri öld og Krústjov var upp á sitt besta í Sovétinu hafi nafn hans verið skrifað á þrjá eða fjóra mismunandi vegu í Alþýðublaðinu sama daginn. Helga var nóg boðið og hann tók sig til , gekk milli blaðamanna og setjara með miða með nafni Krústjovs og sagði: ,,Hér eftir verður nafn aðalritarans skrifað svona !” Fréttastjóri Ríkisútvarpsins ætti kannski að beita sömu aðferð til að koma fólki sínu skilning um að stjórnarráðið er eitt , stjórnarráðshúsið annað.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Rétt ábending, Lilja.

  2. Lilja skrifar:

    Ein lítil spurning til þín Eiður varðandi bensínLÍTERINN þinn. Í æsku var mér kennt að tala um lítra en ekki líter og það samræmist því sem sjá má á vef Stofnunar Árna Magnússonar.

  3. Björn S. Lárusson skrifar:

    Allt í lagi með að verðtryggja lán en, ef laun mín hækka einnig samkvæmt lánskjaravísitölu og gengi þá er ég sáttur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>