«

»

Kreppan og ferðalögin

Margir þeirra sem eingöngu lesa leiðara og Staksteina Morgunblaðsins og hlusta á Útvarp Sögu trúa því örugglega staðfastlega að flestar fjölskyldur á Íslandi búi við neyð og hér ríki hungursneyð af völdum illa innrættra stjórnmálamanna, -einkum þeirra sem nú fara með völd. Ekki þeirra sem ollu hruninu. Það á að vera gleymt. Þeir trúa því líka að forstjóri Fjölskylduhjálparinnar brauðfæði hálfa þjóðina og forsetinn á Bessastöðum sé bjargvættur þjóðarinnar, þegar hann drepur hér niður fæti milli þess sem hann situr kóngaveislur í útlöndum og skoðar mörgæsir á Suðurskautslandinu með vini sínum Al Gore. En er þetta svona? Vissulega urðu ýmsir að ósekju illa fyrir barðinu á hruninu, ekki er það dregið í efa eða gert lítið úr því. Fleiri eru þeir þó væntanlega sem ætluðu að græða á lágu gengi , kunnu sér ekki hóf í fjárfestingum hvort sem það voru bílar, Range Roverar, Land Cruiserar eða fjögur hundruð fermetra hallir.
Sumt fólk og sumir fjölmiðlar tala nefnilega þannig að fram að hruninu hafi það verið óþekkt fyrirbæri að einstaklingar Íslandi yrðu gjaldþrota. Líka hafi það verið óþekkt að fólk missti húsnæði vegna skuldaklafa og vanskila. Enginn hafi verið borinn út og húseignir aldrei seldar á nauðungaruppboðum. Því miður var þetta ekki þannig. Fyrir hrunið voru íslenskar fjölskyldur skuldsettastar allra fjölskyldna í OECD ríkjunum. Öll þekkjum við fólk sem verið hefur í fjárhagsvandaræðum löngu, löngu fyrir hrunið. Sumir einstaklingar eru reyndar sífellt í fjárhagsvandræðum. Þannig er það núna og þannig hefur það alltaf verið. Þetta vitum við öll.
Varla er það kreppumerki nú um stundir sem greint er frá á mest lesna fréttavef landsins (14.02.2012), mbl.is. : Tæplega níu af hverjum tíu Íslendingum ferðuðust innanlands í fyrra, sem er svipað og árin á undan. Tæplega tveir þriðju aðspurðra ferðuðust til útlanda á árinu 2011, eða 63,3%, en var 56,3% í sambærilegri könnun fyrir ári síðan. Ekki er að greina miklar breytingar í ferðaáformum fólks fyrir nýbyrjað ár en langflestir hafa ferðalög af einhverju tagi á stefnuskránni.
Því ber að fagna að svo margir hafi getað ferðast hér innanlands og skoðað landið sitt. Líka ber að fagna því að tæplega tveir þriðju þeirra sem spurðir voru höfðu getað brugðið undir sig betri fætinum og farið út fyrir landsteinana.
Líklega ættu þeir sem skrifa leiðara og Staksteina Morgunblaðsins að lesa mbl.is sér til fróðleiks og andlegrar uppbyggingar og hlusta minna á ruglið og rangfærslurnar sem of oft heyrast í Útvarpi Sögu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>