Molalesandi vakti athygli á auglýsingu í Fréttablaðinu (09.05.2012) frá fyrirtækinu the Pier. Þar er talað um 25% afslátt f sumrinu. Molalesandi veltir því fyrir sér hvað þetta þýði. Þýðir þetta að sumarið verði stytt um 25%? Hvað er átt við? Ekki er nema von að spurt sé.
Sagt var í fréttum Stöðvar tvö (09.05.2012) , að því aukist biðin. Ekki er rétt að tala um að bið aukist. Bið lengist þegar einhvers er beðið sem dregst á langinn.
Hin nýja verslun Bauhaus heldur áfram með enskuslettuna um drive-in timbursölu. Fyrirtækið ætti að sjá sóma sinn í að auglýsa á íslensku og sleppa slettunni.
Nú þarf Molaskrifari að leita skýringa: Hvað þýðir það að körfuboltalið sé með bakið upp við vegg? Þannig var tekið til orða í íþróttafréttum Stöðvatr tvö á miðvikudagskvöld (09.05.2012)
Enn er vitnað í fréttir Stöðvar tvö þetta sama kvöld. Þá settist fréttamaður Stöðvarinnar við barinn á nýju hóteli í Reykjavík og skálaði við áhorfendur. Hvaða rugl er þetta? Þessi áfengis- og barauglýsing átti ekkert erindi í fréttir. Hver var fréttin? Þetta var ósköp hallærislegt,- jafnvel þótt fréttamanninum hafi verið gefið í glas.
Anna Mjöll er komin á fast, segir í fyrirsögn á mbl.is (09.05.2012). Hvílíkur léttir fyrir þjóðina að fá þessar mikilvægu fréttir !
Gott hjá DV (09.05.2012) að halda áfram umfjöllun um Giftarmálið svokallaða. Það snýst um sjálfkjörnu Framsóknarforkólfana sem sólunduðu milljörðum úr dánarbúi hins gagnkvæma tryggingarfélags Samvinnutrygginga.Þetta voru milljarðar sem tryggingatakar, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar áttu. Framsóknarforingjarnir fóru létt með að láta sjóðina hverfa. Haldið þeim við efnið DV-menn.
Það er hæpin fyrirsögn hjá mbl.is (10.05.2012) þegar sagt er: Hjólreiðafólk veldur usla í umferðinni. Í fréttinni er sagt frá tveimur óhöppum sem urðu vegna þess að hjólreiðafólk virti ekki umferðarreglur eða hjólaði ógætilega.
Usli er tjón, skaði eða óskundi.
Hér hefur oft verið amast við bjórauglýsingum í sjónvarpi. Þar er bjór auglýstur undir yfirskini léttöls. Frumvarp til laga sem mundi útiloka slíkar auglýsingar er nú til umfjöllunar á Alþingi. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem sæti eiga í nefndinni sem fjallar um málið eru andvígir frumvarpinu og hliðhollir áfengisauglýsingum. Finnst þeim það til bóta að bjórdrykkja sé lofuð linnulaust í sjónvarpsauglýsingum á þeim tímum sem börn eru að horfa á sjónvarp? Sennilega.. Eru það frjálshyggjan og markaðshyggjan sem ráða ferðinni eða hvað?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Atli skrifar:
20/05/2012 at 16:11 (UTC 0)
Hér skrifar þú: „Hvílíkur léttir fyrir þjóðina að fá þessar mikilvægu fréttir !“
Hvers vegna seturðu bil á milli málsgreinarinnar og upphrópunarmerkisins?
Kristján skrifar:
13/05/2012 at 14:09 (UTC 0)
„Með bakið upp við vegg“ er ofnotaðasti leiðindafrasinn í boltaíþróttum í dag. Auðvitað bein þýðing úr enskunni eins og: „Hann þarf að stíga upp og sýna úr hverju hann er gerður“. Það er kannski í lagi að nota þann frasa n.k. fimmtudag (Uppstigningardag).
EM í knattspyrnu hefst í júní. Þá verður bjórauglýsingaflóð, hér – á RÚV !