«

»

Molar um málfar og miðla 915

Danska ríkissjónvarpið (DR2) sýndi merkilega heimildamynd á mánudagskvöldið (21.05.2012). Myndin var bresk, gerð fyrir Channel 4. Á ensku hét hún: Oligart: The Great Russian Artboom, en Danir kölluðu hana Oligarker på kuntsköb. Þar sagði frá listaverkakaupum rússneskra auðmanna sem kaupa nú listaverk fyrir milljónir sterlingspunda,sem óðir séu. Þeir eru meðal annars eru að endurheimta verk rússneskra listamanna og koma þeim á heimaslóðir. Meðal þeirra sem komu við sögu í myndinni var maðurinn sem Ólafur Ragnar var að nudda sér utan í og fékk far hjá í einkaþotu, svo sem frægt er að endemum , einn ríkasti maður í heimi, Roman Abramovich (auður hans er metinn á 23.5 milljarða dollara). Þetta var einkar fróðleg mynd og meðal annars var ( að sjálfsögðu) komið við hjá hinu fræga uppboðsfyrirtæki Sotheby´s í London.
Í viðtali við talsmann fyrirtækisins voru menn til hliðar á skjánum að bjástra við stórt olíumálverk, sem undirritaður er handviss um að var eftir Karólínu Lárusdóttur. Raunar brá einnig fyrir í bakgrunni öðru olíumálverki, sem einnig bar öll merki Karólínu. Molaskrifara þótti þetta svo merkilegt að hann horfði aftur á hluta þáttarins í seinkaðri útsendingu og ekki var um að villast að hans mati. Karólína er öndvegismálari. Hún fann hins vegar ekki náð fyrir augum þeirra sem skrifuðu fimm binda Listasögu Íslands sem nýlega kom út. Hennar er þar að engu getið. Frekar en hún hafði aldrei fæðst, eða lyft pensli. Veldur því líklega þröngsýni blönduð dágóðri skvettu af öfund. Undarlegt og óskiljanlegt, en líklega gott dæmi um íslenska smæð.

Af pressan.is (20.05.2012) Leki hafði komið að skipinu og þegar björgunarsveitarmenn komu að skipinu var tæplega eins metra hár sjór í vélarrúmi. Það var sem sagt hásjávað í vélarrúminu ! Hér hefði frekar átt að tala um dýpi en hæð.

Auglýsing í hádegisútvarpi Ríkisútvarpsins (21.05.2012) Yellow is the new black, – Höggmyndagarðurinn. Samkvæmt reglunum eiga auglýsingar í Ríkisútvarpinu að vera á íslensku. Auglýsingadeild Ríkisútvarpsins þarf ekki að fara eftir neinum reglum.

Fréttablaðið greinir frá því á forsíðu (22.05.2012) að fundist hafi mikið magn af maríjúana á floti undan strönd Kaliforníu. Í fréttinni segir: Notast þurfti við þrjú stór hafnarskip til að veiða bögglana úr sjónum og flytja þá til lands. Ekki veit Molaskrifari hverskonar skip hafnarskip eru. Efast raunar um að sá sem fréttina skrifaði hafi haft hugmynd hverskonar fleytur þetta voru sem hann kallar hafnarskip.

Áhugavert og ágætt samtal þeirra Haraldar Sigurðssonar jarðvísindamanns og Helga Seljan í Kastljósi (21.05.2012) um undraheima undirdjúpanna. Ekki spilltu myndirnar.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Það erum umfram allt, Kristján, auglýsingadeildin og íþróttadeildin sem ráða fyrirkomulagi og framsetningu dagskrár. Það er löngu sannað.

  2. Eiður skrifar:

    Rétt athugað, Konráð.

  3. Kristján skrifar:

    Í gærkvöld var Eurovision á dagskrá. Áhorfendur um alla evrópu sáu mikið „show“ frá gestgjöfunum í Aserbadjan í beinni útsendingu, nema hér (hik) á RÚV. Þar voru bara auglýsingar og aftur auglýsingar. Við skiptum því yfir á erlenda stöð til að horfa á.

    Segjum svo að Eurovision keppnin færi einhverntíma fram á Íslandi. Myndi okkur ekki þykja það argasti dónaskapur af erlendri sjónvarpsstöð að sýna ekki menningarlegt og tilkomumikið tónlistaratriði Íslendinga í beinni útsendingu, heldur skipta yfir í auglýsingar ?

  4. Konráð Erlendsson skrifar:

    ,, Í fréttinni segir: Notast þurfti við þrjú stór hafnarskip til að veiða bögglana úr sjónum“

    Ég hefði líka gert athugasemd við orðalagið að notast við. Nú eru flestir hættir að nota hluti en í þess stað notast þeir við þá. Í mínu máli þýðir þetta ekki það sama. Ég notast við eitthvað ef ég á ekki kost á öðru betra sem ég hefði viljað nota.

    K.

  5. Eiður skrifar:

    Ekki hef ég hugmynd um það. Hef notað þetta óbeygt frá upphafi. Ekki þar með sagt að sé rétt. Öldungis ekki.

  6. Yngvi Högnason skrifar:

    Hver er það sem ákveður að ekki megi beygja í ritmáli orð sem hafa endinguna : .is? Ég les um margt í Fréttablaðinu og ég les einnig á pressunni.is og visi.is.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>