Í sjöfréttum Ríkisútvarpsins (23.05.2012) var talað um bát sem væri vélarvana austur af Reykjanesi. Hvar skyldi hann hafa verið? Lítið á landabréf. Sama dag var í DV sagt frá flugvél sem, lenti með veikan farþega á Keflavíkurflugvelli. Vélin var sögð á leið frá Austurríki til Riga í Lettlandi. Og hafði viðkomu á Íslandi ! Greinilegt er að hefja þarf kennslu í landafræði í grunnskólum landsins.
Það er fast orðatiltæki að tala um það þegar einhver er fermdur að hann eða hún sé tekin í tölu kristinna manna. Ríkissjónvarpið breytti þessu orðatiltæki í fréttum (22.05.2012). Þar var ítrekað tala um að taka í tölu kristinna. Þessari breytingu, sem ekki er til bóta, veldur líklega hræðsla við málfarsfemínista, sem hatast sumir hverjir við það að orðið maður sé notað um konur. Það er rétt og eðlilegt að tala um að stúlkur séu teknar í kristinna manna tölu, því samkvæmt íslenskri málvenju fornri og nýrri eru konur menn.
Í fréttum Ríkissjónvarpsins var Björg Thorarensen lagaprófessor rödd skynseminnar ( ekki í fyrsta skipti) þegar hún fjallaði um völd forseta Íslands. Tímabær ummæli til að slá á rugl sumra frambjóðenda og sitjandi forseta um þau völd sem embættinu fylgja samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins.
Úr mbl.is (22.05.2012): … og m.a. bent á að fulltrúar nefndarinnar, sem hafi ætla til Kína til að rannsaka uppruna eftirlíkinganna, hafi verið hafnað um vegabréfsáritun. Sitthvað er þessa setningu að athuga. Betra hefði verið: ..og m.a. bent á að fulltrúa nefndarinnar, sem hafi ætla til Kína til að rannsaka uppruna eftirlíkinganna, hafi verið synjað um vegabréfsáritun.
Molaskrifari lét sig hafa það að horfa á upphaf útsendingar Evróvisjón frá Bakú fram yfir flutning íslenska lagsins. Hlustaði nógu lengi til að heyra íslenska þulinn tala um fólk sem kynni fullt af tungumálum, manninn sem sigraði keppnina og segja: Við höldum niðri í okkur andanum og krossum puttana. Ríkissjónvarpið á nú að geta betur en þetta.
Á skjánum (22.005.2012) var Pólverji nokkur titlaður forseti dýragarðs. Það hlýtur að vera afskaplega merkilegt og eftirsótt embætti!
Lesandi vakti athygli á undarlegri notkun orðsins kostulegur á dv.is (22.05.2012): ,,Blaðamenn hinnar opinberu Eurovision heimasíðu voru dolfallnir yfir kostulegum flutningi Gretu Salóme og Jónsa á laginu Never forget fyrr í kvöld.“ Molaskrifari tekur undir með lesanda. Orðið kostulegur á ekki við hér. Það er nú orðið notað nær eingöngu í merkingunni skrítinn , undarlegur.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
24/05/2012 at 23:16 (UTC 0)
Kærar þakkir, Eirikur. Landafræðin og höfuðáttirnar vefjast fyrir mörgum manninum á fréttastofunum þessa dagana !
Eiríkur skrifar:
24/05/2012 at 22:45 (UTC 0)
Bylgjufrétt fyrir nokkrum dögum: Báturinn sem fékk í skrúfuna í gærkvöldi var staddur norðan við Skarðsfjöruvita.
Hann var síðan lóðsaður til Vestmannaeyja. ??
Fréttamaðurinn sem skrifaði þetta ætti að leita sér að vinnu við hæfi.
Eiður skrifar:
24/05/2012 at 20:03 (UTC 0)
Takk fyrir þetta. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum þarf greinilega að læra landafræðina betur !
Ónefndur skrifar:
24/05/2012 at 19:53 (UTC 0)
Fyrir það fyrsta bið ég þig afsökunar á nafnleysi. Ég hef hins vegar aldrei kunnað við að koma fram undir nafni og starfstitli í athugasemdakerfum. Bið þig að virða það við mig.
Hvað varðar athugasemd þína um flugvélina sem, lenti með veikan farþega á Keflavíkurflugvelli. Vélin var jú sögð á leið frá Austurríki til Riga í Lettlandi, með viðkomu á Íslandi.
Ég starfa á fjölmiðli en fékk reyndar ekki umrædda tilkynningu til mín að vinna úr. Ég veit það hins vegar að þetta er orðrétt úr tilkynningu frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum.
Þegar ég sá þetta ræddi ég það við kollega minn hvaða rugl þetta væri og við komumst að þeirri niðurstöðu að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hljóti að hafa gert einhver mistök með Riga. Vélin hafi verið á leiðinni til Kosta Ríka!!
Réttmæt er ábending þín, en upptökin hjá lögreglunni. Örðugt er fyrir blaðamenn að bera þetta undir embættin því þau eru treg til svara. Þá hefði betur mátt koma því skýrar fyrir í fréttinni að um texta frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum væri að ræða.
Þakka fyrir mola, sem koma sér afskaplega vel.
kv,