«

»

Molar um málfar og miðla 918

Mikið af fíkniefnum og sterum fannst í vörugámi skips sem var að koma frá Rotterdam í Hollandi, var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (25.0.2012). Það er hægt að tala um vélarrúm skips, ekki vörugám skips. Hér hefði verið eðlilegra að segja til dæmis: Mikið magn af fíkniefnum og sterum fannst í (vöru)gámi um borð í skipi sem var að koma frá … Fleira var reyndar athugavert við orðalag í þessari frétt. Sagt var að saksóknari hefði krafist þyngstu refsinga tólf árum yfir Geir og tíu árum yfir Svavari. Hér hefði einhver þurft að lesa fréttina yfir áður en hún var lesin fyrir okkur.

Í þáttunum frá undankeppni evrópsku söngvakeppninnar sýndu norrænu sjónvarpsstöðvarnar dagskrána órofna. Ríkissjónvarpið tróð auglýsingum inn allstaðar þar sem flutt voru skemmtiatriði milli þess sem keppendur komu fram. Einnkennileg framkoma gagnvart íslenskum áhorfendum. Það er eins og Molaskrifara minni að til séu reglur um að rjúfa ekki samfellda dagskrá með auglýsingum. Kannski er það misminni, en sé svo, eru þær reglur greinilega ekki ætlaðar til þess að eftir þeim sé farið.

Molaskrifari staðnæmdist á laugardagsmorgni (26.05.2012) við um það bil viku gamlan endurfluttan morgunþátt í Útvarpi Sögu þar sem rætt var við Guðmund Kjartansson hagfræðing sem sagði ýmislegt af skynsemi. Umsjónarmenn, einkum þó annar þeirra, voru hinsvegar eins og til hliðar við umræðuefnið.

Perry líst vel á Ísland, var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins (27.05.2012). How do you like Iceland?

Verð á hlutabréfum í spænskum banka lækkuðu var sagt var í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (28.05.2012) Verð á hlutabréfum lækkaði, hlutabréf lækkuðu í verði.

Það voru mikil heimskupör á sínum tíma þegar stjórnendur símaskrár settu fegraða mynd af hálfgerðu vaxtartrölli utan á símaskrána. Vakti þetta mótmæli. Leitarvélin sem ja.is notast við er heldur ekki nægilega greind. Sé einhver smáskekkja í innslætti koma jafnan villuboðin: ,,Ekkert fannst” á skjáinn. Molaskrifari þurfti að finna raftækjaverkstæði sem, kennt var við eiganda sinn með fornafni og föðurnafni. Hann vissi líka við hvaða götu verkstæðiðvar. Hann sló inn rafvélaverkstæði og raftækjaverkstæði. Í prentaðri símaskrá fann hann að fyrirtæki heiti rafvélavinnustofa. Vandaðar leitarvélar koma manni á sporið þótt ekki sé hárrétt slegið inn.

Fram hefur komið í fréttum að símkerfi Ríkisútvarpsins hafi nánast hrunið í vikunni þegar sýndur var rangur þáttur í amerísku sápuseríunni Leiðarljósi. Þetta varð til þess að Molaskrifari horfði stundarkorn á þetta fyrirbæri sem svo mjög raskaði hugarró sumra áhorfenda. Skemmst er frá því að segja að öllu hallærislegra og verr leikið efni minnist Molaskrifari þess varla að hafa séð á skjánum. Þetta var með ólíkindum. Gömlu Dallasþættirnir sem NRK hefur verið að endursýna í vetur voru eiginlega eins og listaverk við hliðina á þessari lágkúru. En svona rækir Ríkissjónvarpið menningarhlutverk sitt; Hamslausar húsmæður (Desperate Housewives,- þýðinguna á Sigurður Hreiðar) og Leiðarljós. Lengi lifir í Efstaleiti það lélegasta úr bandarískri fjöldaframleiðslu fyrir sjónvarp!

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Axel skrifar:

    Aðþrengdar eiginkonur hafa verið tilnefndar og unnið til fjölda virtra verðlauna – t.d. Emmy og Golden Globe verðlauna. Ekki síst fyrstu þáttaraðirnar sem þóttu sérlega vel heppnaðar. Þreytumerki eru þáttunum, enda eru þeir að renna sitt skeið á enda. Ég vil sérstaklega minnast á þá frábæru leikkonu Felicity Huffman sem leikur Lynette. Hún var meðal annars tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir magnaða túlkun sína í kvikmyndinni Transamerica.

    Það eru engin ný tíðindi að sápuóperur séu hallærislegar og illa leiknar. En ég get ekki séð neina skaðsemi í því að sína þetta á daginn fyrir fólk sem vill stytta sér stundir. Mikið af eldra fólki hefur til dæmis lúmskt gaman að.

  2. Eiður skrifar:

    Þessi leitarvél þeirra er alveg sérdeilis illa gefin. Nei, um smekk verður ekki deilt,- rétt er það.

  3. Arnbjörn skrifar:

    Eg sló inn Rimaapóteki á leit.is. Leitin bar engan árangur. Ástæðan reyndist við nánari eftirgrennslan vera sú að eigendur fyrirtækisins bera ekki meiri virðingu fyrir íslenskum réttritunarreglum en svo að þeir stafsetja sjálfir heiti lyfjaverslunarinnar ‘Rima Apótek’. Þannig tekst þeim að brjóta reglur um eitt orð og tvö annars vegar og stóran staf og lítinn hins vegar í sama orðinu.
    Ekki finnst mér sanngjarnt að leggja Aðþrengdar eiginkonur og Leiðarljós að jöfnu. Viðurkenni þó að þreytumerki eru farin að sjást á fyrrnefndu þáttaröðinni. En um smekk þýðir víst ekki að deila.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>