«

»

Molar um málfar og miðla 919

Molalesandi sendi eftirfarandi (28.05.2012) Húseiganda í Reykjarnesbæ brá heldur í brún á aðfararnótt laugardagsins. Þegar hann kom heim voru þar fyrir tveir bláókunnugir karlmenn samkvæmt tilkynningu lögreglunnar á Suðurnesjum.
Einhvern veginn svona hljóðaði frétt á vefsíðu Vísis um miðjan dag í dag, mánudag. Mikið er nú lögregla þeirra Suðurnesjamanna tillitssöm að tilkynna húsráðendum um bláókunnuga karlmenn í íbúð þeirra. Húsráðendum bregður þá væntanlega ekki jafn mikið við og ef lögrreglan léti það vera að gera viðvart.
Þá var tönnlast á því í fréttum Ríkisútvarpsins, að Svíar hefðu gersigrað keppnina – þ.e. söngvakeppni Evrópu. Keppnin á sér þá vart viðreisnar von svo gersigruð sem hún er nú orðin og geta Íslendingar þá væntanlega hætt að hugsa um að gersigra heiminn á þeim vettvangi Er orðin leitun að þeirri keppni, sem einhvern tímann er ekki búið að gersigra samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins. Óskiljanleg þessi þrákelkni að halda alltaf keppnunum áfram þrátt fyrir ítrekaðan gersigur á þeim. Að gersigra keppni er auðvitað allt annað en að gersigra í keppni. eins og allir snuddgreindir fréttamenn eiga að vita – jafnvel íþróttafréttamenn.
Í fréttum á vefsíðu Mogga um sama viðburð var fyrsta frétt: „Ísland hlaut 48 stig“. Önnur frétt: „Svíar unnu“. Miklir menn erum við nú, Hrólfur minn”. Molaskrifari þakkar sendinguna.

Fleiri áratugir eru síðan þessu ákvæði var beitt, sagði fréttamaður í fréttum Ríkissjónvarps (26.05.2012). Fleiri en hvað? Hér hefði átt að tala um marga áratugi, ekki fleiri áratugi.

Lagið sem sigraði keppnina kom við sögu í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (27.05.222012). Keppnin tapaði sem sé. Það er erfitt að hafa þetta rétt.

Visir.is (29.005.2012): Hann var stöðvaður nokkru siðar í Þingholtinu og er ökumaðurinn grunaður um vímuefnaneyslu. Ekki mikil staðarþekking fyrir hendi hjá þeim sem skrifaði þetta. Hluti af Reykjavík, gamla bænum, er kallaður Þingholtin. Þingholt er hinsvegar veitingastofa á Hótel Holti við Bergsstaðastræti.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þessar ambögur glymja næstum daglega í eyrum, Kristján.- Því miður.

  2. Kristján skrifar:

    „Mitt Romney sigraði forkosningar“ var sagt í Bylgjufréttum í gær. Ungi íþróttafréttamaðurinn á RÚV segir oft frá fólki sem sigrar mót.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>