«

»

Molar um málfar og miðla 920

Fjölmiðlar sem segja fólki ósatt, – ljúga að hlustendum eða lesendum eru hættulegir fjölmiðlar, skaðvaldar í samfélaginu. Á fimmtudagsmorgni (31.05.2012) var tönnlast á því í þætti í Útvarpi Sögu að starfsmenn íslensku utanríkisþjónustunnar greiddu ekki skatta. Nytu skattfrelsis. Þetta var að líkindum endurtekinn þáttur frá deginum áður. Þarna voru að verki þau Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri og Pétur Blöndal alþingismaður Sjálfstæðisflokksins. Starfsmenn íslensku utanríkisþjónustunnar borga tekjuskatt, útsvar og önnur opinber gjöld af launum sínum. Þessvegna eru þessi ummæli ósönn. Útvarp Saga sem er aðalmálgagn Ólafs Ragnars Grímssonar notar reyndar hvert tækifæri til að níða íslensku utanríkisþjónustuna og starfsmenn utanríkisráðuneytisins. Þetta eru ekki einu ósannindin sem Útvarp Saga ber á borð. Skemmst er minnast margendurtekinna fullyrðinga um að Björgólfur Thor Björgólfsson valsaði um veröldina veifandi íslensku diplómatavegabréfi. Hann hefur aldrei haft slíkt vegabréf og þessvegna var þetta uppspuni frá rótum. Ósannindi af þessu tagi ættu að varða við lög. Til hvers eru fjölmiðlalög? Fleiri dæmi um ósannindi, lygar, mætti nefna úr þessum fjölmiðli.

Meðan eldhúsdagsumræður geisuðu í Ríkissjónvarpi horfði Molaskrifari á upptöku af þætti um Hauk Morthens sem sýndur hafði verið kvöldið áður. Fínn þáttur. Haukur var einstaklega ljúfur söngvari , fór vel með texta og gerði allt vel sem hann gerði. Andrés Indriðason hefur áður gert smekklega þætti úr efni í safni Sjónvarpsins. Gjarnan mættum við fá að sjá meira af slíku. – Í skjátexta var farið rangt með höfund lagsins Til eru fræ. Hann hét ekki E. Szentirnay. Lagið samdi Oskar Merikanto, þekkt finnst tónskáld. Ljóðið sem Davíð Stefánsson gerði við lagið á ríkan þátt í vinsældum þess hér á landi.

Visir.is (30.05.2012): Hann var að fara erlendis í morgun þannig hann kom bara hingað í gærkvöldi. Býsna algengt er að sjá þetta orðalag. Betra hefði verið: Hann var á förum til útlanda og ætlar að vera erlendis í viku

Þegar endurtekning sjöfréttanna hófst í tíufréttum Ríkissjónvarpsins (29.05.2012) leit Molaskrifari aðeins á ÍNN. Sjónvarpsstjórinn var á skjánum, lét illa og hafði hátt,- öskraði eiginlega og var fremur ófriðlegur. Hafði uppi stór orð og þung og bætti svo við: Er mér sagt. Hann hafði sennilega hitt Gróu á Leiti. Ég flúði. Gólandi reiðir menn á skjánum koma alltaf illa fyrir heima í stofu þar sem fólk situr í rólegheitum.

Sjónvarpsstöðvar sem eru með dagskrá á fleiri en einni rás geta leyft sér að leggja hluta einnar rásar að undir tiltekið íþróttaefni eins og til dæmis knattspyrnu. Nú er framundan að dagskrá Ríkissjónvarpsins á þeirri einu rás sem nær til allra verði snúið á haust og hún lögð undir Evrópukeppni í knattspyrnu. Það getur stöð með eina rás ekki leyft sér. Það er gerrræði gegn þeim nauðungaráskrifendum sem ekki elska knattspyrnu. Um Ólympíuleikana sem einnig eru framundan gildir reyndar dálitið annað. Þar er um fjölmargar greinar íþrótta að ræða og keppni fer fram lungann úr deginum.

Illugi Jökulsson vitnar í Eyjuna á bloggi sínu (30.05.2012) þar sem segir: „Segir Jón Steinar að Þorvaldi hafi brostið kjark til að hafa þær ávirðingar uppi „svo nálægt augum almennings á Íslandi.““ Hér hefðu þeir Eyjumenn betur skrifað: Segir Jón Steinar að Þorvald hafi brostið kjark … Mig brestur kjark, ekki mér brestur kjark.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sæll Sigurður, – kærar þakkir fyrir þetta. Mjög lengi, -hefur þetta lag verið eignað Merikanto hér á landi. Ég fór sömuleiðis á netið http://www.icetones.se/textar/t/til_eru_frae.htm áður en ég skrifaði þetta og fann þar að hann var skráður höfundur lagsins,sem ég taldi mig reyndar vita. Ég hef greinilega ekki leitað nægilega vel. Kannt þú skýringu á þessum ruglingi?. Hér skulum við hafa það sem sannara reynist. Kærar þakkir.

  2. Sigurður Karlsson skrifar:

    Sæll Eiður.
    Ég má til með að leiðrétta þig varðandi lagið við Til eru fræ. Það var áður skráð ýmist sem rússneskt þjóðlag eða eftir Oskar Merikanto hjá Ríkisútvarpinu. Seinni tíma athuganir, sem ég átti vissan þátt í, leiddu hins vegar í ljós að það er eftir ungverska tónskáldið Elemer Szentirmay.

    Sjá hér: http://www.classicalarchives.com/work/718838.html

    Um tónskáldið má lesa hér: http://sv.wikipedia.org/wiki/Elem%C3%A9r_Szentirmay

    Nafn lagsins, Mustalainen, er finnska og er notað um sígauna eða Roma fólkið.

  3. Eiður skrifar:

    Ríkissjónvarpið hefur l´ðika skyldur gagnvart þeim sem greiða nefskatrtinn og hafa engan áhuga á fótbolta. Sumt af þessu mætti sýna ´seint á kvöldin eða snemma á morgnana. Auðvitað á að sýna eitthvað frá þessu móti, en ekki snúa allri dagskránni á haus vegna EM. Hversvegna er það furðulegur hugsunarháttur ? Ég viðra mínar skoðanir undir fullu nafni og hlýt að hafa leyfi til þess.

  4. Gunnar skrifar:

    Evrópumótið í knattspyrnu er á fjögurra ára fresti. Má ég ekki njóta minnar áskriftar og þeirra 17.00 kr. sem ég greiði á ári hverju fyrir RÚV? Ég horfi ekki hina 11 mánuðina á ári.

    Mér finnst þetta einkennilegur hugsunarháttur hjá fyrrverandi sendiherra og ráðherra. RÚV er sjónvarp allra landsmanna, ekki satt? Má ég ekki fá að njóta Evrópumótsins í knattspyrnu á fjögurra ára fresti? Er það til of mikils ætlast?

    Einn daginn kvartar fólk yfir að handboltinn sé ekki á RÚV þegar íslenska landsliðið spilar á stórmóti og næsta dag kvartar fólk yfir því þegar stórmót í knattspyrnu er á RÚV. Alveg makalaust.

    Sem betur fer ræður þú ekki ríkjum í Efstaleiti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>