«

»

Molar um málfar og miðla 922

 

Lesandi vitnar í mbl.is (31.05.2012): Leikararnir Gunnar Helgason og Magnús Guðmundsson fara með hlutverk Múnkhásens á ólíkum aldri. Hann spyr: ,,Er orðið mismunandi alveg orðið ónothæft í íslensku máli, eða er kannski búið að fella það burt?” Molaskrifari tekur undir þetta. Von er að spurt sé.

 

Morgunblaðið gerði (31.05.2012) mikið úr því að útibúum banka og sparisjóða hefur fækkað mikið hér á landi undanfarin ár. Fjórdálkur á forsíðu og fréttaskýring inni í blaðinu. Er þetta nokkuð óeðlilegt þegar þess er gætt að um 80% viðskiptavina bankanna nota sér nú rafræna bankaþjónustu ýmist heiman að frá sér eða í hraðbönkum? Sparisjóðirnir eru nánast horfnir. Upphaf atlögunnar og eyðileggingar sparisjóðanna voru ekki síst óteljandi þingræður Péturs Blöndals alþingismanns Sjálfstæðisflokksins um það að í sparisjóðunum væri ógrynni fjár ,án hirðis og það fé yrði að nýta. Þá tóku til hendi fjármálavíkingar og tæmdu sparisjóðina af alkunnri atorkusemi. Skemmst er að minnast harmsögunnar á Suðurnesjum þar sem starfaði öflugur sparisjóður í Keflavík, sparisjóðs Mýrasýslu í Borgarnesi að ógleymdum Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Allt voru þetta fjármálastofnanir sem almenningur gat treyst. Allt þar til misyndismenn á sviði fjármála létu til skarar skríða. En er það ekki enn svo að bankaútibú eru fleiri hér á landi miðað við íbúafjölda en í grannlöndum okkar? Molaskrifari þykist muna að hafa lesið það einhversstaðar ekki fyrir löngu. Molaskrifari tekur undir hvert orð sem  Styrmir Gunnarsson fv. ritstjóri skrifar í vikulegum pistli sínum í Sunnudagsmogga. Fyrirsögnin er: Mótmæli sem engin rök eru fyrir. –  Það er satt og rétt. Lýðskrumið á Alþingi náði nýjum í þessu máli.

 

Það er ekki vandað mál að segja um deilumál að mál séu í ágreiningi eins og gert var í kvöldfréttum Ríkisútvarps (31.05.2012). Deilt er um málið, ágreiningur er um málið, mætti til dæmis segja.

 

Það þykir sem sagt ekki kúl að reykja, – spurði fréttamaður Stövar tvö unglinga sem rætt var við í fréttum (31.05.2012) . Það er engin ástæða til að tala óvandað mál við unglinga eins og hér var gert.

 

Missti alsælu úr leggöngunum í Leifsstöð er athyglisverð fyrirsögn (visir.is 01.06.2012). Fréttin var um konu sem var að smygla eiturlyfinu alsælu til landsins.

 

Á Króksfjarðarnesi var sagt í fréttum Ríkissjónvarpsins (31.05.2012). Molaskrifari hallast að því að heimamenn segi í Króksfjarðarnesi. Jafnan skal virða málvenju heimamanna þegar kemur að notkun forsetninga með staðanöfnum. Í sama fréttatíma var talað um að gögn sem haldlögð voru verði skilað. Betra hefði verið: … að gögnum sem haldlögð voru verði skilað. Þá var í þessum fréttatíma talað um að ný leiksýning yrði frumsýnd. Molaskrifari er ekki sáttur við það orðalag. Ekki er eðlilegt að tala um að sýning sé sýnd.

 

Aðalflugvöllur Oslóar heitir ekki Gardemo eins og marglesið var í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (02.06.2012). Flugvöllurinn heitir Gardermoen. Gísli Kristjánsson í Osló var að sjálfsögðu með þetta rétt í pistli sem fréttinni fylgdi. Í sama fréttatíma var talað um framsögumann tillaganna, (tvílesið), átti að vera framsögumann tillagnanna. Þá var talað um að kjósa gegn tillögu. Kannski er það sérviska Molaskrifara en hann hallast að því á því að frekar eigi að tala um að greiða atkvæði gegn tillögu en að kjósa gegn tillögu. Að endingu þá er ekki til neitt sem heitir hjólreiðauppboð, – heldur reiðhjólauppboð. Þulir verða að hlusta á sig lesa. Grundvallarregla.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Magnús skrifar:

    Við skulum endilega kalla höfuðborg Noregs Ósló en ekki Osló (borið fram Ossló).

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>