«

»

Molar um málfar og miðla 923

Visir.is (03.06.2012): Farþegaþota klessti á tveggja hæða byggingu í næst stærstu borg Nígeríu, Lagos, nú fyrir stundu. Það á að vera refsivert að láta fólk sem skrifar svona ganga laust á netmiðlunum. Það á að senda þann sem skrifaði þetta aftur í leikskólann. Leikskólakennurum er alveg treystandi til að lagfæra málfar hans.

 

Molavin sendi eftirfarandi: Börn, sem koma frá brotnum heimilum… var ítrekað sagt í hádegisfréttum útvarps í dag (02.06.2012) , laugardag. Ég kannast ekki við þá málvenju að kalla þau heimili „brotin“ þar sem félagslegar aðstæður ógna velferð barna. Þetta er nánast orðabókarþýðingu úr ensku; broken homes. Í fréttinni var samt augljóslega átt við skilnaðarbörn, enda fjallaði hún um sameiginlegt forræði fráskilinna foreldra. Ensk málvenja og tungutak lauma sér um opnar og ólæstar bakdyr fjölmiðla inn í íslenska tungu. Réttmæt athugasemd.

Molavin segir einnig: Þegar íslenzk fyrirtæki auglýsa Tax-Free dettur mér tvennt í hug: Annars vegar að ég treysti ekki fyllilega þeim, sem vilja ekki auglýsa á móðurmálinu – og hins vegar að þarna er vísvitandi sagt ósatt. Virðisaukaskattur er innheimtur. Annað væri lögbrot. Ég treysti ekki fyrirtækjum, sem ljúga vísvitandi að neytendum – og sniðgeng þau því markvisst. Molaskrifari er sammála.

 

Trausti Harðarson sendi eftirfarandi úr Námsvísi Háskóla Íslands (02.06.2012): Inntökuprófið kostar 9.000 kr. og er óafturkræft þó nemandi standist það eður ei og óháð því hvort umsækjandi standi við umsókn eður ei.
Og á öðrum stað:
Prófgjaldið er 9.000 krónur og er það óafturkræft, hvort heldur umsækjandi stenst prófið eða fellur og hvort sem það stendur við umsókn eða ekki.
Heldur svona klént af æðstu menntastofnun landsins, þykir mér.
Molaskrifari er á þvþí að þetta sé ekki heldur klént , heldur afspyrnu slæmt.

 

Meira frá Trausta Harðarsyni: ,,Vara Bandaríkjamenn við miðbæ Reykjavíkur. Óspektir um helgar sagt vandamál
Trausti spyr: Hvernig er það, getur ekki Hádegismóri frætt undirmenn sína svolítið um notkun íslensks máls?”

 

Ómar Ragnarsson tók myndirnar síðasta fimmtudag, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (02.06.2012). Það hefur oft verið nefnt hér áður að það eins og fréttamenn hafi ekki lengur á valdi sínu að segja: Á fimmtudaginn var. Hér hefði nægt að segja: Ómar Ragnarsson tók myndirnar á fimmtudaginn. Nú er nánast aldrei talað um fyrra vor eða fyrra vetur. Alltaf síðasta vor, síðasta vetur. Málfarsráðunautur hefur hér verk að vinna.

 

Visir.is flytur lesendum sínum merkilega frétt (02.06.2012) um mann og konu sem duttu á höfuðið í miðbænum ! Sjá http://www.visir.is/madur-og-kona-duttu-a-hofudid-i-midbaenum/article/2012120609828

 

Krýningarafmæli til fjögurra dag , segir í fyrirsögn á mbl.is (02.06.2012). Hátíðarhöld vegna krýningarafmælis í fjóra daga hefði verið betra.

 

Andrea J. Ólafsdóttir nú forsetaframbjóðandi hrósaði því í hástert í viðtali við Ríkissjónvarpið við þingsetninguna í fyrra að ýmsu lauslegu skyldi kastað í þingmenn á leið milli dómkirkju og þinghúss. Þegar fréttamaður trúði ekki sínum eigin eyrum og endurtók spurninguna ítrekaði Andrea J. Ólafsdóttir ánægju sína. Þetta viðtal er ekki lengur að finna á vef Ríkisútvarpsins. Hversvegna var það fjarlægt? Ríkisútvarpið, útvarpsstjóri, á að svara því.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>