Í Morgunblaðinu (12.06.2012) er sagt frá mikilli gönguferð sex kvenna um Ísland frá Hornvík að Eystrahorni. Sagt er að konurnar ætli að ganga niður Hornstrandir. Molaskrifara finnst þetta svolítið undarlega til orða tekið. Vissulega er þetta niður á landakortinu! Þegar við hér í Reykjavík förum norður á Strandir þá förum við ekki upp á Strandir.
Í fréttum Stöðvar tvö var (11.06.2012) var sagt frá íslenskri konu sem fór til Indlands til að gefa egg. Í fréttinni kom í ljós að konan var ekki að gefa úr sér egg. Aldeilis ekki. Hún var að selja úr sér egg á eitt þúsund dollara stykkið. Það á að nefna hlutina réttum nöfnum. Í sama fréttatíma var talað um sjúkling sem beðið hefði í fleiri mánuði … Hér hefði farið betur á að tala um marga mánuði. Ekki fleiri mánuði. Fleiri en hvað?
Meðan endalaust og innantómt fótboltafjas og fimbulfamb var allsráðandi í svokallaðri EM-stofu Ríkissjónvarpsins (11.06.2012) horfði Molaskrifari á aldeilis magnaða heimildamynd frá BBC (2012) í norska ríkissjónvarpinu (NRK2). Myndin heitir Louis Theroux:Autisme. Það er örugglega til of mikils mælst að þessi merkilega mynd hljóti náð fyrir augum þeirra sem velja efni handa okkur í Ríkissjónvarpinu.
Þrír menn fastir um borð í vélarvana bát, segir í fyrirsögn á dv.is (12.06.2012). Hvernig fastir? Undarlegt orðalag.
Skylda okkar að vernda börn frá kynferðisglæpamönnum, segir á forsíðu dv.is (12.06.2012) Í samræmi við íslenska málvenju er talað um að vernda einhvern fyrir einhverju eða gegn einhverju, ekki frá einhverju.
Staðan var tvö eitt fyrir Grikklandi, var sagt í fimmfréttum Ríkisútvarpsins (12.06.2012). Betra hefði verið að segja. Staðan var tvö eitt Grikklandi í vil. Eða: Staðan var tvö eitt fyrir Grikkland.
Molaskrifari hrekkur alltaf svolítið við þegar í blaðagreinum er gripið til nasista- eða fasistasamlíkinga. Sumum hörðustu ESB andstæðingunum er þetta raunar afar tamt. Halldóri Blöndal fyrrum ráðherra og þingforseta verður þetta á í Morgunblaðsgrein (12.06.2012) og Morgunblaðinu finnst svo mikið til um að tilvísunin til fasismans er tekin út úr greininni og prentuð með henni með stærra letri en meginmálið. Halldór segir og er að tala um Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra: Þessi svör forsætisráðherra eru eins og tekin upp úr revíu frá Mússólínitímabilinu Það batnar engin grein við fasistatilvísanir. Það stækkar heldur enginn við slík skrif. Slíkt bara smækkar.
Það eru fleiri en Molaskrifari sem hafa ýmislegt við rekstur Ríkisútvarpsins að athuga. Kunnur útvarps- og sjónvarpsmaður Þorsteinn J. Vilhjálmsson skrifaði nýlega í DV: http://www.dv.is/blogg/adsendar-greinar/2012/6/12/thorsteinn-j-aefingarnar-ganga-vel-i-baku/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
14/06/2012 at 15:25 (UTC 0)
Gaman að þessu, Jón. Skoða það betur seinna. Í Efstaleiti gera menn ekkert rangt og leiðrétta yfirleitt ekkert nema helst ef farið er rangt með mannanöfn. Það virðist stefna fréttastjórans. Engar leiðréttingar . Látum vitleysurnar standa. Fólk gleymir þeim. Ég skynjaði þetta áður en ég fór að skrifa Mola þá sendi ég stundum það sem ég kallaði ,,vinsamlegar ábendingar“ til fréttastofu ef eitthvað skolaðist til eða málvillur voru í fréttum. Var aldrei virtur svars, – utan einu sinni.
Jón skrifar:
14/06/2012 at 12:33 (UTC 0)
RÚV ætti kannski að gera eins og fréttastofa sænska útvarpsins gerir, setja vitleysurnar og mismælin á netið.
http://sverigesradio.se/sida/artikel.aspx?programid=83&artikel=573978